Grímur Grímsson, sem starfað hefur sem yfirlögregluþjónn hjá embætti héraðssaksóknara, mun taka við starfi yfirmanns hjá miðlægu rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta var starfsmönnum deildarinnar tilkynnt í gær en Stundin greindi frá því þann 22. september síðastliðinn að Runólfur Þórhallsson myndi hætta sem yfirmaður deildarinnar.
Grímur hefur áður starfað sem lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Sem yfirlögregluþjónn hjá embætti héraðssaksóknara átti Grímur aðkomu að rannsókn á máli lögreglufulltrúans sem kallaður hefur verið lögreglufulltrúi x í umfjöllun Stundarinnar og tók þátt í að yfirheyra nokkra þeirra sem borið höfðu sakir á lögreglufulltrúann. Aðkoma Gríms að málinu olli titringi vegna vinatengsla hans við við Karl Steinar Valsson og Aldísi Hilmarsdóttur, fyrrverandi yfirmenn fíkniefnadeildar og í kjölfarið ákvað Grímur að segja sig alfarið frá rannsókninni.
Í skýrslutökunum hjá héraðssaksóknara lýstu lögreglumenn ólgu, ósætti og flokkadráttum og haft var á orði að „smákóngastríð“ geisaði innan fíkniefnadeildar. Niðurstaða saksóknaraembættisins var sú að lögreglufulltrúi x hefði verið hafður fyrir rangri sök. Fullyrt var að eftir ítarlega rannsókn – þar sem meðal annars voru teknar skýrslur af 29 vitnum og tveimur mönnum með réttarstöðu sakbornings – lægi ekkert fyrir sem renndi stoðum undir að lögreglufulltrúinn hefði með neinum hætti gerst brotlegur í starfi.
Stundin hefur fjallað ítarlega um málefni miðlægu rannsóknardeildarinnar undanfarna mánuði. Eftir að lögreglufulltrúi x var sakaður um brot í starfi og óeðlileg samskipti við aðila úr undirheimum fór af stað þróun þar sem meira en helmingur þeirra sem áður störfuðu að fíkniefnarannsóknum var færður til, hætti eða tók sér launalaust leyfi. Reyndum starfsmönnum var bolað úr deildinni og tveir þeirra kvörtuðu undan einelti Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra. Nokkrir þeirra sem höfðu tortryggt lögreglufulltrúann voru hins vegar hækkaðir í tign, fengu óauglýsta stöðu eða framgang af einhverju tagi.
Fram kom í umfjöllun Stundarinnar í september að starfsemi miðlægu rannsóknardeildarinnar hefði beðið hnekki; lítið væri um frumkvæðisrannsóknir, lögreglan réði ekki lengur við flókin og umfangsmikil fíkniefnamál og mannaflsfrekum rannsóknarúrræðum á borð við skyggingar væri síður beitt en áður, enda skorti mannskap, sérþekkingu og reynslu til að framkvæma slíkar aðgerðir. Þetta staðfesti fjöldi lögreglumanna, meðal annars starfsmenn umræddrar deildar og fólk í yfirmannsstöðum hjá lögregluembættinu, í samtölum við Stundina.
Athugasemdir