Svo virðist sem formenn flokks eða flokka hafi lýst því yfir við Guðna Th. Jóhannesson forseta að þeir myndu endurskoða þá afstöðu sína að útiloka samstarf við tiltekna flokka.
Nú eru aðeins eftir ríkisstjórnarmöguleikar sem flokkar hafa útilokað. Til dæmis hafa Vinstri grænir því sem næst útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokknum, Píratar úilokuðu Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk og Viðreisn útilokaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki saman.
Guðni sagðist á blaðamannafundi á Bessastöðum í dag hafa ástæðu til að ætla að ný ríkisstjórn geti verið í gerjun.
Hann var spurður af fréttamanni RÚV hvort hann væri vongóður:
Ertu bjartsýnn á að þessar óformlegu viðræður skili árangri, og það strax í næstu viku? „Já.“
Hefurðu eitthvað fyrir þér í því? „Já.“
Guðni byggir afstöðu sína á samtali við formenn flokkanna.„Ég er nýbúinn að tala við formenn eða fulltrúa allra flokka og allir sannfærðu mig um það, sem ég lagði brýna áherslu á, að það mætti ekki útiloka leiðir fyrirfram. Ég vildi ekki segja að nú væru þeir tímar liðnir, en ég bað alla um að átta sig á þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir og það tóku allir undir að það væri í þeirra verkahring að sjá til þess að hér væri starfhæf ríkisstjórn og allir kváðust að vilja gerðir að leita allra mögulegra lausna.“
Katrín virðist opin fyrir Sjálfstæðisflokknum
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segist í samtali við Stundina ekki hafa útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokknum.
Ertu búin að biðja þingflokkinn að endurskoða hug sinn til samstarfs við sjálfstæðisflokkinn?
„Nei, ég hef ekki beðið um það en ég vænti þess að við förum yfir þessi mál í dag.“
Svo það gæti farið svo að þið endurskoðið ykkar afstöðu til Sjálfstæðisflokksins?
„Ég hef aldrei útilokað samstarf Sjálfstæðisflokkinn en alltaf bent á það að það er málefnalega langt á milli.“
Það hefur ekkert breyst?
„Nei, það breytist ekki, nema allir fari að horfa á þetta með nýjum hætti.“
Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir hafa samtals 31 þingmann og gætu myndað ríkisstjórn með þriðja flokki, hvort sem það væri 34 þingmanna stjórn með Samfylkingu, 35 þingmanna stjórn með Bjartri framtíð, eða sterkari stjórnir með öðrum flokkum.
Ríkisstjórnarmyndanir Viðreisnar og Bjartrar framtíðar með Sjálfstæðisflokknum, annars vegar, og Vinstri grænum, Pírötum og Samfylkingu, hins vegar, hafa ekki gengið upp.
Katrín sagði á fundi á Bessastöðum í dag „kannski of snemmt að segja til um“ mögulega ríkisstjórn VG og Sjálfstæðisflokks.
Athugasemdir