Grænlensku skipverjarnir Thomas Møller Olsen og Nikolaj Olsen sitja í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni grunaðir um að hafa átt aðild að hvarfi Birnu Brjánsdóttur. Lögreglan reynir enn að kortleggja ferðir þeirra aðfaranótt og morgun laugardagsins 14. janúar síðastliðins í miðborg Reykjavíkur, Hafnarfirði og á Reykjanesi.
Aðrir áhafnarmeðlimir en þessir tveir eru ekki grunaðir um aðild að málinu. Áhöfnin hefur sent frá sér yfirlýsingu með samúðarkveðjum. „Margar hugsanir hafa farið um hugann, og það er mikilvægt fyrir okkur að segja, að um er að ræða einn til tvo einstaklinga, sem grunaðir eru um að hafa framið verknaðinn, og við og þjóð okkar getum ekki tekið ábyrgð á svo voveiflegum atburðum. Þeim verður erfitt að gleyma,“ segir í yfirlýsingu frá áhöfninni, sem vonast til að málið skýrist sem fyrst fyrir alla aðila. „Við vonum að hægt verði að upplýsa um atburðarrásina sem fyrst, svo hægt verði að sækja sakamenn til saka.“
Vantar enn inn í myndina
Mennirnir eru báðir á þrítugsaldri og þrátt fyrir sama eftirnafn þá tengjast þeir ekki fjölskylduböndum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur greint frá því að blóð úr Birnu hafi fundist í bílaleigubíl sem bæði Thomas Møller og Nikolaj leigðu af Bílaleigu Akureyrar. Annar þeirra skráður leigutaki en hinn sem viðbótarökumaður.
Á blaðamannafundi sem var haldinn í gær, eftir að sérhæfðir leitarmenn í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar fundu Birnu látna við Selvogsvita, sagði yfirmaður rannsóknarinnar, Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að hann teldi yfirgnæfandi líkur á því að mennirnir sem væru í haldi lögreglu hefðu ráðið Birnu Brjánsdóttur bana. Enn er þó mörgum spurningum ósvarað um atburðarásina, til dæmis um aðild hvor fyrir sig.
Thomas Møller, sá sem yngri er af mönnunum tveimur, er grunaður um að hafa komið fyrir tuttugu kílóum af hassi um borð í togarann grænlenska þegar hann var í slipp í Danmörku. Skipið sigldi síðan hingað til Íslands og lagðist að Hafnarfjarðarhöfn til þess að undirbúa sig fyrir grálúðuveiðar við Grænland og til þess að sækja hluta áhafnarinnar sem kom með flugi frá Grænlandi.
Hefur þú séð þessa menn eða bifreiðina?
Talið er núna að mennirnir tveir hafi farið á rauðri Kia Rio-bílaleigubifreið niður Laugarveg að Ingólfsstræti og beygt niður Hverfisgötu. Lögreglan telur að Birna hafi farið upp í bílinn á þessum slóðum, líklegast eftir Laugaveg 31. Þá benda farsímagögn til þess að bíllinn hafi svo keyrt Sæbrautina til Hafnarfjarðar. Birna bjó í Breiðholti.
Rauð Kia Rio-bifreið sést næst á öryggismyndavél við Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar klukkan 05:53 en tveimur mínútum síðar slökknaði á hvítum iPhone-síma Birnu. Klukkan 06:10 sést svo bifreiðin keyra inn á hafnarsvæðið við Hafnarfjarðarhöfn þar sem Polar Nanoq lá við bryggju. Þeir eru sagðir báðir stíga út úr bifreiðinni þar til annar fer um borð og hinn ekur í burtu.
Skór Birnu fundust um það bil 300 metra frá þeim stað þar sem Polar Nanoq lá við höfn. Engar öryggismyndavélar sýna það svæði en lögreglan telur að annar mannanna hafi ekið þangað og verið þar í rúmar 25 mínútur.
Þá hefur lögregla biðlað til ökumanna sem eru með upptökuvélar í bifreiðum sínum að skoða hvort rauði Kia Rio-bílaleigubíllinn sjáist í mynd milli klukkan 07:00 og 11:30 laugardagsmorguninn 14. janúar.
Birna fannst við Selvogsvita en nú reynir lögreglan að kortleggja ferðir bifreiðarinnar frá því hún stöðvast við Hafnarfjarðarhöfn rétt eftir klukkan sex, laugardagsmorguninn 14. janúar. Samkvæmt fréttaflutningi sást annar maðurinn ganga um borð í togarann en hinn ók á brott. Þá hefur lögreglan greint frá því að ummerki á bílaleigubílnum gefa til kynna að honum hafi verið ekið um grýttan veg.
Þeir sem hafa upplýsingar um málið eru hvattir til að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000.
Ólíkir einstaklingar
Stundin hefur á undanförnum dögum rætt við bæði vini og kunningja mannanna tveggja sem sitja í haldi. Þá hefur einnig verið rætt við áhafnarmeðlimi á grænlenska togaranum Polar Nanoq sem enn situr í Hafnarfjarðarhöfn. Búist er við því að ákvörðun um að færa skipið í hendur útgerðarinnar, Polar Seafood, verði tekin á morgun en áhafnarmeðlimir sem staddir eru á Grænlandi segjast vera á leið á sjó um mánaðarmótin.
Lýsingar á mönnunum tveimur eru mjög frábrugðnar. Sá yngri, Thomas Møller, hefur verið dæmdur fyrir að selja fíkniefni á Grænlandi. Hann æfir blandaðar bardagaíþróttir. Hann á kærustu á Grænlandi en er barnslaus. Hann hefur neitað sök í málinu en samkvæmt heimildum þykir sannað að hann, Thomas Møller, hafi verið undir stýri aðfaranótt laugardagsins 14. janúar, sömu nótt og Birna hverfur sporlaust.
Undir áhrifum en neitar sök
Hinn maðurinn, Nikolaj, er eldri. Hann á ekki sakaferil að baki og er lýst sem mjög hlédrægum og áhrifagjörnum einstaklingi sem sé nánast félagsfælinn. Hann eigi í góðu sambandi við fjölskyldu sína en ef litið er á Facebook-síðu Nikolaj þá sést að hann breytir um forsíðumynd laugardaginn 14. janúar klukkan 16:17, þegar Polar Nanoq var enn við höfn í Hafnarfirði. Myndin sýnir Nikolaj ásamt systur sinni og nýfæddu barni hennar. Fjölskylda Nikolaj telur hann saklausan og að hann hafi ekkert að gera með málið. Nikolaj á kærustu og hefur, eins og Thomas Møller, neitað sök. Nikolaj hefur greint frá því að hann hafi verið undir áhrifum áfengis umrætt kvöld.
Stundinni hafa á undanförnum dögum borist miklar upplýsingar um rannsóknina á Birnu Brjánsdóttur. Í öllum tilvikum hafa þær verið bornar undir lögregluna. Sumt af því sem Stundin hefur fengið staðfest og snýr að rannsókn málsins eru mjög viðkvæmar upplýsingar sem lögreglan telur að geti skaðað rannsóknarhagsmuni séu þær birtar á þessari stundu. Þær upplýsingar verða því ekki birtar.
Leigðu bílaleigubíl í Danmörku
Lögreglan fann tuttugu kíló af hassi við leit í togaranum en samkvæmt upplýsingum sem Stundin hefur undir höndum var togarinn við slipp í Danmörku áður en hann lagði leið sína hingað til lands og lagðist að bryggju í Hafnarfirði. Thomas Møller er grunaður um að tengjast smyglinu en lögreglan hefur samt sem áður sagt að hvarf Birnu tengist að öllum líkindum ekki hassinu um borð. Málin séu því tengd óbeint og um tilviljun sé að ræða.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar leigðu áhafnarmeðlimir bílaleigubíl í Danmörku þegar togarinn var í slipp og eiga þeir að hafa keyrt til Kaupmannahafnar. Ekki er vitað hver var skráður leigutaki bílaleigubílsins.
Hassneysla hefur aukist í Grænlandi á undanförnum áratug og er talið að árlega sé reynt að smygla inn um 200 kílóum af hassi inn í landið, meðal annars með skipum.
Stærsti fíkiefnafundurinn á Keflavíkurflugvelli á síðasta ári tengdist Grænlandi. Rúm 6,4 kíló af hassi fundust falin í farangri einstaklinga sem voru á leið til Grænlands.
Staðfesti úrskurð héraðsdóms
Hæstiréttur staðfesti síðan í dag tveggja vikna gæsluvarðhaldsúrskurð yfir skipverjunum tveimur af grænlenska togaranum Polar Nanoq. Lögreglan hafði upphaflega krafist fjögurra vikna gæsluvarðhalds vegna rannsóknar á andláti Birnu. Héraðsdómur féllst hins vegar aðeins á tveggja vikna gæsluvarðhald og þann dóm staðfesti Hæstiréttur í dag.
Það þýðir að mennirnir tveir, ef þeir verða ekki ákærðir eða ef lögreglan óskar ekki eftir framlengdum gæsluvarðhaldsúrskuði, munu losna út 2. febrúar.
Skipverjar af Polar Nanoq, sem ekki tengjast málinu, hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna þess:
Yfirlýsing frá áhöfn Polar Nanoq
Samúðarkveðjur (þýtt úr grænlensku)
Atburðurinn sorglegi hefur snortið okkur djúpt. Við skipverjar á Polar Nanoq viljum senda fjölskyldu Birnu Brjánsdóttur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Við vonum að hægt verði að upplýsa um atburðarrásina sem fyrst, svo hægt verði að sækja sakamenn til saka.
Við skipverjar höfum orðið fyrir miklu áfalli sökum atburða síðustu daga. Það hefur verið erfitt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því hvernig við eigum að bregðast við ýmsu. Til dæmis hefur fjölskylda Birnu beðið okkur um að útskýra hvarf Birnu, en okkur hefur verið bannað að eiga samskipti út á við, auk þess sem við höfum ekki vitað, hvað hefur skeð. Við erum þakklátir fyrir að hafa getað hlúð að hverjum öðrum og fyrir stuðning fjölskyldu okkar og vinnuveitenda.
Við áhöfn skipsins, sem nú höfum safnast saman í einum bæ á Íslandi, komum beint um borð í skipið við komuna til Íslands laugardaginn 14. janúar. Það er mikilvægt fyrir okkur að taka fram, að við erum staddir á Íslandi vinnunnar okkar vegna.
„Það er mikilvægt fyrir okkur að segja, að um er að ræða einn til tvo einstaklinga, sem grunaðir eru um að hafa framið verknaðinn“
Margar hugsanir hafa farið um hugann, og það er mikilvægt fyrir okkur að segja, að um er að ræða einn til tvo einstaklinga, sem grunaðir eru um að hafa framið verknaðinn, og við og þjóð okkar getum ekki tekið ábyrgð á svo voveiflegum atburðum. Þeim verður erfitt að gleyma.
Það hefur verið erfitt fyrir okkur að vera hluti af þessum hræðilegum atburðum, og sumir okkar hafa þurft að fara heim. Við erum mjög þakklátir fyrir að hafa fengið aðhlynningu frá sálfræðingi og frá sjálfboðaliðum, og við vonumst til að geta snúið aftur til vinnu okkar og daglegs lífs.
Á þessum sorglegum og erfiðum tímum viljum við taka fram, að viðmót Íslendinga til okkar hefur ekki breyst og er hlýtt sem fyrr.
Útgerðin styrkir Landsbjörgu
Landsbjörg tilkynnti rétt í þessu að útgerð Polar Nanoq, Polar Seafood, hefði ákveðið að styrkja björgunarsveitirnar um 1,6 milljónir króna. „Fyrir hönd Polar Seafood og starfsmanna okkar viljum við sýna þakklæti fyrir þá þrotlausu baráttu sem þið hafið gengið í gegnum síðustu daga,“ sagði í handskrifuðum miða sem sendur var Landsbjörgu.
Athugasemdir