Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, lýsir áhyggjum af síaukinni einkavæðingu íslenskrar heilbrigðisþjónustu í viðtali sem birtist í febrúarhefti Læknablaðsins. „Það virðist sem aukin tilhneiging sé til þess að einkavæða sífellt stærri hluta af kerfinu og draga samhliða verulega úr opinberri fjármögnun þess,“ segir hann.
Hann bendir sérstaklega á að reynsla Breta af einkavæðingu hluta heilbrigðisþjónustunnar sé slæm. „Í kjölfar verktakasamninga við lækna árið 1991 í Bretlandi var ekki numið staðar. Verulegar breytingar urðu á samfélagslegum rekstri heilbrigðisþjónustunnar og við tók einkarekstur og að hluta til einkavæddur rekstur. Mörg opinber sjúkrahús eru nú einkarekin og taka við einkafjármagni frá hluthöfum sem markaðsvæða stofnanir og vilja eðlilega græða á rekstrinum. Hagnaðurinn fer yfirleitt út úr greininni,“ segir hann og bætir við:
„Hagnaðarsjónarmiðin valda því að frekar eru valdir „auðveldir“ sjúklingar til meðferðar en síður erfiðir eða þungir sjúklingar vegna aldurs eða langvinnra sjúkdóma. Sjúklingum er mismunað og ójafnræði skapast. Stjórnunarkostnaður hefur tvöfaldast og færst meira í hendur hluthafanna. Svipuð þróun hefur orðið í Svíþjóð eftir 2008 og samkvæmt skýrslum sænsku ríkisendurskoðunarinnar fyrir árið 2015 hafa jákvæðar breytingar á heilsufarsárangri enn ekki komið fram.“
Ólafur segir að svo virðist sem íslensk stjórnvöld skorti algjörlega rökstuðning fyrir því að breyta frekar rekstrarfyrirkomulagi heilbrigðisþjónustunnar nema gert sé ráð fyrir því að hið opinbera verði meðstjórnandi í rekstrinum. Það sé óráð að hleypa gróðafyrirtækjum að rekstrinum líkt og gert hefur verið í Bretlandi.
Stór ákvörðun á borði Óttars
Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum stendur Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra frammi fyrir því að ákveða hvort einkafyrirtækið Klíníkin fái að opna legudeild fyrir sjúklinga í Ármúla.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, hefur lýst því yfir að slíkt kynni að draga úr getu spítalans til að rækja hlutverk sitt. Haft var eftir honum í umfjöllun Fréttatímans á dögunum að hann hefði þá sérstakar áhyggjur af að missa dýrmæta starfskrafta sérhæfðs starfsfólks til einkafyrirtækisins:
„Verði af þessum áformum mun það ekki einfalda rekstur Landspítala, eins og ég sé fram haldið, heldur flækja hann. Framlag einkarekstrar sem þessa er takmarkaður fyrir heildina enda þungi þeirra í einfaldari aðgerðum með mikla framlegð, sem er hefðbundin rjómafleyting. Afleiðingin verður sú að grafið verður undan fámennri en mikilvægri sérgrein, sem sinnir sérhæfðum hópi sjúklinga á Landspítala. Flóknari aðgerðir þyrftu áfram að vera á Landspítala, en sjúklingar sem á slíkum aðgerðum þurfa að halda munu líða fyrir það að bæklunarsérgreinin væri orðin miklu veikari á spítalanum. Afleiðingarnar yrðu mjög alvarlegar, út frá öllum mælikvörðum, öðrum en gróða viðkomandi heilbrigðisstarfsmanna. Auðvitað gæti þetta orðið þeim til hagsbóta sem einfaldari þjónustu þurfa og bíða hennar, en þá þjónustu getur spítalinn veitt, fái hann til þess möguleika.“
Óttarr Proppé hefur ekki gert upp hug sinn ef marka má svör hans á Alþingi en þó sagt að engar ákvarðanir um grundvallarbreytingar á rekstrarformi heilbrigðisþjónustunnar verði teknar án víðtæks samráðs.
Stundin hefur fjallað umtalsvert um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, meðal annars um fyrirtækið Klíníkina og arðgreiðslur heilbrigðisfyrirtækja.
Á lista Lánstrausts yfir arðbærustu fyrirtæki landsins miðað við hagnað sem hlutfall af eigin fé er að finna þrjú slík fyrirtæki. Arðgreiðslur úr tveimur þeirra nema mörg hundruð milljónum, en starfsemin er fjármögnuð að hluta til af Sjúkratryggingum Íslands.
Athugasemdir