Þrátt fyrir að stunda fremur afmarkaða og einfalda framleiðslu á bleikju er fyrirtækjanet fiskeldisfélagsins Matorku stórt og flókið. Frá því að félagið Íslensk matorka ehf. var stofnað árið 2010 hefur það félag og eignarhaldsfélag þess, sem síðar var stofnað, bæði skipt um nafn og verið margfært milli eignarhaldsfélaga. Af ársreikningum félagsins má sjá að síðastliðin ár hefur félagið verið í tugmilljóna tapi þrátt fyrir háa styrki frá sjóðum svo sem Rannís, Nordic Innovation, Nora og AVS.
Árið 2011 var 5 prósenta hlutur í Íslenskri matorku seldur til Eignarhaldsfélags Suðurlands, félags í eigu Byggðastofnunar, sveitarfélaga á Suðurlandi og fjárfesta, fyrir 20 milljónir króna. Nafnverð þessa hlutabréfa var 648.875 krónur. Samkvæmt ársreikningum var ári síðar 88 prósent hlutur í eignarhaldsfélagi sama félags, seldur á 440 þúsund krónur. Nafnverð þeirra hlutabréfa var 13.666.667 krónur.
Því má gróflega segja að eitt prósent hlutur í félaginu hafi verið seldur til fjárfestingasjóðs fyrst og fremst í eigu ríkisins á fjórar milljónir meðan eigendur mátu eitt prósent hlut ári síðar á fimm þúsund krónur.
Líkt og hefur komið fram fékk Matorka nýverið óvenju góðan ívilnasamning þrátt fyrir ýmsa vankanta á rekstri félagsins.
Samkvæmt skýrslu stjórnar Íslenskrar matorku 22. apríl síðastliðinn hefur eldi á fiski til markaðsstærðar gengið mjög illa.
Byrjuðu á Hekluborra
Eignarhaldssaga þessa fimm ára félags er flókin. Líkt og fyrr segir var félagið Íslensk Matorka ehf. stofnað árið 2010 í þeim tilgangi að stunda fiskeldi á svokallaðri tilapia eða Hekluborra. Stofnhluthafar voru þrír; Landás ehf., Nova Investment ehf. og Svinna-verkfræði ehf. Það ár keypti félagið þrotabú á Suðurlandi sem innihélt fiskeldisstöðvar í Galtalæk og Fellsmúla upp í Landsveit. Ári síðar fékk félagið lán frá Byggðastofnun og Eignarhaldsfélag Suðurlands, sem líkt og fyrr segir er að hluta í eigu Byggðastofnunar, kaupir 5 prósent hlut fyrir 20 milljónir.
„Án þessarar sölu stefnir félagið hraðbyri í gjaldþrot“
Skipti um nafn
Árið 2011 er félagið Matorka stofnað og stofnendur Íslenskrar Matorku selja sína hluti í síðarnefnda félaginu inn í Matorku. Ári síðar er svo IceAq ehf. stofnað og er 88 prósent hlutur í Matorku seldur til IceAq fyrir alls 444 þúsund krónur. Stuttu síðar er svo Matorka Holdings stofnað í Sviss og IceAq selt inn í það félag. Það var svo fremur nýlega sem félögin skiptu um nafn, IceAq varð Matorka og það sem áður hét Matorka heitir nú Rannsóknir og Þróun ehf. Í dag er staðan sú að Matorka, áður Iceaq, á 88,17 prósent í Rannsóknir og þróun, áður Matorku, sem á svo aftur um 82,95 prósent í Íslenskri Matorku.
Athugasemdir