Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann biðst afsökunar á því að hafa skráð hús í eigu Grindavíkurbæjar á Airbnb. Þá viðurkennir hann að hafa ekki fengið heimild hjá sveitarfélaginu til að skrá eignina á síðuna.
Stundin sagði frá því í byrjun mánaðar að Róbert byggi í húsnæði í eigu sveitarfélagsins en leigði jafnframt út herbergi í húsinu til ferðamanna. Hvorki Róbert né Hjálmar Hallgrímsson, forseti bæjarstjórnar, vildu þá tjá sig um það hvort húsið væri leigt út með samþykki bæjarstjórnar. „Ég bý einn og fannst tilvalið að prófa að leigja út herbergi. Ég er búinn að fá tvo gesti. Mér finnst skemmtilegt að hafa gesti þegar ég kem heim úr vinnunni,“ útskýrði Róbert í samtali við Stundina.
Yfirlýsing Róberts í heild sinni:
Um miðjan ágúst síðastliðinn skráði ég eitt herbergi á heimili mínu til leigu fyrir ferðamenn á vefsíðunni Airbnb, eins og kom fram í fréttaflutningi Stundarinnar. Ég afskráði herbergið af síðunni 10. september síðastliðinn.
Þar sem ég hef afnot af húsi í eigu Grindavíkurbæjar, hefði ég átt að leita heimildar eigandans áður en ég skráði eignina á Airbnb. Það gerði ég ekki, sem voru mistök sem ég biðst innilega afsökunar á.
Athugasemdir