Gísli Freyr Valdórsson starfaði hjá fjárfestingarfélaginu GAMMA í þrjár vikur í síðasta mánuði. Hann var dæmdur í nóvember s.l. í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hafa lekið trúnaðarupplýsingum um Tony Omos til fjölmiðla í nóvember árið 2013. Rétt fyrir áramót fór hann einn túr með skuttogaranum Dala-Rafni VE 508.
Gísli Freyr er með BA-gráðu í stjórnmálafræði, en hann starfaði við textagerð hjá GAMMA vegna afmarkaðs verkefnis. Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA, segir að hann muni ekki hafa varanlega atvinnu hjá fyrirtækinu. Óljóst er þó hvort honum muni bjóðast annað verkefni á næstu misserum.
Stundin gerði tilraun til að ná tali af Gísli Frey hjá GAMMA en skiptiborðið tjáði blaðamanni að dæmdi aðstoðarmaðurinn væri í fríi í dag. „Hann er svo mikið inn og út hérna,“ segir starfsmaður GAMMA. Gísli Hauksson segir ástæðu þess vera að Gísli Freyr komi öðru hvoru á skrifstofuna vegna frágangs við skýrsluna.
Stundin greindi nýverið frá því að Tony Omos hafi fengið sáttatilboð um bótagreiðslu frá Gísla Frey vegna lekamálsins. Lögmaður Tony Omos, Stefán Karl Kristjánsson, vill ekki upplýsa hvaða upphæð Gísli Freyr hafi boðið. Sátt hefur náðst í máli Evelyn Glory Joseph um skaðabætur. Líklegt er að Gísli Freyr muni þurfa að greiða í heildina um tvær milljónir króna í bætur, en þolendur í lekamálinu eru þrír.
GAMMA hefur verið mjög umsvifamikið bæði á fjármála- sem og fasteignamarkaði. Sjóðurinn á mörg hundruð íbúðir í miðbæ Reykjavíkur og stendur að baki nýstofnuðum námslánasjóði, Framtíðinni, sem býður námsmönnum upp á lán sem hafa umtalsvert hærri vexti en LÍN býður upp á.
Athugasemdir