Björn Geir Leifsson skurðlæknir gagnrýnir harðlega svokallaða dekurmeðferð Heisludrekans á Facebook-síðu sinni. Um er að ræða gua sha meðferð sem kostar 16.900 krónur hjá Heilsdrekanum. „Ævaforn kínversk dekurmeðferð sem heitir „gua sha“ sem t.d. eykur flæði í andlitinu, endurnýjar húðina, minnkar augnþreytu, yngir upp andlitið, eykur orku og nærð góðri slökun,“ segir á heimasíðu Heilsudrekans. Á kínversku þýðir „gua“ að skafa meðan „sha“ þýðir mar. „Ekki beint trúverðugt það, ef skoðað er hvað Gua Sha er í raun og veru, jafnvel eins og það er stundað í dag. Þarna er hugtakið greinilega notað um einhvers konar andlitsgælur,“ segir Björn Geri um þessa lýsingu.
Líkt og blóðsugumeðferð
Björn Geir segir að gua sha sé í ætt við blóðtökuaðferðir sem og blóðsugumeðferð. „Meginhluti þessara lækningafornleifa, sem enn eru notaðar af auðtrúa sálum á rætur sínar að rekja til fornu blóðtökuaðferðanna þar sem stungið var og rist í kroppinn og blóð tekið í þeirri trú að það gerði einhverjum gott. Það sem við þekkjum í dag sem nálastungur var ekki til fyrr en í upphafi síðustu aldar um það bil. Þar áður samanstóðu austurlenskar stungulækningar af því sama og á vesturlöndum á öldum áður, stungum og skurðum til að hleypa út ímynduðum vessum og ólofti,“ skrifar Björn Geir.
Ætlaði að hringja á lögregluna
Björn Geir rifjar svo upp atvik sem hann varð vitni að fyrir tveimur áratugum í Svíþjóð. „Þetta var að kvöldi á bráðavakt í Malmö fyrir tveimur áratugum þegar komið var inn með illa haldinn mann með mikla kviðverki. Það fyrsta sem skurðlækninum datt í hug þegar hann sá manninn var að láta einhvern hringja á lögregluna því maðurinn var marinn og blár frá hvirfli til ilja og greinilegt að hann hafði orðið fyrir útbreiddum áverkum. Marblettirnir voru í rákum og flekkjum sem ekki gátu verið af öðru en utanaðkomandi áverkum. Hann gat þó útskýrt að þetta hefði til komið vegna þess að fjölskyldan reyndi að lækna kviðverkina með því að skrapa fram mar með peningi. Sú töf sem varð á meðhöndlun botnlangabólgunnar hefði hæglega getað leitt til dauða, svo langt var hann leiddur,“ skrifar Björn Geir.
„Það er orðið að hátísku meðal vesturlenskra vitleysinga sem finnst spennandi og hressandi að láta þykjustulækna féfletta sig.“
Hátíska hjá Vesturlandabúum
Björn Geir bendir á að umrædd meðferð sé ekki eingöngu stunduð meðal austurlenskra innflytjenda á Vesturlöndum. „En gua sha og skyldar meiðingameðferðir er ekki bara til sem heimiliskreddur í austurlenskum innflytjendafjölskyldum. Það er orðið að hátísku meðal vesturlenskra vitleysinga sem finnst spennandi og hressandi að láta þykjustulækna féfletta sig,“ skrifar Björn Geir.
Athugasemdir