Ekki er útilokað að einstökum verkefnum Fjármálaeftirlitsins verði útvistað í framtíðinni. Þetta kemur fram í svari Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Óla Björns Kárasonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Óli Björn spurði alla ráðherra ríkisstjórnarinnar hvort þeir hefðu látið kanna kosti þess og galla að útvista starfsemi opinberra eftirlitsstofnana til einkaaðila.
„Ráðherra hefur ekki látið kanna kosti og galla þess að útvista starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Í tilefni af fyrirspurninni var óskað eftir afstöðu stofnunarinnar til þessa. Í svari hennar til ráðuneytisins kom fram að hún hefði ekki lagt heildstætt mat á kosti þess og galla að útvista starfseminni að hluta eða öllu leyti,“ segir í svari fjármálaráðuneytisins. „Sérstaklega var þó upplýst að fyrir nokkrum árum hefði verið ræddur hjá stofnuninni sá möguleiki að útvista hluta af starfsemi upplýsingatæknimála. Niðurstaðan þá hefði verið sú að slíkt kæmi ekki til greina en að á komandi misserum kynni viðhorf til þessa þó að breytast í ljósi þess að upplýsingar væru í síauknum mæli vistaðar í tölvuskýjum.“ Þá segir jafnframt: „Ráðherra telur ekki útilokað að útvistun einstakra verkefna Fjármálaeftirlitsins geti komið til greina í framtíðinni. Slíkt verði þó að meta hverju sinni með hliðsjón af þeim reglum og alþjóðlegu skuldbindingum sem um starfsemina gilda sem og möguleikum í tækniumhverfi og þá ekki síst með tilliti til öryggissjónarmiða.“
Útvistun er þýðing á enska orðinu „outsourcing“ og lýsir því þegar stofnun felur utanaðkomandi aðilum, svo sem einkafyrirtækjum, að sinna tiltekinni þjónustu fyrir sig eða verkefnum gegn greiðslu. Í útvistunarstefnu ríkisins, sem samþykkt var í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins árið 2006, er útvistun lýst sem þjónustu „sem ríkið kaupir af utanaðkomandi aðilum, þ.e. einstaklingum, fyrirtækjum, sjálfseignarstofnunum, félagasamtökum eða sveitarfélögum, hvort sem um er að ræða þjónustu sem keypt er vegna verkefna sem ríkið sinnir sjálft eða þjónustu sem verktaka er falið að veita almenningi og fyrirtækjum“. Markmið stefnunnar var „gott samstarf við einkaaðila um úrlausn opinberra verkefna þar sem ríkið er ávallt upplýstur kaupandi“.
Sjá einnig:
Samningur við Frumherja dæmi um skynsamlega útvistun eftirlitsverkefnis
Kannar hvort útvista megi eftirlitsverkefnum hins opinbera í ríkari mæli
Athugasemdir