Dorrit Moussiaeff, forsetafrú Íslands, tengist minnst fimm bankareikningum í Sviss í gegnum fjölskyldu sína og að minnsta kosti tveimur aflandsfélögum.
Samkvæmt upplýsingum frá HSBC átti Dorrit hlut á móti fjölskyldu sinni í félaginu Jaywick Properties Inc á Bresku jómfrúareyjunum en var einnig skráð fyrir hlut í Moussaieff Sharon Trust.
Til viðbótar benda gögnin til þess að hún hafi átt að erfa hluta aflandseigna foreldra sinna eftir að 86 ára móðir hennar Alisa félli frá. Reykjavik Media fjallar um málið í dag, auk Guardian og Süddeutshe Zeitung.
Nýverið var Ólafur Ragnar spurður að því í viðtali við CNN hvort eiginkona hans ætti aflandsreikninga eða hvort eitthvað ætti eftir að koma fram um hann og fjölskyldu hans.„Nei, nei, nei, nei, nei, það mun ekki koma á daginn.“ svaraði Ólafur Ragnar.
Eða hvað?
Í aðalumfjöllun vefútgáfu Süddeutsche Zeitung er fjallað um ósannindi forseta Íslands undir fyrirsögninni: „Nei, nei, nei, nei, nei – eða hvað?“
Þar segir: „Forseti Íslands fullyrti að kona hans hefði ekkert að gera með aflandsfélög. Samt er nú gert opinbert: Forsetafrúin hafði tengsl við nokkur skúffufyrirtæki.“
80 milljónir í Sviss
Raunin er sú að fjölskylda Dorritar, þar á meðal systur hennar tvær, áttu reikninga með allt að 80 milljón dollara innistæðum í HSBC bankanum í Sviss árin 2006 og 2007. Sjálf var Dorrit skráð fyrir hlut í félögunum sem nefnd eru hér að ofan, en til viðbótar benda gögnin til þess að hún hafi átt að erfa hluta aflandseigna foreldra sinna. Fram kemur í umfjöllun Reykjavik Media að Dorrit líti á viðskiptin sem einkamál og vilji ekki svara spurningum um þau.
Þá er haft eftir Örnólfi Thorssyni forsetaritara að forsetinn hafi enga vitneskju haft um félögin né heyrt um þau. Eins og bent er á í grein Guardian um málið hefur Ólafur Ragnar rætt á neikvæðum nótum um aflandsstarfsemi og meðal annars sagt að Íslendingar hafi mótmælt vegna þess að fólk fann fyrir siðferðilegri ógeðstilfinningu (e. moral disgust) eftir uppljóstranir um aflandsfélög.
Eins og frægt er orðið flutti Dorrit Moussaieff lögheimili sitt til Bretlands árið 2012.
Athugasemdir