Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, gagnrýndi Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, harðlega í ræðu sinni á eldhússdagsumræðunum sem standa nú yfir á Alþingi.
„Mig langar, ljósi þess að við þingmenn getum ekki hreyft við neinum andmælum þegar forseti lýðveldisins messar yfir okkur við upphaf sérhvers þings, eins og hann gerði í dag, að nota tækifærið og andmæla staðhæfingum forsetans,“ sagði hún og bætti því við að forsetinn hefði sniðgengið mikilvæg atriði í málflutningi sínum um mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar samhliða forsetakosningum.
„Í fyrsta lagi þá eru þetta óþarfa áhyggjur hjá forseta vorum Ólafi Ragnari Grímssyni um að kosningar um stjórnarskrá samhliða forsetakosningum verði ólýðræðislegar. Það er einmitt eina mögulega leiðin til að tryggja nægilega þátttöku almennings til að vega upp á móti ólýðræðislegum 40 prósenta þátttökutálmunum sem voru settir í bráðabirgðaákvæði stjórnarskrárinnar. Staðreyndin er sú að ef breytingarnar verða umdeildar þurfa yfir 80 prósent allra á kjörskrá að mæta til að greiða atkvæði til að niðurstaða kjósenda öðlist gildi. Langbesta og tryggasta leiðin til að fá fólk á kjörstað eru fulltrúakosningar, samanber forsetakosningar eða Alþingiskosningar.“
Benti Birgitta á að engar sambærilegar lýðræðistálmanir væru á þátttöku til Alþingskosninga eða forsetakosninga. Þá svaraði hún einnig ummælum forseta um að þröng tímamörk og sparnaðarhvöt mættu ekki stofna gæðum verksins í hættu.
„Kæri forseti lýðveldisins. Það er mér sönn ánægja að upplýsa þig um að þetta eru ekki hvatarnir sem liggja að baki því að spyrða saman þessar tvær kosningar. Hvatarnir eru einmitt fyrst og fremst hugsaðir til að tryggja góða þátttöku,“ sagði hún.
Athugasemdir