Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þurfa sjúkrahús á Íslandi að skera niður í rekstri um tæpa 5,2 milljarða á næstu fimm árum til að skapa svigrúm til nýrra verkefna. Þetta kom fram í ræðu Maríu Heimisdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Landspítalans, á ársfundi spítalans í gær. Hún sagðist vona að stjórnvöld hefðu einfaldlega ruglast þegar unnið var að fjármálaáætluninni og benti á að í umfjöllun áætlunarinnar um heilbrigðisútgjöld á Norðurlöndunum væri miðað við allt aðrar tölur en almennt tíðkast í slíkum samanburði. Í ljósi loforða sem gefin hefðu verið um eflingu heilbrigðiskerfisins mætti draga þá ályktun að hið undarlega val á viðmiðunartölum hefði einfaldlega truflað vinnslu áætlunarinnar.
„Tillaga stjórnvalda virðist því gera ráð fyrir að sjúkrahúsin á landinu skeri niður um tæpa 5,2 milljarða á tímabilinu til að skapa svigrúm fyrir það sem kallað er aukin framlög til nýrra verkefna,“ sagði María eftir að hafa rakið hvernig útgjaldarammi fjármálaáætlunarinnar virðist fela í sér kröfu um mikla hagræðingu í rekstri sjúkrahúsa landsins næstu árin.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, flutti ávarp á ársfundinum og gagnrýndi stefnu stjórnvalda á sviði heilbrigðismála. „Ég vil vera alveg heiðarlegur við ykkur og segi því að ég eiginlega skil bara ekkert í þessu. Hvernig má það vera að vel meinandi stjórnvöld neiti að horfa á blákaldar staðreyndir sem við súmmerum upp með gagnaöflun og upplýsingagjöf. Hvað erum við að gera vitlaust? Hvernig má þetta vera, þegar það gengur svona vel á Íslandi?“ sagði hann.
Í ræðu sinni benti María Heimisdóttir á að samkvæmt útgjaldaramma sjúkrahúsþjónustu væri gert ráð fyrir heildaraukningu upp á tæpa 45 milljarða á næstu fimm árum. „Ekki er mögulegt að greina nema að litlu leyti hvaða hlutur fjárframlaga til sjúkrahúsþjónustu er ætlaður Landspítala þannig að okkar greining miðast við að Landspítala séu ætluð öll viðbótarfjárframlög nema annað sé sérstaklega tekið fram. Þessi greining sýnir því eins jákvæða mynd af fjárframlögum til Landspítala og unnt er út frá tillögu stjórnvalda,“ sagði hún.
Athugasemdir