Stór hópur fólks safnaðist saman fyrir framan íslenska sendiráðið í Nuuk, höfuðborg Grænlands, í 15 gráða frosti í kvöld. Hópurinn tendraði ljós til minningar um Birnu Brjánsdóttur og til að sýna aðstandendum hennar, og Íslendingum öllum, samhug.
Ljósin voru ekki aðeins tendruð í Nuuk. Einnig hefur fólk safnast saman og kveikt á kertum í bæjunum Maniitsoq, Paamiut, Qaqortoq, Nanortalik og Uummannaq. Samkvæmt frétt Sermitsiaq stóð einnig til að kveikja ljós í Tasiilaq.
Í Tasiilaq á Austur-Grænlandi hafa íbúar undanfarið syrgt þrjár konur. Á einni viku sviptu tvær konur sig lífi. Þriðja konan, sem var 39 ára gömul, var myrt 13. janúar af 72 ára gömlum manni.
Grænlendingar hafa fylgst náið með framvindu rannsóknarinnar á hvarfi Birnu Brjánsdóttur og eftir að hún fannst látin í dag barst samúðarbylgja frá landinu til Íslands.
„Þetta er mál sem snerti mig djúpt, eins og aðra hér,“ sagði Aviaja E. Lynge, sem upphaflega setti fram hugmyndina um að kveikja ljós í Facebook-færslu.
„Manni líður eins og maður geti ekki gert neitt þegar eitthvað svona hræðilegt gerist. Við tengjumst Íslandi sterkum böndum og það er gott að sýna samúð á þennan hátt, nú þegar getur ekki gert neitt annað,“ bætti hún við í samtali við Sermitsiaq.
Hugmyndin um að sýna samhug með tendrun ljósa dreifðist um allt Grænland í dag. Fjallað er um viðbrögð Grænlendinga í fréttinni „Allt Grænland sýnir Íslandi samhug“.
Athugasemdir