**VARÚÐ! MYNDIR Í FRÉTTINNI ERU MJÖG SLÁANDI OG ALLS EKKI FYRIR VIÐKVÆMA.**
Flóttafólk sem ekki getur greitt smyglurum sínum fyrir ferðina frá Afríku til Evrópu er drepið og líffærin úr þeim seld, játar fyrrum smyglari.
Nuredein Wehabrebi Atta, sem nýverið var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir sinn þátt í smygli á flóttafólki, sagði ítölsku lögreglunni frá því að flóttamenn sem ekki gátu greitt fyrir ferðina yfir Miðjarðarhafið væru „seldir á 15.000 evrur til hópa, sérstaklega Egypta, sem eru sérhæfðir í að skera úr þeim líffærin.“
Vitnisburður hans varð til þess að opinbera fjölþjóðlegt samstarf hópa sem stunda flutning á flóttafólki. Hefur ítalska lögreglan í kjölfarið handtekið 38 manns sem grunaðir eru um aðild – 25 Erítreubúa, 12 Eþíópíumenn og einn Ítala.
Innanríkisráðherra landsins, Angelino Alfana, sagði aðgerðir yfirvalda vera þungt högg á starfsemi hinnar skipulögðu glæpastarfsemi, sem var að mestu stýrt frá Róm.
„Andlátin sem við fréttum af eru aðeins lítið brot af þeim.“
Nuredein Wehabrebi Atta er fyrsti útlendingurinn sem hefur verið veitt vitnavernd á Ítalíu. Hann sagði að mikill fjöldi látinna flóttamanna meðal þeirra sem reyndu að komast yfir hafið hefði leitt til þess að hann vildi játa brot sín. Sérstaklega lát 360 flóttamanna sem drukknuðu eftir að bátur sökk við Lampedusa, eyju sem liggur á milli Sikileyjar og Túnis, þótt hann hafi ekki verið viðriðinn atvikið.
„Andlátin sem við fréttum af eru aðeins lítið brot af þeim,“ sagði Atta lögreglunni. „Bara í Erítreu hafa orðið dauðsföll í átta af hverjum tíu fjölskyldum.“
Sagði hann einnig að flóttamenn sem ekki gætu greitt fargald sitt væru svo seldir til fólks sem stundar ólögleg viðskipti með líffæri.
Fjöldi flóttamanna sem hafa þurft að flýja heimili sín vegna átaka höfðu í lok ársins 2015 náð upp í 65 milljónir. Að meðaltali þurftu 24 manneskjur að flýja heimili sín á hverri mínútu, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum, sem gera 34 þúsund manneskjur á dag.
Athugasemdir