Stærsta viðfangsefni samtímans er hvernig við ætlum að tryggja að mannkynið geti áfram lifað á plánetunni Jörð. Á loftlagsráðstefnu í París í lok síðasta árs sameinuðust þjóðir heimsins um að vinna að því saman að hlýnun jarðar verði ekki meiri en 2 gráður. Hlýnun á jörðinni hefur aukist hratt á síðustu áratugum og stór hluti ástæðu þess er af mannavöldum og við getum því margt gert til að stöðva þessa þróun og vernda jörðina okkar. Ráðamenn og -konur hreinlega verða að taka góðar ákvarðanir í orkumálum, atvinnuuppbyggingu, samgöngumálum, úrgangsmálum, skipulagsmálum og svo framvegis til að það sé mögulegt að ná þar árangri.
En það er ekki nóg að vísa ábyrgðinni eingöngu á stjórnvöld. Við berum öll ábyrgð og með persónulegu vali í lífinu höfum við gríðarleg áhrif á okkar eigin umhverfi og lífsskilyrði og einnig umhverfi og lífsskilyrði þeirra sem framleiða fyrir okkur vörur og matvæli. Með því að vanda valið á því sem við kaupum, huga að nýtingu hluta og fatnaðar, orku og vatns og hvernig við veljum að ferðast milli staða eða landa hefur heilmikil áhrif, svo fátt eitt sé nefnt. Við þyrftum því helst að hafa einn Parísarfund í hverri stórfjölskyldu þar sem hægt væri að komast að niðurstöðu um hvað hver og einn fjölskyldumeðlimur ætlar að leggja af mörkum. Ef við sameinumst um aðgerðir verða þær auðvitað enn áhrifameiri.
„Ef við yfirfærum það á Ísland allt má reikna með að við sóum mat fyrir í kringum 13 milljarða króna á Íslandi.“
Samkvæmt niðurstöðu forrannsóknar sem Landvernd gerði á matarsóun á reykvískum heimilum er matvælum fyrir 4,5 milljarða króna hent árlega. Ef við yfirfærum það á Ísland allt má reikna með að við sóum mat fyrir í kringum 13 milljarða króna á Íslandi. Þegar talað er um að sóa mat er átt við mat sem maður hendir en hefði verið hægt að nýta. Hér er því ekki verið að tala um bananahýði og eggjaskurn eða svoleiðis. Ef okkur tækist að minnka þessa sóun um 20% eins og Bretum tókst eftir matarsóunarátak þar í landi værum við að spara um 2,5 milljarð króna og minnka magnið af mat sem við hendum um rúm 3,5 tonn. Það mundi einnig skila tugmilljóna króna sparnaði til sveitarfélaga vegna meðhöndlunar úrgangs og skila sér þannig í lægri sorphiðrugjöldum til langs tíma. Áhrifin á umhverfið væru þó umtalsvert meiri þar sem það er orkufrekt að framleiða mat, það krefst mikillar vatnsnotkunar og það skapar mengunarhættu. Við niðurbrot úrgangs eftir urðun myndast hauggas sem í eru gróðurhúsalofttegundir sem eru 21 sinni áhrifameiri en koltvísýringur. Hve mikið af gróðurhúsalofttegundum sem myndast ræðst meðal annars af magni úrgangsins og hlutfalli lífrænna efna. Því minna sem urðað er, því minna losnar af gróðurhúsalofttegundum. Fjárhagslegur ávinningur er því í raun ekki það sem skiptir mestu máli því ef við höldum áfram að borða eins samsettan mat og við gerum í dag og höldum áfram að sóa jafn miklu af mat og framleiða hann með þeim hætti sem nú er gert þá horfum við fram á að eftir einungis áratugi verði á jörðinni bæði matarskortur og vatnsskortur.
Í dag búa um 7% jarðarbúa við skort á ferskvatni og ef við höldum áfram í þeim takt sem við erum í til ársins 2050 munu samkvæmt spá Heimssamtaka efnaverkfræðinga tæplega 67% jarðarbúa búa við skort á vatni. Almenningur notar aðeins um 10% af því ferskvatni sem notað er í heiminum í dag. Um 20% eru notuð í iðnaðarframleiðslu og hvorki meira né minna en 70% í matvælaframleiðslu.
Einhver kann að hugsa að á Íslandi sé svo mikið af hreinu og góðu vatni að þetta skipti okkur ekki máli en við getum ekki horft framhjá því að við búum öll á sömu jörð og auk þess kaupum við mikið af þeim mat sem við neytum erlendis frá. Við þurfum að verða meðvitaðri um vatnið og fræðast betur um hvernig maturinn sem við kaupum er framleiddur, þannig að við getum tekið upplýstar ákvarðanir um matarinnkaup. Samkvæmt nýlegri sænskri könnun hafa 1 af hverjum 5 Svíum minnkað neyslu á kjöti og taka þannig þátt í alheimsbylgjunni „meatless monday“ eða „köttfri måndag“ á sænsku. Það að framleiða kjöt er gríðarlega ork- og vatnskrefjandi og hefur mikil áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Hvert svona skref skiptir gríðarlega miklu máli og mætti vel taka upp hérlendis í fjölskyldum og á vinnustöðum og færa þannig heiminn okkar a.m.k. aðeins örlítið nær því að verða sjálfbær. Ekki er verra að þetta er algjörlega í takt við ráðleggingar um næringu en töluvert ábyggilegar vísbendingar eru um að æskilegt sé að minnka kjötneyslu.
Það er auðvitað heilmargt fleira sem við getum gert til að tryggja að við búum við sem heilnæmast umhverfi. Við getum minnkað orkunotkun á heimilum, ræktað grænmeti, plantað trjám, jarðgert lífrænan úrgang, notað almenningssamgöngur eða hjólað og gengið meira. Listinn er lengri en best er að hver og einn finni sína eigin leið að sínu eigin Parísarsamkomulagi, við höfum allt að vinna.
Athugasemdir