Bjarni Benediktsson forsætisráðherra vill að forseti Alþingis fái aukin völd til þess að stjórna störfum þingsins og þar með takmarka umræðutíma minnihlutans. Bjarni sagði frá skoðun sinni í þættinum Eyjunni á sjónvarpsstöðinni ÍNN í gærkvöldi.
„Það sem mér finnst einna mestu skipta er að forseti Alþingis myndi úthluta umræðutíma og standa stíft á því. [Þegar] öll sjónarmið í þessari umræðu eru komin fram eða við höfum gefið nægilegan tíma til þess að þau kæmu fram, er umræðunni lokið. Henni er bara lokið og þá er næsta mál á dagskrá,“ sagði Bjarni Benediktsson í þætti Eyjunnar í gærkvöldi.
Bjarni viðurkenndi í þættinum að réttur minnihlutans ynni gegn þessum breytingum, en taldi mögulegt að innleiða breytingarnar engu að síður. „Það sem kemur í veg fyrir að það sé gert er minnihlutavernd. Það eru uppi sjónarmið um að þá muni meirihluti þingisins valta yfir. En við þurfum bara að ræða það. Það eru leiðir sem hægt er að skoða,“ sagði Bjarni.
Formaður Samfylkingarinnar og þingflokksformaður Pírata telja tillögu Bjarna vera fráleita. Þeir segja það vera samdóma álit þingmanna á Alþingi að Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, hafi miðlað málum vel á milli stjórnarandstöðunnar og minnihlutans og ekki hafi komið upp núningar vegna umræðutíma þingmála á þingárinu. „Ég átta mig ekki á því hvaða áhyggjur Bjarni hefur. Það tíðkast reglulega í þinginu að menn semji um ákveðna umræðulengd þingmála. Það gengur hins vegar ekki að forseti Alþingis sé einum falið þetta vald,“ segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Einar Brynjólfsson, þingflokksformaður Pírata, segir Pírata hafa lengi talað fyrir því að forseta Alþingis yrðu falin meiri völd og embættið gert sjálfstæðara frá framkvæmdavaldinu. „Að úthluta ræðutíma án samráðs er hins vegar ekki góð hugmynd. Eins og þetta er núna þá hefur ríkisstjórn og forsætisráðherra forseta Alþingis í vasanum.“
Samkvæmt þingskaparlögum skal forseti hafa samráð við formenn þingflokka um fyrirkomulag umræðna um mikilvæg mál ef ætla má að umræður verði miklar. Þá er honum heimilt með samþykki allra þingflokksformanna að ákveða, áður en umræða hefst, hve lengi umræðan má standa. Forseta er einnig heimilt að stinga upp á því að umræðum sé hætt. Samþykki meirihluta atkvæða þingmanna ræður úrslitum um slíkar tillögu.
Þannig er fyrirkomulag núgildandi þingskaparlaga, við úthlutun ræðutíma, talið mynda sátt um málið meðal stjórnarflokka og minnihlutans. Tillaga Bjarna sem gengur gegn núgildandi fyrirkomulagi er því fráleit í augum Einars og Loga.
Athugasemdir