Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttisráðherra, lagði í dag fram sitt fyrsta frumvarp á Alþingi, um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Áður hafði hann boðað að sitt fyrsta frumvarp yrði um jafnlaunavottun en Viðreisn lagði mikla áherslu á málið í kosningabaráttunni. Boðað var til sérstaks blaðamannafundar til þess að kynna frumvarpið, sem var þá þegar tilbúið og fullyrt að það yrði fyrsta þingmál Viðreisnar. Frumvarpið hefur hins vegar legið inni í ráðuneytinu frá því að ráðherrann tók til starfa og hefur ekki enn verið lagt fyrir þingið. „Það er rétt að þetta átti að vera mitt fyrsta mál,“ sagði Þorsteinn, í samtali við Vísi um miðjan mars.
Helsta áherslumál Viðreisnar
Í október boðaði Viðreisn til sérstaks blaðamannafundar til þess að kynna frumvarp sem skyldar fyrirtæki og stofnanir með 25 starfsmenn eða fleiri til þess að skila jafnlaunavottun. Samkvæmt frumvarpinnu átti að gera það opinbert ef fyrirtæki eða stofnanir greiða starfsmönnum sínum ólík laun á grundvelli kynferðis en ekki annarra sjónarmiða, en slík mismunun er lögbrot. Með frumvarpinu var lagt upp með að uppræta óútskýrðan launamun kynjanna.
Málið rataði inn í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar og samkvæmt þingmálaskrá ráðherrans átti frumvarpið að koma til þings í janúar. Í sama mánuði boðaði Þorsteinn að frumvarpið yrði það fyrsta sem hann myndi leggja fyrir á Alþingi. Síðan var stefnt að því að leggja frumvarpið fyrir í mars, en það hefur enn ekki verið gert.
Frumvarpið hefur hins vegar verið lagt fram í ríkisstjórn og var samþykkt þaðan í síðustu viku, samkvæmt svari frá aðstoðarmanni ráðherra, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, við fyrirspurn Stundarinnar.
Blendin viðbrögð
Hugmyndin um jafnlaunavottun hefur vakið blendin viðbrögð á meðal þingmanna. Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa sagt að þeir ætli ekki að styðja frumvarpið. Auk þess hefur Sigríður Andersen dómsmálaráðherra lýst yfir efasemdum um kynbundinn launamun og jafnlaunavottun.
Samtök atvinnulífsins hafa einnig gagnrýnt frumvarpið, en Vísir greindi frá því í mars að reynt væri að fá jafnlaunavottun inn í kjarasamninga. Frumvarpið gæti því orðið óþarft eftir samningaviðræður aðila vinnumarkaðarins og launþegahreyfingarinnar í landinu. „Frumvarpið er tilbúið í ráðuneytinu og verður lagt fyrir þingið í lok mánaðar ef ekki næst samkomulag milli aðila á vinnumarkaði um að koma jafnlaunavottun inn í samninga,“ sagði Þorsteinn þá.
Þótt frumvarpið hafi ekki enn verið lagt fyrir á þingi hefur það vakið athygli langt út fyrir landsteinana og verið til umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum á borð við Time, The New York Times, NPR, Independent og fleiri. Í mars sagði Þorsteinn í viðtali við norska fjölmiðilinn Dagsavisen að Norðmenn gætu svo sannarlega fetað í fótspor Íslendinga og lögfest jafnlaunavottun.
Athugasemdir