Grænlenskur karlmaður á þrítugsaldri, sem situr nú í gæsluvarðhaldi á Litla hrauni vegna gruns um aðild að hvarfi Birnu Brjánsdóttur, hefur hlotið dóm á Grænlandi fyrir fíkniefnamisferli. Um er að ræða sama karlmann og lögregluna grunar að hafi ekið rauðri Kia Rio–bílaleigubifreið aðfaranótt laugardagsins 14.janúar, sömu nótt og Birna hvarf sporlaust.
Bifreiðin sést greinilega á upptökum úr öryggismyndavélum við Hafnarfjarðarhöfn. Upptökurnar eru sagðar þær skýrustu sem til eru en þar sá lögreglan til dæmis bílnúmer bifreiðarinnar sem varð til þess að hún lagði hald á rauða Kia Rio í Kópavogi. Bifreiðin var leigð hjá Bílaleigu Akureyrar.
Lögreglan telur sig vita hver var undir stýri umrætt kvöld en mennirnir tveir sjást koma saman á bílaleigubílnum að Hafnarfjarðarhöfn um klukkan 6:20 á laugardagsmorgun. Þeir sjást báðir stíga út og ræða saman í nokkra stund fyrir utan rauða Kia Rio-bílaleigubílinn áður en annar þeirra fer um borð og hinn ekur í burtu.
Birna sést aldrei á öryggismyndavélum við Hafnarfjarðarhöfn.
Hefur áður brotið af sér
Samkvæmt heimildum Stundarinnar var sami maður og lögreglan telur að hafi verið undir stýri umrædda nótt kærður fyrir kynferðisbrot. Sú kæra náði hins vegar aldrei svo langt að hún yrði tekin fyrir hjá dómsstólum í Grænlandi. Dómurinn sem maðurinn fékk í Grænlandi snýr að sölu fíkniefna samkvæmt heimildum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk þessar upplýsingar um sakaferil hjá grænlenskum stjórnvöldum en utanríkisráðuneyti Grænlands hefur unnið náið með íslenskum stjórnvöldum undanfarna daga. Grænlendingar eru slegnir yfir hvarfi Birnu og óttast að málið kunni að hafa áhrif á annars gott og farsælt vináttusamband þjóðanna.
„Fylgst er náið með málinu á Grænlandi og vonast hér allir til þess að það verði leyst sem fyrst. Hugur og hjörtu Grænlendinga eru hjá aðstandendum Birnu og þeirra sem eiga um sárt að binda vegna málsins,“ segir heimildarmaður Stundarinnar sem staddur er í Nuuk á Grænlandi.
Aðskilja blóð frá hreinsiefnum
Þá hefur lögreglan staðfest að blóð hafi fundist í rauðu Kia Rio-bílaleigubifreiðinni sem skipverjinn hafði á leigu. Samkvæmt heimildum Stundarinnar var reynt að þrífa blóðblettinn úr bifreiðinni áður en henni var skilað en það hafi sést við rannsókn tæknideildar lögreglu. Hreinsiefni sem var notað í bílaleigubifreiðinni kom einnig upp við rannsókn tæknideildarinnar.
Samkvæmt sömu heimildum er búið að taka efnisbút úr bílaleigubifreiðinni og senda út til rannsóknar. Þar mun fara fram svokallað aðskiljunarferli en þá eru hreinsiefnin, sem notuð voru í bifreiðinni, aðskilin blóði svo hægt sé að rannsaka það nánar.
Umfangsmesta leit allra tíma
Björgunarsveitir Landsbjargar undirbúa eina stærstu og umfangsmestu leit í manna minnum í fyrramálið. Þær munu leita að Birnu Brjánsdóttur á um 2.500 ferkílómetrasvæði um helgina. Leitarsvæðið markast af Borgarfirði, Selfossi og Reykjanesi. Áhersla verður lögð á vegslóða við Kúagerði. Blaðamaður Stundarinnar keyrði umræddan vegslóða í gærkvöldi en hann er stórgrýttur og erfiður yfirferðar í þessu færi.
Lögreglan biður alla þá sem telja sig hafa upplýsingar um hvarf Birnu að hafa samband í síma 444-1000.
Athugasemdir