„Í dag 11. apríl er komið eitt ár frá því elskulegi drengurinn okkar tók þá ákvörðun að kveðja okkur,“ skrifar Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsleiðtogi á Akranesi, „og það skal alveg viðurkennast að þetta ár hefur verið erfitt og tekið á . Því verður t.d. ekki lýst í fáum orðum hversu sárt við söknum hans og það er t.d. svo sorglegt fyrir börnin hans tvö að hafa ekki pabba sinn hjá sér, því þau elskuðu hann og dáðu.
Því miður er lífið svona og það getur verið miskunnarlaust, en höfum hugfast að engin fjölskylda mun komast í gegnum lífið án þess að sorgin banki ekki einhvern tímann uppá. Munum að lífið er ekki sjálfgefið.
Það er því mikilvægt fyrir allar fjölskyldur að huga vel að sínum nánustu, því enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og einnig veit enginn hvað morgundagurinn ber í skauti sér.“
Pabbar geta grátið
Færsluna birti Vilhjálmur á Facebook. Vilhjálmur hefur rætt opinskátt um sonarmissinn, en aðeins tveimur dögum eftir fráfall sonarins skrifaði hann hjartnæmt bréf til hans og birti á vefnum. Þar sagðist hann sitja á skrifstofunni og hugsa um lagið sem Helgi Björnsson söng, Geta pabbar ekki grátið? „Jú, pabbar geta svo sannarlega grátið því tárin streyma niður í hvert sinn sem ég slæ á lyklaborðið, en þetta hjálpar mér og það er gott.“
Athugasemdir