Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vill „vísa innkaupabanni til umboðsmanns“. Þetta kemur fram á Mbl.is í dag og er vísað til samþykktar borgarstjórnar frá 15. september um að Reykjavíkurborg kaupi ekki vörur frá Ísrael meðan hernám Palestínu stendur yfir.
Júlíus kallar eftir því að umboðsmaður Alþingis hefji frumkvæðisathugun á vinnubrögðum borgarstjórnarmeirihlutans. Í ljósi þess að Júlíus hefur ekki verið beittur rangsleitni af hálfu stjórnvalds getur hann ekki sent umboðsmanni hefðbundna kvörtun. Hins vegar ætlar hann að biðja umboðsmann um að rannsaka verklag borgarstjórnarmeirihlutans á grundvelli 5. gr. laga um umboðsmann þar sem fjallað er um frumkvæðismál. Nái vilji Júlíusar fram að ganga verður þetta fyrsta frumkvæðismálið sem umboðsmaður tekur til formlegrar athugunar á þessu ári.
Athugasemdir