1. Kenndi skattrannsóknarstjóra um tafirnar
Þann 4. febrúar 2015 gagnrýndi Bjarni Benediktsson embætti skattrannsóknarstjóra harðlega í viðtali RÚV. Sagði hann að kaup á gögnum um aflandseignir Íslendinga hefðu þvælst fyrir embættinu alltof lengi og að málið „strandaði svo sannarlega ekki á fjármálaráðuneytinu“. Skömmu síðar kom í ljós að þegar ráðherra lét þessi orð falla var skattrannsóknarstjóri í biðstöðu vegna skilyrða sem ráðuneyti Bjarna hafði sett embættinu. Skattrannsóknarstjóri hafði þá nýverið sent ráðuneytinu bréf sem ekki hafði verið svarað. Gögn sem Stundin fékk aðgang að á grundvelli upplýsingalaga í fyrra sýna að skattrannsóknarstjóri sendi fjármálaráðuneytinu tölvupóst í desember 2014 þar sem fram kom að svo virtist sem fjölmiðlaumræða væri að fara af stað á þá lund að tafir á kaupum gagnanna væru embættinu að kenna. Með ummælum sínum ýtti Bjarni undir að dregin væri upp slík villandi mynd af stöðu málsins.
2. „Ekki nákvæm tímalína“
Í viðtali við RÚV þann 7. janúar síðastliðinn fullyrti Bjarni Benediktsson ítrekað að hann hefði ekki fengið skýrslu starfshóps um umfang aflandseigna Íslendinga inn í ráðuneyti sitt fyrr en eftir að þingi var slitið í október. Daginn eftir staðfesti ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fjölmiðla að umrædd skýrsla var afhent fjármála- og efnahagsráðuneytinu þann 13. september, þegar um mánuður var eftir af þingstörfum. Samdægurs fékk starfshópurinn tilkynningu frá ráðuneytinu um að störfum hans væri lokið og voru engar efnislegar breytingar gerðar á skýrslunni eftir þetta. Þingi var slitið þann 13. október, en þá hafði ráðuneytið ekki aðeins fengið skýrsluna afhenta heldur hafði ráðherra einnig fengið kynningu á efni hennar. Í sama viðtalinu sakaði Bjarni pólitíska andstæðinga um „þvætting“, „fyrirslátt“ og „pólitík“ en daginn eftir baðst hann afsökunar á ónákvæmni. „Þetta var kannski ekki nákvæm tímalína hjá mér og ég biðst nú velvirðingar á því,“ sagði hann.
3. Gaf villandi mynd
af stöðu lekamálsins
Þann 13. febrúar 2014 setti Bjarni Benediktsson fram rangar fullyrðingar um lekamálið og stöðu þess í réttarvörslukerfinu. Á þessum tíma hafði ríkissaksóknari mælt fyrir um sakamálarannsókn á starfsmönnum innanríkisráðuneytisins og staðfest þann skilning í svörum við fyrirspurnum DV og RÚV. Engu að síður fullyrti Bjarni á Alþingi að saksóknaraembættið hefði einungis sent málið til „viðeigandi meðferðar“ hjá lögreglu og allsendis óljóst væri hvort hafin yrði sakamálarannsókn. Um leið og hann fór sjálfur með rangt mál um stöðu málsins sakaði hann þingmenn stjórnarandstöðunnar um að halla réttu máli. „Menn verða að halda sig á sporinu þegar kemur að hugtakanotkun og því sem rétt er varðandi formlegan farveg málsins,“ sagði hann. Í sömu vikunni dró Bjarni upp þá mynd í fjölmiðlum að lekamálið snerist um hefðbundið kærumál innan stjórnsýslunnar þegar raunin var sú að um var að ræða fordæmalausa sakamálarannsókn sem beindist sérstaklega að ráðuneytisstarfsmönnum og varðaði brot á almennum hegningarlögum. Nokkrum mánuðum síðar fullyrti Bjarni að aldrei hefði komið neitt fram sem sýndi að Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefði sagt ósatt. Þá höfðu DV og fleiri fjölmiðlar fjallað ítarlega um ítrekuð ósannindi ráðherrans.
4. Sagði fréttakonu hafa rangt fyrir sér
Þann 23. september 2016 sakaði Bjarni Benediktsson Sigríði Hagalín Björnsdóttur, umsjónarmann leiðtogaumræðna Ríkisútvarpsins, um rangfærslu þegar hún benti á að hann hefði ekki staðið við loforð sem hann gaf öldruðum um afnám tekjutengingar ellilífeyris í aðdraganda þingkosninganna 2013. Sigríður vísaði þar til bréfs Bjarna til eldri borgara þar sem fram kom að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að „afturkalla kjaraskerðingu ellilífeyrisþega, sem komið var á árið 2009“ en jafnframt að flokkurinn myndi „afnema tekjutengingar ellilífeyris“. Bjarni svaraði: „Þetta er bara alrangt hjá þér. Við þessi loforð var staðið.“ Hið rétta er að tekjutenging ellilífeyris er ennþá hluti af lífeyriskerfi Tryggingastofnunar og grunnlífeyrir lífeyristrygginga skerðist ennþá vegna atvinnutekna. Síðar í sama þætti viðurkenndi Bjarni að vinnu við efndir þessara kosningaloforða væri ólokið.
5. Sagðist ekki
eiga aflandsfélag
Þann 11. febrúar 2015 sagði Bjarni Benediktsson í Kastljóssviðtali að hann hefði aldrei átt eignir í skattaskjólum eða stundað viðskipti í gegnum þau. Nokkrum mánuðum síðar kom í ljós að Bjarni hafði geymt 40 milljónir í aflandsfélagi á Seychelles-eyjum án þess að greina frá því í hagsmunaskrá þingmanna. Bjarni hefur gefið þá skýringu að hann hafi haldið að félagið væri skráð í Lúxemborg og einnig viðurkennt að hafa gefið íslenskum skattayfirvöldum þær röngu upplýsingar þegar hann skilaði skattskýrslum. Þegar Reykjavik Media spurði Bjarna um málið í fyrra sagði hann að tilgangur félagsins hafi verið að halda utan um eign á einni íbúð í Dúbaí. Í svörum hans til Süddeutsche Zeitung kom hins vegar fram að íbúðirnar væru fjórar talsins og var það staðfest af verktakanum í Dúbaí.
6. Gaf kolranga mynd af uppboðsleiðinni
Í Forystusætinu á RÚV þann 11. október 2016 gaf Bjarni Benediktsson villandi mynd af uppboði Færeyinga á fiskveiðiheimildum til að rökstyðja þá skoðun sína að óæskilegt væri fyrir Íslendinga að fara slíka leið. Þegar spyrill minntist á reynslu Færeyinga svaraði Bjarni: „Þú ert að tala um heimildirnar sem voru seldar útlendingunum, sem fóru til eins fyrirtækis.“ Hið rétta er að fiskveiðiheimildirnar í Færeyjum voru ekki seldar einu fyrirtæki heldur mörgum. Þá gátu aðeins færeysk fyrirtæki, það er félög í meirihlutaeigu Færeyinga, tekið þátt í uppboðinu. Auk þess sagði Bjarni: „Eru menn í alvörunni að tala um það að við eigum núna að taka þessa fiskveiðiauðlind sem skapar störf úti um allt land og bjóða hana til útlendinga?“ Raunin er hins vegar sú að á Íslandi eru í gildi lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri sem setja aðkomu útlendinga að fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða mjög þröngar skorður. Enginn sem talar fyrir uppboðsleið á Íslandi hefur mælst til þess að þessar reglur verði afnumdar eða að fiskveiðiauðlindin verði sérstaklega boðin útlendingum.
7. Röng lýsing á aflandsskýrslu
Þann 6. febrúar fullyrti Bjarni Benediktsson á Alþingi að í skýrslunni um aflandseignir Íslendinga væri „ekkert sérstakt sem skýrslan bendir á að stjórnvöld hafi látið undir höfuð leggjast að gera“. Ummælin standast ekki skoðun, enda er sérstaklega fundið að því í skýrslunni að stjórnvöld hafi, á árunum fyrir hrun, hunsað ráðleggingar sérfræðinga um að innleiða svokallaða CFC-löggjöf á Íslandi. Leitt er líkum að því að með lögfestingu slíkra reglna hefði mátt koma í veg fyrir að aflandsvæðingin sem átti sér stað á útrásarárunum yrði jafn umfangsmikil og raun ber vitni. Síðar í sama mánuði fór Bjarni aftur með rangt mál um efnisatriði skýrslunnar og sagði höfunda hennar hafa komist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hefðu verið „í fararbroddi“ þegar kom að því að „breyta lagalega umhverfinu í tengslum við skattaskjól“. Hið rétta er að starfshópurinn gagnrýnir einmitt íslensk stjórnvöld fyrir að hafa verið eftirbátur nágrannaríkjanna að þessu leyti. Í skýrslunni er vakin athygli á því að umfang aflandsvæðingar íslensks efnahagslífs var „einstakt í heiminum“ á útrásarárunum og þetta sérstaklega rakið til þess hve seint lagaumhverfinu á Íslandi var breytt.
8. Röng fullyrðing um greiðendur tekjuskatts
Þann 27. október síðastliðinn fullyrti Bjarni Benediktsson ranglega í stöðuuppfærslu á Facebook að einungis tekjuhæstu 30 prósent framteljenda stæðu undir tekjum ríkissjóðs af tekjuskattskerfinu. Gunnar Jörgen Viggósson, pistlahöfundur á Stundinni, hrakti ummælin og sýndi fram á að raunin er sú að a.m.k. tekjuhæstu 50 prósent framteljenda standa undir kerfinu. Þannig kom í ljós að með ummælum sínum hafði Bjarni haldið því ranglega fram að drjúgur hluti vinnandi fólks í landinu greiddi í raun og veru ekki tekjuskatt. Þessi röngu ummæli Bjarna, sem kunna að hafa sprottið af misskilningi, voru nær eina framlag hans til umræðunnar um misskiptingaráhrif skattastefnu þáverandi ríkisstjórnar í aðdraganda síðustu þingkosninga. Fjórir nýkjörnir þingmenn Sjálfstæðisflokksins deildu rangfærslunni á samfélagsmiðlum og tóku þannig þátt í að dreifa villandi upplýsingum til kjósenda.
Listinn er hluti af ítarlegri umfjöllun Stundarinnar um Bjarna Benediktsson sem birtist í síðasta tölublaði.
Athugasemdir