Bjarni Benediktsson, sitjandi innanríkisráðherra í fjarveru Ólafar Nordal, rauf þögnina um Eyjólf, fimm ára íslenskan dreng sem flytja á nauðugan til Noregs, í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu 977 í hádeginu í dag. Stundin hefur ítarlega fjallað um málið og greindi fyrst frá því þann 28. júlí þegar amma drengsins, Helena Brynjólfsdóttir, steig fram og sagðist hafa rænt barnabarninu sínu til þess að bjarga því.
Bjarni sagði þetta mál sem „snertir okkur öll“ og að kerfið okkar hér á landi væri ekki eins og „ískalt vélmenni“ sem hugsi ekkert og framkvæmi smakvæmt einhverjum rúðustrikuðum reglum.
Bíða niðurstöðu Hæstaréttar Íslands
„Já, þetta er mál sem snertir okkur, þegar í hlut eiga Íslendingar, íslenskur drengur sem kerfið einhvern veginn er að hrifsa til sín. Það sem er að gerast núna í þessari formlegu afgreiðslu er það að það er verið að láta reyna á alþjóðlegan sáttmála sem Ísland á aðild að. Þetta fellur undir skilgreininguna að vera brottnámsmál og það er verið að láta reyna á það hvort niðurstaðan sem fékkst í Noregi haldi gagnvart Íslandi. Það eru samkvæmt þessum sáttmála undanþágur frá því hvenær stjórnvöld í einu landi eða dómstólar eiga að virða þá meginreglu að erlenda ríkið ráði. Við verðum auðvitað fyrst að fá niðurstöðu í dómstólameðferðina en síðan hefur líka verið samband á milli barnaverndaryfirvalda – þetta er ekki þannig að kerfið okkar sé eins og ískalt stálvélmenni sem að hugsi ekkert og bara framkvæmi samkvæmt einhverjum rúðustrikuðum reglum. Þetta er ekki þannig og auðvitað erum við hér bæði innanríkisráðuneytið, barnaverndaryfirvöld og síðan úti í Noregi, það eru allir að horfa á það að það eru sálir sem eiga allt undir í þessu ferli,“ sagði Bjarni.
Fluttur fram og tilbaka á milli landa?
Líkt og Stundin greindi frá í gær þá hefur Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, haft samband við norsku barnaverndina í Kristiansand, sömu stofnun og krefst framsals drengsins. Þetta staðfesti Bragi í samtali við Stundina en sagði þó að norska barnaverndin hafi viljað fá niðurstöðu úr áfrýjuninni til Hæstaréttar áður en viðræðum yrði haldið áfram. Það þýðir einfaldlega að svo gæti farið að drengurinn yrði fluttur til Noregs eftir 35 daga og í kjölfarið myndu einhvers konar samningaviðræður fara fram um framsal drengsins aftur til Íslands. Frosti Logason, einn af stjórnendum Harmageddon, spurði Bjarna um einmitt þetta.
Þið viljið leyfa formsatriðunum að klárast í Hæstarétti og sjá síðan til eftir það? Á að senda drenginn út og vinna síðan í þessu þá?
„Það sem er ekki hægt fyrir innanríkisráðuneytið að gera er að grípa inn í framkvæmd dómsmáls. Það bara er ekki hægt. Menn verða bara að trúa því og treysta á það að það er verið að fylgjast nákvæmlega með þessu máli, málið er í réttum farvegi, barnaverndaryfirvöld eru að fylgjast með því og ég hef augun á því líka og við munum gera allt sem við getum sem stjórnvöld fyrir íslenska ríkisborgara og vegna þess að bæði þessi Haag-sáttmáli sem þú vísar til og íslensk lög og norsk, þau eru öll smíðuð með það fyrir augum að gæta hagsmuna barnsins. Til þess er þetta allt saman. Þetta er ekki smíðað til að verja hagsmuni fósturheimila,“ svaraði Bjarni.
En manni finnst samt eins og þetta kerfi sé að fara gegn sjálfum sér eða því sem því var ætlað?
„Ég held að við séum bara öll á sama stað með það að þegar við hugsum um þetta mál þá óttumst við verstu mögulegu niðurstöðu. Við skulum ekki gefa okkur hana fyrirfram.“
Eyjólfur á 35 daga eftir á Íslandi
Líkt og Stundin hefur áður greint frá þá dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur norsku barnaverndinni í hag í byrjun október. Dómurinn var byggður á Haag-samningnum þar sem segir meðal annars að taka verði mál brottnumins barns fyrir í því landi sem það hafði fasta búsetu í áður en það var brottnumið. Lögfróðir menn hafa þó bent á að Haag-samningnum hafi verið ætlað að vernda foreldra en ekki stofnanir á borð við norsku barnaverndina.
Í dómsorði kom fram að fjölskylda Eyjólfs hefur 60 daga til þess að koma honum í hendur íslenskra stjórnvalda sem síðan munu fylgja honum til Noregs. Helena, amma Eyjólfs, neitar að afhenda norskum stjórnvöldum drenginn og því ljóst að hann verður fjarlægður með lögregluvaldi af heimili sínu í Reykjavík og fluttur nauðugur af landi brott. Í dag eru 35 dagar þar til lögreglan knýr til dyra á heimili hins fimm ára Eyjólfs.
Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Bjarna Benediktsson frá því í dag.
Athugasemdir