Greiningardeild Arion banka fullyrðir að bankaskatturinn hafi þrýst upp útlánavöxtum íslenskra banka og grafið undan samkeppnishæfni þeirra.
Sérstaki skatturinn á fjármálafyrirtæki var lögfestur árið 2010 en víkkaður út og hækkaður umtalsvert í tíð síðustu ríkisstjórnar til að standa undir 80 milljarða ríkisútgjöldum vegna höfuðstólslækkunar verðtryggðra húsnæðislána. Að mati greiningardeildarinnar er skatturinn einn þeirra þátta sem valda því að vaxtastigið á Íslandi er hátt. Seðlabankanum sé reglulega kennt um hátt vaxtastig en í raun hafi löggjafarvaldið, Alþingi, meiri áhrif á vaxtaþróunina.
„Eins og við lesum stefnu ríkisstjórnarflokkanna, ummæli ýmissa þingmanna, áherslur fjármálaráðherra og umræðuna í samfélaginu virðist að sem mikill vilji sé til að ná að lækka vaxtastig á Íslandi. Það ætti því að vera ánægjulegt fyrir ráðamenn að valdið er að miklu leyti í þeirra höndum,“ segir í fréttabréfi greiningardeildarinnarfrá því í morgun. Yfirskrift þess er „Alþingi hefur meiri áhrif á vaxtastig en Seðlabankinn“.
Bent er á að stjórnvöld hafi ýmis spil á hendi ef vilji sé til þess að lækka fjármagnskostnað og vaxtastig á Íslandi. „Þar má nefna endurskoðun á 3,5% raunvaxtaviðmiði lífeyrissjóða, lækkun sérstaks skatts á skuldir fjármálafyrirtækja og að leggja fjármagnstekjuskatt á raunvexti en ekki nafnvexti. Mikilvægast er samt að gæta skynsamlegs aðhalds í rekstri og fjárfestingum þannig að hið opinbera sé ekki í stöðugri samkeppni við fyrirtækin og heimilin um lánsfjármagn.“
Eins og Stundin hefur áður fjallað um nema sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki nú um 20 prósentum af rekstrarkostnaði þeirra. Í greiningu sem Capacent birti í fyrra er bent á að þetta geti vart annað en þrýst upp vöxtum. „Reikna má með að vextir séu að einhverju leyti hærri vegna þessara gjalda. Þetta er sérstaklega áhugavert í ljósi umræðu um vanda ungs fólks að koma sér upp húsnæði. Hár vaxtakostnaður bitnar fyrst og fremst á ungu fólki og barnafjölskyldum eða þeim þjóðfélagshópum sem skulda mest,“ segir í greiningu fyrirtækisins.
Greiningardeild Arion banka virðist sama sinnis og bendir á að sérstaki skatturinn á skuldir fjármálafyrirtækja nemur 0,376% af árlegum heildarskuldum fyrirtækja sem hafa heimild til að taka við innlánum. Skatturinn skilaði 9 milljörðum frá stóru bönkunum þremur í fyrra eða rúmum 9% af hreinum vaxtatekjum þeirra. „Þessi kostnaðarauki leggst beint ofan á fjármögnunarkostnað er því til þess fallinn að hækka útlánavexti,“ segir í fréttabréfi greiningardeildarinnar sem bendir jafnframt á að skatturinn skerði samkeppni.
„Erlendir bankar, sem keppa við þá íslensku um að veita útflutningsfyrirtækjum lán, þurfa ekki að greiða bankaskatt og standa að því leyti til betur að vígi. Einnig dregur þetta úr samkeppni á íbúðalánamarkaði, þar sem lífeyrissjóðir, sem greiða hvorki bankaskatt né tekjuskatt, geta oft boðið hagstæðari kjör. Afnám bankaskatts er því til þess fallið að lækka vaxtastig í landinu og auka samkeppni á fjármálamarkaði.“
Athugasemdir