Írakski hælisleitandinn Raisan Al-Shimani hefur verið í hungurverkfalli í meira en tvær vikur og er verulega af honum dregið. Þegar vinir hans ætluðu að þiggja heimboð hans í gær, veita honum félagsskap, umönnun og andlegan stuðning, var þeim meinaður aðgangur á grundvelli banns sem Útlendingastofnun hefur sett við gestakomum til hælisleitenda.
Til að hitta félaga sína þurfti því Raisan, sem er máttfarinn eftir að hafa ekki neytt matar í 16 daga, að fara út og hitta fólkið fyrir utan húsið. „Á einhvern ótrúlegan hátt hafði hann orku í það,“ segir einn vinanna í samtali við Stundina.
Á innanverðri hurðinni á dvalarstað hælisleitenda að Grensásvegi blasir við tilkynning frá Útlendingastofnun þar sem fram kemur að hælisleitendum sé stranglega bannað að fá heimsóknir og verði reknir burt ef þeir óhlýðnast.
Engin undantekning var gerð á reglunni þrátt fyrir bágt ástand Raisans í gær. „Við komum að lokuðum dyrum og öryggisvörður meinaði okkur um inngöngu. Raisan kom út fyrir. Hann drekkur vatn en nú er farið að draga af honum og við óttumst að brátt verði ör hnignun þegar næringarskorturinn fer virkilega að segja til sín,“ segir Gunnar Örvarsson, einn af félögum Raisans, í samtali við Stundina.
Létu Útlendingastofnun
vita þremur dögum áður
Vinir Raisans höfðu gert Útlendingastofnun viðvart um heimsóknina með þriggja daga fyrirvara. Á þriðjudaginn afhentu þeir stofnuninni formlegt bréf þar sem fram kemur að mikilvægt að sé Raisan fái notið stuðnings og umönnunar vina sinna. „Vitaskuld verður tekið fyllsta tillit til annars heimilisfólks,“ segir meðal annars í bréfinu.
Athugasemdir