Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi telur að æskilegustu skattbreytingarnar hér á landi væru hækkun virðisaukaskatts, eignaskatta og auðlindaskatta. Mikilvægt sé að forgangsraða fjármunum hins opinbera til innviðafjárfestinga og heilbrigðis- og menntamála.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslum sem kynntar voru í gær vegna reglubundinnar umræðu um efnahagsaðstæður á Íslandi í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Ríkisstjórn Íslands hefur boðað að almennt þrep virðisaukaskatts verði lækkað árið 2019. Telur Fjármálaráð, sérfræðingahópur skipaður af fjármálaráðherra, að sú aðgerð sé „líkleg til að ganga gegn grunngildinu um stöðugleika við þær efnahagsaðstæður sem nú ríkja.“
Í fjármálaáætlun stjórnarinnar er hins vegar gert ráð fyrir hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, en óljóst er hvort þingmeirihluti sé fyrir slíkri breytingu.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa talað mjög fyrir hækkun eigna- og auðlindaskatta undanfarin ár, en fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gerir ekki ráð fyrir aukinni skattheimtu á því sviði.
Genginu leyft að styrkjast
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að raunveruleg hætta sé á því að íslenska hagkerfið ofhitni. Því sé brýnt að gæta aðhalds og draga úr spennu í efnahagslífinu. Fjárlög ársins 2017 hafi verið of þensluhvetjandi í ljósi þess hvar við erum stödd í hagsveiflunni og gæta þurfi vel að framhaldinu. Fram kemur að íslensk stjórnvöld hafi viðurkennt við starfsmenn sjóðsins að þau sjái eftir því að hafa aukið ríkisútgjöld um of í fjárlögum ársins 2017.
Athugasemdir