Hríseyingur hefur verið handtekinn af lögreglunni á Akureyri grunaður um hafa brotið kynferðislega á frönskum ferðamanni. Málið kom upp seint í júlí. Um er að ræða franska stúlku, sautján ára gamla, sem leitaði til lögreglu að morgni sunnudags og lagði fram kæru gegn umræddum manni. Hún tjáði lögreglu að hann hefði brotið á henni kynferðislega og enn fremur lagt á hana hendur. Maðurinn var á sínum tíma handtekinn og yfirheyrður. Honum var þó sleppt en hefur nú verið færður í gæsluvarðhald til 10. desember, eftir niðurstöðu lífssýnaprófs.
Gunnar Jóhannsson, lögreglufulltrúi í rannsóknarlögreglunni á Akureyri, segir að fréttatilkynningar sé að vænta á næstu mínútum vegna málsins. „Þetta er framhald á þessu máli síðan í sumar. Þetta er ung kona, franskur ferðamaður, sem var í tjaldi og það var ráðist inn til hennar og á þeim tíma var maður grunaður um verknaðinn. Hann var látinn laus vegna þess að það var ekki hægt að halda honum lengur. Hann var handtekinn aftur í gær eftir að niðurstöður úr DNA prófi lágu fyrir,“ segir Gunnar.
Í fyrstu fréttum af málinu var talað um líkamsárás en ekki kynferðisbrot. Í frétt RÚV um málið í sumar var sagt að ókunnur karlmaður hefði ráðist á hana slegið hana í andlitið.
Tilkynning lögreglu í heild sinni:
„Þann 25. júlí s.l. var ráðist inn í tjald hjá erlendum ferðamanni á tjaldstæðinu í Hrísey. Um var að ræða 17 ára stúlku og bar hún að maður hefði veist að henni kynferðislega og einnig beitt hana líkamlegu ofbeldi. Sagði hún árásarmanninn hafa verið grímuklæddan. Konan hlaut nokkra áverka. Á sínum tíma var maður á þrítugsaldri handtekinn grunaður um verknaðinn og úrskurðaður í fjögurra daga gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins en látinn laus eftir að rannsóknarhagsmunir gáfu ekki tilefni til frekari gæsluvarðahalds á þeim tíma.
Í gærdag þann 11. nóvember var sami aðili handtekinn á ný grunaður um verknaðinn eftir að niðurstöður úr DNA rannsóknum lágu fyrir. Var hann nú í dag úrskurðaður í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Norðurlands eystra til 10. desember n.k. Var það gert á grundvelli alvarleika málsins.“
Athugasemdir