Þrátt fyrir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi ákveðið að birta ekki skattaskjólsskýrslu, sem gagnrýnir harðlega aðgerðarleysi Sjálfstæðisflokksins, fyrr en eftir kosningar, og að vinnubrögðin hafi verið „ólíðandi“, mun Bjarni „njóta vafans“ og verða næsti forsætisráðherra Íslands.
Þetta kemur fram í viðtali við Pawel Bartoszek, þingmann Viðreisnar, við Morgunblaðið í dag.
„Bjarni fór vel yfir þetta frá sínum sjónarhóli og við viljum trúa því að hann hafi að minnsta kosti ekki haft neinn sérstakan ásetning í þessu máli. Það breytir þó ekki því að vinnubrögðin eru ekki til fyrirmyndar – langt í frá,“ segir Pawel.
„Ólíðandi“
Haft er eftir Pawel að skýrslumálið sé „ólíðandi“. Fram hefur komið að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, sem sjálfur átti eignir í skattaskjóli, ákvað að birta ekki skýrslu um umfang eigna Íslendinga í skattaskjóli fyrir kosningar. Jafnframt hefur komið fram að efni skýrslunnar er áfellisdómur yfir „aðgerðarleysi“ Sjálfstæðisflokksins vegna skattaundanskota og „aflandsvæðingu“ íslenskra viðskipta í valdatíð flokksins. Auk þess hefur komið fram að Bjarni sagði ósatt í viðtali við Ríkisútvarpið um málið. Hann sagði að hann hefði fengið skýrsluna eftir að Alþingi var slitið og því ekki náð að kynna hana þar fyrir kosningar. Skýrslan var hins vegar afhent ráðuneyti hans 13. september, mánuði áður en Alþingi var slitið. Loks hafði merking á forsíðu skýrslunnar, sem sagði „september 2016“, verið gerð ólæsileg fyrir birtingu hennar.
Þrátt fyrir gagnrýni á vinnubrögð og hagsmunastöðu Bjarna í málinu verður hann gerður að forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar sem tilkynnt er um í dag.
Pawel segist, í samtali við Morgunblaðið, treysta honum til að leiða ríkisstjórn. „Mér fannst svör Bjarna þó vera þess eðlis að ég treysti honum til að leiða ríkisstjórn. Ég er persónulega tilbúinn að leyfa honum að njóta vafans.“
Vildi ekki „kosningasamhengi“
Áður hefur komið fram að Bjarni geymdi 40 milljónir króna í aflandsfélagi, leyndi því, gaf skattayfirvöldum rangar upplýsingar um skráningu félagsins og neitaði því, aðspurður í viðtali við Kastljósið, að hafa átt eignir í skattaskjóli.
Boðað var til kosninga síðastliðið vor vegna umræðu um skattaskjólseignir stjórnmálamanna. Fram kom við svokallaðan Panama-leka, úr lögfræðistofunni Mossack Fonseca, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefði átt skattaskjólsfélag með eiginkonu sinni, án þess að láta vita af því, með verulegar kröfur á hendur þrotabúum íslensku bankanna á sama tíma og Sigmundur átti viðræður vegna þess. Bjarni útskýrði ákvörðun sína um að fresta birtingu skýrslunnar með því að hann vildi ekki „setja skýrsluna í kosningasamhengi“.
Athugasemdir