Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Hvorki gert ráð fyrir endurgerð á húsnæði gamla spítalans né tækjakaupum fyrir nýja spítalann

Stjórn­end­ur Land­spít­al­ans segja fjár­mála­áætl­un benda til þess að rík­is­stjórn­in vilji færa heil­brigð­is­þjón­ustu til veit­enda ut­an sjúkra­húsa. Fjár­mála­ráð­herra tel­ur einka­rekst­ur já­kvæð­an fyr­ir sjúk­linga og heil­brigð­is­ráð­herra sagði allt tal um nið­ur­skurð vera „fals­frétt­ir“.

Hvorki gert ráð fyrir endurgerð á húsnæði gamla spítalans né tækjakaupum fyrir nýja spítalann

Hvorki er gert ráð fyrir tækjakaupum vegna nýs Landspítala né nauðsynlegri endurgerð eldri húsa við Hringbraut í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Sú forgangsröðun sem birtist í áætluninni bendir til þess að ríkisstjórnin vilji kynda undir þeirri þróun að heilbrigðisþjónusta færist frá sjúkrahúsum og til veitenda utan sjúkrahúsa, svo sem á einkareknum læknastofum.

María Heimisdóttirfjármálastjóri Landspítalans.

Þetta kemur fram í umsögn forstjóra og fjármálastjóra Landspítalans um áætlunina. Eins og Stundin greindi frá í gær þurfa sjúkrahús á Íslandi að skera niður í rekstri um tæpa 5,2 milljarða á næstu fimm árum til að skapa svigrúm til nýrra verkefna. María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, fjallaði um þetta á ársfundi spítalans. Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur hins vegar afgreitt tal um niðurskurð í heilbrigðisþjónustu sem „falsfréttir“ (e. fake news). „Það eru hreinlega falsfréttir að niðurskurður sé í heilbrigðismálum vegna þess að það er verið að auka við í heilbrigðisþjónustu og eins og við vitum er gert ráð fyrir því í fjármálaáætlun að það sé aukið með forgangsröðun á velferðarmál eftir því sem líður á tímabilið,“ sagði ráðherra þegar rætt var um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar á Alþingi þann 6. apríl síðastliðinn.

„Það eru hreinlega falsfréttir að
niðurskurður sé í heilbrigðismálum“

Þegar Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, vakti athygli á gagnrýni Landspítalans og ummælunum um 5,2 milljarða hagræðingu í rekstri sjúkrahúsa á Alþingi í dag svaraði Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra: „Það er nú einu sinni þannig að þó að einhver segi að meira sé minna þá verður það ekkert minna við það. Það er ennþá meira, og framlög aukast mjög mikið til heilbrigðismála og þau munu aukast líka til Landspítalans.“

Vantar 10 milljarða á næsta ári

Umsögn Maríu og Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, hefur að geyma ítarlega gagnrýni á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Benda þau meðal annars á að strax á næsta ári vantar um 10 milljarða til rekstrar, nauðsynlegra tækjakaupa og annars stofnkostnaðar á Landspítalanum. 

Þau furða sig sérstaklega á áformum stjórnvalda um að auka fjárveitingar til þjónustu utan sjúkrahúsa margfalt á við það sem bætt er við rekstrargrundvöll sjúkrahúsa. Þetta gefi til kynna að ríkisstjórnin vilji kynda undir þeirri þróun að þjónusta færist frá sjúkrahúsum og til veitenda utan sjúkrahúsa.  

Birgir Jakobssonlandlæknir

Aðeins fáeinir dagar eru síðan landlæknir sendi út fréttatilkynningu þar sem hann sagði að túlkun heilbrigðisráðuneytisins á heilbrigðislögum opnaði á aukinn einkarekstur og einkavæðingu í íslensku heilbrigðiskerfi og vandséð væri hvernig heilbrigðisyfirvöld gætu haft stjórn á því hvert opinber heilbrigðisútgjöld rynnu. 

Í umsögn Páls og Maríu kemur fram sams konar gagnrýni á heilbrigðisstefnu stjórnvalda. „Nýja frumvarpið boðar meira af því sama þrátt fyrir að kalla eftir skýrari skilgreiningum á þjónustuframboði sem lykilatriði í skynsamlegri forgangsröðun. Samningur SÍ við sérgreinalækna hefur verið nefndur sem skólabókardæmi um óskilgreind og ótakmörkuð kaup á þjónustu fyrir almannafé. Samt er sífellt bætt við fjárframlög til þessa, jafnvel á fjáraukalögum enda virðist lítil sem engin stjórn sé á þessum útgjöldum. Ef litið er til rekstrar á miðlægri stjórnsýslu SÍ sést svipað mynstur - endurtekinn halli og sívaxandi kostnaður við rekstur, m.a. 33% hækkun ríkisframlaga bara milli áranna 2014 og 2015. Og enn á að bæta í,“ segir í umsögninni.

Telur einkarekstur í heilbrigðiskerfinu jákvæðan fyrir sjúklinga

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra sem lagði fram fjármálaáætlunina, er sjálfur fyrrverandi stjórnarformaður Sjúkratrygginga Íslands. Hann var skipaður af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þáverandi heilbrigðisráðherra og núverandi utanríkisráðherra, þegar stofnunin var sett á laggirnar árið 2008.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi fyrr í vikunni var Benedikt inntur eftir afstöðu sinni til tvöfalds heilbrigðiskerfis. „Hugnast honum það? Telur hann það samræmast ábyrgri ráðstöfun opinbers fjár að ótakmarkað fjármagn geti runnið úr ríkissjóði í einkageirann þar sem um er að ræða jafnvel fólk og aðila og fyrirtæki sem hagnast á heilsubresti?“ spurði Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna. Benedikt svaraði á þá leið að Sjúkratryggingar Íslands hefðu borgað margvíslega starfsemi einkalækna, einkarekinna læknastöðva, að hluta til á móti sjúklingum. „Ég veit ekki annað en mjög margir sjúklingar hafi fengið góðan bata þar. Þetta hefur stytt biðlista. Ég tel að það sé jákvætt fyrir sjúklinga.“ Þá sagði hann einnig að fara þyrfti vel með fjármunina sem rynnu til heilbrigðismála „Ég held að við getum verið sammála um það að hér á landi hefur verið einkarekstur í heilbrigðiskerfi um langa hríð. Hann hefur að stórum hluta verið borgaður af opinberu fé. Ég held að það sé sjúklingum til góðs að hér séu fleiri aðilar sem geta læknað þá. Ég held það hafi stytt biðlista í kerfinu að hér eru nú nokkrar stöðvar sem geta gert bæklunaraðgerðir og aðrar slíkar aðgerðir. Ég held að það sé sjúklingum til góðs. Ég held að við verðum alltaf að horfa á það þannig að við eigum að setja sjúklinginn í öndvegi.“

„Einkennileg forgangsröðun“

Páll Matthíassonforstjóri Landspítalans

Í umsögn Landspítalans um ríkisfjármálaáætlunina er fundið að áherslu sem lögð er á kaup á erlendri sjúkrahúsþjónustu. Einkennilegt sé að forgangsraða verulegum fjármunum til þjónustu utan Íslands þegar unnt er að veita sömu þjónustu hérlendis fyrir mun minna fé:

„Undir erlenda sjúkrahúsþjónustu fellur annars vegar mjög sérhæfð þjónusta sem ekki er hægt að veita hérlendis og hins vegar þjónusta sem sjúklingar hafa rétt á að sækja erlendis vegna óhóflegs biðtíma hér eða á grundvelli ESB tilskipunar um rétt sjúklinga til að leita sér þjónustu utan heimalands. Það er einkennilegt að sjá svo miklu fé ráðstafað til þessa verkefnis í ljósi þess að alger óvissa ríkir um eftirspurn eftir þessari þjónustu, og þess að biðlistaátak stjórnvalda mun væntanlega draga úr þeirri eftirspurn. Þetta fé væri betur nýtt í uppbyggingu þjónustu innanlands sem enn frekar myndi draga úr þessari meintu eftirspurn. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að fyrir liggur að sjúkrahúsþjónusta á LSH er miklum mun hagkvæmari en gerist t.d. á sænskum samanburðarsjúkrahúsum. Sjúklingar sem kjósa að sækja þjónustu erlendis á grundvelli ESB tilskipunarinnar fá ekki allan kostnað við þjónustuna greiddan, heldur einungis sem samsvarar því sem þjónustan kostar í þeirra heimalandi. Þannig fengi sjúklingur sem færi til Svíþjóðar til meðferðar aðeins greiddan um helming raunkostnaðar við meðferðina þar (ef marka má greiningu McKinsey) og þyrfti sjálfur að standa straum af hinum helmingnum. Það er því bjarnargreiði við neytendur að forgangsraða verulegum fjármunum til þjónustu utan Íslands þegar unnt er að veita sömu þjónustu hérlendis fyrir mun minna fé. Þetta verður að teljast mjög einkennileg forgangsröðun þegar markmið stjórnvalda hlýtur að vera að fá sem mesta og besta þjónustu á sem hagkvæmustu verði.“

Í umsögninni eru farið yfir ýmis atriði sem ekki er gert ráð fyrir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þennan kafla má lesa hér að neðan, en umsögnina í heild má nálgast á vef Alþingis

Í fyrsta lagi er ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði við endurgerð eldra húsnæðis LSH samhliða byggingu NLSH. Eins og kunnugt er voru byggingaráform um NLSH endurskoðuð rækilega í kjölfar bankahrunsins og verulega dregið úr þeirri framkvæmd sem áður hafði verið fyrirhuguð. Á móti var gert ráð fyrir að eldra húsnæði LSH yrði nýtt að verulegu leyti með hinum nýju byggingum. Endurgerð eldri bygginga er því forsenda þess að rekstur LSH rúmist innan NLSH og skili þeim rekstrarábata sem erlendir sérfræðingar svo og Hagfræðistofnun HÍ hafa reiknað með. Í öðru lagi virðist ekki vera gert ráð fyrir neinum kostnaði við kaup á tækjum og búnaði vegna NLSH en sá kostnaður mun að hluta til falla til innan tímabilsins  sem tillagan tekur til. Í tillögunni er mikil áhersla lögð á að hraða uppbyggingu við Hringbraut en ef ekki er hugað að öðrum þáttum, svo sem tækjum og endurgerð eldra húsnæðis, er hætt við að niðurstaða verkefnisins og notagildi þess verði með öðrum hætti en lagt var upp með. Landspítala hefur ekki tekist að finna í tillögunni nokkurt fjármagn til rekstrar sjúklingahótels né heldur til kaupa á búnaði fyrir hótelið. Samkvæmt áætlun á sjúklingahótelið að hefja rekstur haustið 2017. 

Hvergi er minnst á kostnað vegna lögbundins hlutverks LSH á sviði vísinda og mennta þó svo í tillögunni sé sérstaklega rætt um mikilvægi þessara þátta fyrir samfélagið. Sama gildir um fjölmörg önnur atriði sem LSH lagði fram í mati sínu á fjárþörf næstu 5 ára sem stjórnvöld kölluðu eftir í aðdraganda þessarar áætlanagerðar - ekkert fé virðist til þeirra ætlað. 

Í fjárveitingum til SÍ virðist gert ráð fyrir nokkrum kostnaði vegna innleiðingar nýs greiðsluþátttökukerfis sem taka á gildi 1. maí nk. Fyrir liggur að breytingin mun leiða til lækkunar sértekna LSH. E f Landspítala fær þetta ekki leiðrétt að fullu mun leiða til hagræðingarkröfu á spítalann. 

Fjárheimildir til S-lyfja vekja einnig áhyggjur ekki síst í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem nú er uppi í þeim málaflokki. Frá því skipulagi umsýslu S lyfja var breytt árið 2015 hefur kostnaður vegna þeirra aukist hratt, einkum vegna notkunar eldri lyfja og lítið svigrúm hefur verið til innleiðingar nýrra lyfja. Landspítali hafði varað sterklega við þessari breytingu m.a. vegna aukins kostnaðar við dreifingu í almennum apótekum. Nú hafa þær spár því miður gengið eftir og eru verulegur hluti þess fjárhagsvanda sem blasir við. 

Landspítali fagnar þeim vilja sem fram kemur í tillögunni að sérstaklega skuli nýta upplýsingatækni og opinber innkaup til að ná fram hagræðingu. Það er því ákaflega mikil vonbrigði að sjá að til upplýsingatækniverkefna (falla undir lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála í tillögunni) í heilbrigðisþjónustu eru aðeins ætlaðar að hámarki 355 milljónir á fimm ára tímabilinu sem samsvarar um 70 milljónum á ári að jafnaði. Þetta er ekki í neinu samræmi við þörfina varðandi rafræna sjúkraskrá og þær áherslur sem lagðar eru í tillögunni á nýtingu upplýsingatækni til að ná fram hagræðingu og aukinni framleiðni. Ekki virðist gert ráð fyrir neinum kostnaðarauka við að þróa opinber innkaup og byggja upp nauðsynlega innviði á því sviði. Því er hæpið að þau skili þeirri hagræðingu sem vænst er. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

ACD-ríkisstjórnin

Unnu náið með hæsta­réttar­dómurunum meðan þeir dæmdu Arn­fríðar­mál
Fréttir

Unnu ná­ið með hæsta­rétt­ar­dómur­un­um með­an þeir dæmdu Arn­fríð­ar­mál

Arn­fríð­ur Ein­ars­dótt­ir lands­rétt­ar­dóm­ari starf­aði sjálf sem vara­dóm­ari með tveim­ur þeirra hæsta­rétt­ar­dóm­ara sem tóku af­stöðu um hæfi henn­ar og bærni til að kveða upp dóma á sama tíma og mál­ið var til með­ferð­ar. Hinir þrír sem vald­ir voru í Lands­rétt í trássi við stjórn­sýslu­lög störf­uðu einnig ná­ið með hæsta­rétt­ar­dómur­un­um með­an Hæstirétt­ur tók fyr­ir mál sem hefði getað sett dóm­ara­störf fjór­menn­ing­anna í upp­nám.

Mest lesið

Mataræði er vanræktur þáttur í svefnvanda
2
Viðtal

Mataræði er van­rækt­ur þátt­ur í svefn­vanda

Góð­ur svefn er seint of­met­inn en vanda­mál tengd svefni eru al­geng á Vest­ur­lönd­um. Tal­ið er að um 30 pró­sent Ís­lend­inga sofi of lít­ið og fái ekki end­ur­nær­andi svefn. Ónóg­ur svefn hef­ur áhrif á dag­legt líf fólks og lífs­gæði. Svefn er flók­ið fyr­ir­bæri og margt sem get­ur haft áhrif á gæði hans, má þar nefna lík­am­lega og and­lega sjúk­dóma, breyt­inga­skeið, álag, kvíða, skort á hreyf­ingu og áhrif sam­fé­lags­miðla á svefn­gæði. Áhrif nær­ing­ar og neyslu ákveð­inna fæðu­teg­unda á svefn hafa hins veg­ar ekki vak­ið at­hygli þar til ný­lega.
„Við mætum í vinnuna til þess að sigra“
5
Á vettvangi

„Við mæt­um í vinn­una til þess að sigra“

Kona sem sit­ur á bið­stofu með fleira fólki er að grein­ast með heila­æxli og það þarf að til­kynna henni það. En það er eng­inn stað­ur sem hægt er að fara með hana á, til að ræða við hana í næði. Í ann­an stað er rætt við að­stand­end­ur frammi, fyr­ir fram­an sjálfsal­ann en þá fer neyð­ar­bjall­an af stað og hama­gang­ur­inn er mik­ill þeg­ar starfs­fólk­ið hleyp­ur af stað. Í fjóra mán­uði hef­ur blaða­mað­ur ver­ið á vett­vangi bráða­mót­tök­unn­ar á Land­spít­al­an­um og fylgst með starf­inu þar.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Hann sagðist ekki geta meir“
1
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Síðasta tilraun Ingu Sæland
3
ViðtalFormannaviðtöl

Síð­asta til­raun Ingu Sæ­land

Flokk­ur fólks­ins var stofn­að­ur til að út­rýma fá­tækt á Ís­landi, sem Inga Sæ­land, formað­ur flokks­ins, þekk­ir af eig­in raun. Hún boð­ar nýtt hús­næð­is­kerfi með fyr­ir­sjá­an­leika og nið­ur­skurð í öllu því sem heita að­gerð­ir gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Græn­asta land í heimi eigi að nota pen­ing­ana í heil­brigðis­kerfi og aðra inn­viði sem standi á brauð­fót­um.
Svanhildur Hólm með áberandi minnsta reynslu af utanríkismálum
6
Fréttir

Svan­hild­ur Hólm með áber­andi minnsta reynslu af ut­an­rík­is­mál­um

Ljóst er að Svan­hild­ur Hólm, sendi­herra í Banda­ríkj­un­um, sker sig úr hópi koll­ega sinna frá Norð­ur­lönd­un­um hvað varð­ar tak­mark­aða reynslu á vett­vangi ut­an­rík­is­mála. Stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd bíð­ur enn svara frá ut­an­rík­is­ráðu­neyt­inu um vinnu­brögð ráð­herra við skip­un á sendi­herr­um í Banda­ríkj­un­um og Ítal­íu.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
3
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.
Grunaði að það ætti að reka hana
4
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár