Fyrirtækið sem Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra starfaði hjá árið 2011 á meðan hann var í leyfi frá störfum á Alþingi frá því í apríl 2010 og þar til í október 2011 var stofnað þann 8. ágúst 2011 á lögmannsstofunni Logos og hét þá ELL 237 ehf.
Haukur Harðarson,og viðskiptafélagar hans, tóku svo við félaginu í lok ágúst 2011 og skírðu það Orka Energy Holding ehf. Rúmum mánuði síðar settist Illugi Gunnarsson aftur á Alþingi þegar það var sett þann 1. október. Vinna Illuga Gunnarssonar fyrir fyrirtækið hlýtur því að hafa átt sér á milli loka ágústmánaðar 2011 og þar til í byrjun október 2011. Nema þá að Illugi hafi starfað hjá og fyrir fyrirtækið áður en það var stofnað formlega.
Störf Illuga Gunnarssonar fyrir Orku Energy hafa talsvert verið til umræðu í fjölmiðlum á síðustu mánuðum og dögum. Eins og komið hefur fram var fyrirtækið hluti af viðskiptasendinefnd Illuga Gunnarssonar í opinberri heimsókn menntamálaráðherrans til Kína í mars síðastliðnum og var Haukur Harðarson með í þeirri heimsókn. Í kjölfar frétta af þeirri þátttöku Orku Energy í Kínaheimsókninni kom í ljós að Illugi hafði selt Hauki Harðarsyni stjórnarformanni Orku Energy íbúð sína á Ránargötu. Í síðustu viku greindi Illugi svo frá því í fyrsta skipti, í viðtali við Fréttablaðið, að Haukur Harðarson væri einn af hans „nánustu vinum“. Illugi hafði þá ekki viljað svara því svo mánuðum skipti hvaða tengsl hann hafði við Hauk Harðarson.
„Verðmæti eignarhlutarins umreiknað í íslenskar krónur á gengi í árslok er 4.194.805 þús kr.“
Var með 500 þúsund í hlutafé þegar Enex var keypt
Í ágúst 2011, sama mánuði og fyrirtækið var stofnað, keypti Orka Energy Holding ehf. 49 prósenta hlut Geysis Green Energy og Orkuveitu Reykjavíkur í fyrirtækinu Enex-Kína, sem átti hlut í kínverska orkufyrirtækinu Shaanxi Green Energy Geothermal Development, fyrir 15,5 milljónir dollara, rúmlega 1,6 milljarða króna. Enex-Kína var hluti af eignum REI, Reykjavík Energy Invest, sem svo mikið var í umræðunni á árunum 2007 og 2008 vegna fyrirhugaðrar sölu til þekktra fjárfesta. Hitt 51 prósentið í Shaanxi Green er í eigu kínverska orkufyrirtækisins Sinopec sem kínverska ríkið á.
Þessi viðskipti með hluti Geysis Green og Orkuveitu Reykjavíkur í Enex-Kína voru ástæðan fyrir stofnun Orku Energy Holding á þessum tíma og voru langstærstu viðskipti félagsins á árinu. Orka Energy Holding ehf. var svo, og er, í eigu fyrirtækis í Singapúr sem heitir Orka Energy PTE ltd. Athygli vekur að Orka Energy Holding var einungis með 500 þúsund krónur í hlutafé þegar viðskiptin við Geysi Green og Orkuveitu Reykjavíkur áttu sér stað og voru viðskiptin með Enex-Kína að öllu leyti fjármögnuð með lánum.
Fyrirtækið greiddi Geysi Green og Orkuveitu Reykjavíkur svo tæplega 700 milljónir króna af kaupverði Enex á árinu 2012 samkvæmt ársreikningum Orku Energy Holding ehf.
Samkvæmt ársreikningi Orku Energy Holding árið 2012 var eignharhluturinn í kínverska fyrirtækinu metinn á rúmlega fjóra milljarða króna í árslok 2012. Tekið skal fram að þá var búið auka við hlutafé fyrirtækisins um rúma þrjá milljarða króna. Í ársreikningi Orku Energy sagði um þetta: „Orka Energy China ehf. á 49% hlut í SGEG. Verðmæti eignarhlutarins umreiknað í íslenskar krónur á gengi í árslok er 4.194.805 þús kr.“
Samkvæmt síðasta ársreikningi Orku Energy Holding ehf., sem nú heitir Arctic Green Energy Corporation var verðmæti hlutarins í kínverska fyrirtækinu tæplega 4,8 milljarðar króna í árslok 2014.
„Síðan færir fyrirtæki einhvern veginn bókhaldið og gengur síðan frá laununum til mín, skattgreiðslum og lífeyrissjóðsgreiðslum og öðru slíku, strax eftir áramótin.“
Breytti vitnisburði sínum
Á síðustu dögum hefur Illugi svarað fyrir greiðslurnar sem hann fékk frá Orku Energy vegna ársins 2011 en Stundin greindi meðal annars frá því að hann hefði fengið þriggja milljóna lán frá fyrirtækinu á árinu 2011 sem útistandandi var árið 2012.
Illugi svaraði fyrir þetta lán í kvöldfréttum Stöðvar 2 á föstudaginn og staðfesti þá að það hefði verið veitt í formi fyrirgramgreiddra launa. Illugi vildi hins vegar ekki kalla fyrirgramgreiddu launin lán jafnvel þó upphæðin hafi verið stór hluti árstekna hans allt árið 2011 samkvæmt skattaupplýsingum en hann var með 362 þúsund krónur í mánaðarlaun. Í viðtalinu við Stöð 2 framvísaði Illugi launaseðli sínum fyrir árið 2011 þessu til staðfestingar. Sá sem fær fyrirframgreidd laun er hins vegar í skuld við þann sem veitir launin og þarf þá annað hvort að vinna upp í launin eða greiða upphæðina til baka ef hann getur ekki greitt skuld sín til baka með vinnu.
Í viðtali við RÚV á sunnudaginn breytti Illugi svo þessum vitnisburði sínum og sagði að ekki hefði verið um fyrirframgreidd laun að ræða þar sem hann hefði fengið greiðsluna í desember 2011, eftir að hafa látið af störfum hjá Orku Energy, og því hefði hann verið búinn að vinna vinnuna sem launin voru greidd fyrir. Svo hefði verið gengið frá launagreiðslunni með formlegum hætti eftir á, í febrúar 2012 líkt og launaseðill Illuga sýndi fram á. Í viðtali við RÚV sagði hann, aðspurður um af hverju greiðslan hefði verið bókfærð sem fyrirframgreiðsla: „Vegna þess að ég fæ útborgað í desember 2011. Síðan færir fyrirtæki einhvern veginn bókhaldið og gengur síðan frá laununum til mín, skattgreiðslum og lífeyrissjóðsgreiðslum og öðru slíku, strax eftir áramótin.“
Athugasemdir