Að kvöldi kosningadags var ég búinn að ákveða að fara í partýið hjá Guðna Th. Jóhannessyni. Ef maður ætlar að upplifa einstaka stemningu þá er líklega best að sú stemning sé hjá væntanlegum sigurvegara.
Þegar ég kom í salinn á Grand Hótel, þar sem kosningavakan fór fram, voru líklega á að giska um 150 manns í salnum. Í lobbíi hótelsins sátu túristar að sumbli, að því er virtist algjörlega ómeðvitaðir um að eyjaskeggjarnir með stórmennskubrjálæðið ætluðu að velja sér nýjan forseta, og að sá forseti myndi taka sigurdjammið á hótelinu þeirra.
Hér og þar voru borð með snittum og vatnskönnum, og á barnum var sérstakt tilboð á áfengi, en þar var ennþá frekar fámennt, enda klukkan rétt að verða 10. Meðfram veggjum salarins voru stólar, við aðra langhliðina var svo svið og beggja vegna þess tvö tjöld þar sem sjónvarpsútsendingu var varpað. Eftir að hafa fengið mér kaffibolla settist ég niður og reyndi að meta stemninguna.
Í veislunni voru að sjálfsögðu gestir á öllum aldri, allir í sínu fínasta pússi. Ég rak augun í vinkonu mína sem hafði verið formaður nemendafélagsins í FB þegar ég var þar. Hún hefur unnið trúnaðarstörf fyrir Sjálfstæðisflokkinn og gerðist sjálfboðaliði fyrir framboð Guðna strax í upphafi. Ég sá annan sagnfræðing, besta vin einkabílsins, Björn Jón Bragason. En þar fyrir utan var bróðurpartur veislugesta prúðbúnir eldri borgarar. Rétt eins og í grillveislunni sem ég fór í til Davíðs Oddsonar. Ég fór að velta þessu fyrir mér, hversvegna ungt fólk hefði svona ótrúlega takmarkaðan áhuga á stjórnmálum. Bara tveim dögum fyrir forsetakosningar höfðu eldri borgarar Bretlands kosið landið úr Evrópusambandinu, á meðan yngri kynslóðin, sem vildi vera þar áfram, sat heima á kjördag. Ég óttaðist að þetta gæti þýtt að munur Davíðs og Guðna í könnunum skipti engu máli ef aðeins brot af því fólki sem ætlaði að kjósa Guðna mætti á kjörstað, en allir kjósendur Davíðs, og meira til.
Skoppa og Skrítla í framboði
Á meðan ég rembdist við að taka inn stemninguna fóru veislustjórarnir að gera sig gildandi á sviðinu. Þau Linda Ásgeirsdóttir, betur þekkt sem Skoppa eða Skrítla, ég man það ekki, og Sveinn Waage, fyrrum fyndnasti maður landsins árið 1998, tóku léttan snúning á salnum. Þau sögðu gestunum frá því hvernig plan kvöldsins væri; Fyrstu talna upp úr kjörkössum væri að vænta bráðlega, að því loknu færi Guðni í viðtal á RÚV. Rétt fyrir miðnætti kæmi hann svo í salinn, og þá ætti sko að fagna og syngja því hann ætti afmæli á miðnætti. Upplýsingarnar sem þau voru að koma frá sér voru góðar og gildar, en mér leið smá eins og ég væri á fundi stuðningsmannaklúbbs Manchester United eða Michael Schumacher, áður en United breyttist í dauðan þorsk og Schumacher í grænmeti. Sigurhrokinn og fagnaðarlætin byrjuð. Kálið sopið áður en í ausuna var komið. Svosem ekkert óverðskuldað, en mjög ódannað og sjarmalaust með öllu.
Skrítla var þó mjög fagmannleg, en bar það þó óþægilega mikið með sér að hennar helstu kúnnar væru yfirleitt undir 6 ára aldri. Sérstaklega þegar hún kenndi salnum að taka undir með sér í fagnaðarkalli, sem átti að hljóma þegar Guðni kæmi í salinn. Það átti semsagt að vera svona:
Skoppa/Skrítla: TIL HAMINGJU!
Salurinn: Hey!
Skoppa/Skrítla: TIL HAMINGJU!
Salurinn: Hey!
Skoppa/Skrítla: TIL HAMINGJU!
Salurinn: HEY, HEY, HEY!
Nýr forseti lýðveldisins. Hey, hey, hey. Án þess að eyða of mörgum orðum í það þá efaðist ég smávægilega um hæfni Guðna til þess að ráða veislustjóra. Sveinn slúttaði með tilraun til að keyra upp stemninguna í salnum með því að minna á að það væri tilboð á barnum, brátt yrði bein stjónvarpsútsending frá staðnum, og svo tók hann það allt saman í nokkrum stikkorðum til þess að geirnegla þetta inn: „Þetta verður ógeðslega mikið bara gleði og gaman! Barinn, gaman, sjónvarpið og fjör!“ Jibbí.
Kynslóðabilið
Stuttu seinna var svo byrjað að sjónvarpa beint frá kosningavökum frambjóðenda. Ég hafði rétt áður hitt sveitunga mína sem einnig veltu því sama fyrir sér og ég, hvar unga fólkið væri eiginlega, án þess að við kæmumst að niðurstöðu. Áður en sýnt var beint frá kosningavöku Guðna sýndi RÚV beint frá Iðnó, þar sem vaka Andra Snæs fór fram. Þar sá ég í fyrsta skiptið mína kynslóð samankomna. Ég hef ekki séð útlistun á því hvaða frambjóðendur kjósendur völdu út frá aldri, en eitthvað segir mér að afgerandi afstaða Andra til nýsköpunar, náttúruverndar og framtíðarsýnar hafi almennt talað meira til fólks en röfl annarra frambjóðenda um þorskastríðin og hver sagði hvað um helvítis Icesave.
Og ég er ekki að segja að Guðni hafi ekki staðið vel í sinni baráttu. Hann fékk þjóðina í fangið og tækifæri til að sjarma hana upp úr skónum í umfjöllun RÚV um Wintris málið, daginn sem Sigmundur Davíð rúntaði um stór-Reykjavíkursvæðið eins og rófulaus hundur í veikri von um að rjúfa þing og/eða halda völdum. Aðrir frambjóðendur fengu ekki viðlíka tækifæri. Þar fyrir utan virðist Guðni vera gríðarlega heiðarlegur og gegnheill náungi, sem getur fært góð rök fyrir öllum sínum ákvörðunum og orðum. Hann átti til dæmis að mínu mati eina mestu neglu kosningabaráttunnar þegar hann afvopnaði Davíð Oddson algjörlega í kappræðum þeirra tveggja í Eyjunni á Stöð 2, þar sem Davíð reyndi enn og aftur í veikum mætti að sverta orðstír Guðna með því að saka hann um að hafa stutt Icesave samningana og vilja kollvarpa stjórnarskránni. Án þess að fara í of löngu máli út í þá sálma að Davíð var sjálfur algjör guðfaðir og sæðisgjafi þess ástands sem gerði Icesave að möguleika, þá tók Guðni ekki boði Davíðs um leðjuslaginn, og spurði þess í stað „Davíð, hefur þú enga sómakennd?“ Þá stórt er spurt…
Ég er ekki heldur að halda því fram að við eldri borgara sé að sakast með að vera yfirleitt á öndverðri skoðun en yngri kynslóðirnar, og hvað þá heldur að það sé þeim að kenna að þeir séu miklu duglegri að mæta á kjörtstað heldur en unga fólkið. Hinsvegar er það bitur sannleikur að fólkið sem á skemmst eftir sé svo margfalt samviskusamara í að kjósa að það velji framtíð fyrir fólkið sem þarf svo að lifa hana.
Salur í sjokki
Stuttu eftir að kosningasjónvarp RÚV hafði sýnt beint frá Grand Hótel komu fyrstu tölur. Atkvæði frambjóðenda voru lesin upp í stafrófsröð. Þegar Ástþór fékk sín 50 atkvæði var til dæmis hlegið. Svo fékk Guðni einhvern slatta og þá var mikið klappað. Þegar atkvæði Höllu voru svo lesin upp, og hún var aðeins með nokkrum atkvæðum minna en Guðni breyttist hinsvegar stemningin í salnum töluvert. Fólk greip fyrir andlitið og sagði „ú“ og „a“ og sumir sögðu „ha?“ Sigurreifu klappstýrurnar uppi á sviði sem stuttu áður tættu af sér gamanmál og sigursöngva stóðu nú tifandi og vissu ekki alveg hvernig ætti að spila úr þessu. Ég náði einmitt myndbandi af þessu ástandi:
Guðni var sjálfur sýnilega sleginn yfir tölunum, en náði að spila ágætlega úr því. Þegar myndavélin svo beindist að Höllu sagðist hún vera hrærð, en ég er ekki viss um að hún hafi verið raunverulega hrærð, eða hafi bara þóst vera hrærð af því hún vissi að hún ætti eiginlega að vera hrærð. Það kemur kannski út á eitt í stjórnmálum.
Nokkrum mínútum síðar komu svo næstu tölur og þá varð strax ljóst að Halla átti enga möguleika. Salurinn klappaði einlæglega þegar tölurnar hennar birtust og staðfestu endanlega hver næsti forseti væri. Guðni þóttist enn smá sleginn, Halla hrærð, en augljóst var að Golíat hafði sigrað Davíð.
Næstu tvær klukkustundir voru gríðarlega tíðindalitlar. Kunningi minn, sem einmitt hafði komið með mér í grillveisluna til Davíðs, kíkti á mig. Við ráfuðum um salinn og ræddum ástandið, inn á milli voru sýndar nýjar tölur og alltaf var það sama rútínan: Hlegið að tölunum hans Ástþórs, klappað fyrir tölum Guðna og fagnað þegar tölur Höllu voru lægri. Munurinn ýmist jókst eða styrktist og röðin á barnum lengdist. Þrír menn sem augljóslega voru einhverskonar lífverðir merktir Mjölni röltu um anddyrið með gorma í eyrum. Snittunum fækkaði. Munnar brostu og varir klíndu varalit á glös.
Frelsið til að rífast
Svo kom viðtal á RÚV við fjóra efstu frambjóðendur. Þar sýndi Davíð til dæmis andlitið sem hann hafði í upphafi baráttu sinnar lofað okkur. Ljúfi og mjúki gúddí gæinn. Slagurinn búinn. Líkti sér við landsliðið einusinni í viðbót og óskaði Guðna til hamingju með sigurinn. Ég fullyrði að hefði hann sleppt slagnum og keyrt á sjarmanum hefði hann ekki hlotið þetta afhroð. Guðna hitti ég sjálfur fyrir nokkrum vikum og tók við hann langt viðtal. Það var mjög áhugavert. Ég mæli að sjálfsögðu eindregið með lestri þess, en það sem sat einna mest í mér var reyndar svar við spurningu minni sem ekki rataði í viðtalið, það var svona:
Þú hefur talað um að verðir þú kosinn munir þú ekki sitja lengur en tólf ár. Hvar sérðu Ísland að tólf árum liðnum?
„Hvar sé ég Ísland árið 2028? Ég vona að við höldum í meginatriðum áfram á sömu braut. Við verðum að halda áfram frelsinu til að rífast. Ágreiningur er eiginlega aðalsmerki siðaðs samfélags. Ég myndi aldrei biðja um að allir yrðu mér sammála um allt. En við eigum að deila málefnalega. Við eigum að halda því áfram. Von mín er sú að árið 2028 höfum við haldið áfram að rífast í 12 ár, en gert það heiðarlega, af sanngirni og réttlæti. Ég neita því að vera svartsýnn og óttasleginn. Framtíðin er frábær. Auðvitað eru ógnir, auðvitað verða áföll, en ef við óttumst alltaf hvað morgundagurinn ber í skauti sér þá verðum við alltaf á verði. Alltaf hikandi, alltaf óörugg, alltaf tortryggin, og hver vill lifa svoleiðis? Ekki ég.“
Tilhneigingin er að líta á átök og andstæðar skoðanir neikvæðum augum, en þessi lýsing Guðna fannst mér einstaklega fersk. Að taka röflinu fagnandi, því það hljóti á endanum að leiða til niðurstöðu sem sé ásættanleg. Þessa skoðun endurtók hann í öðru formi í viðtalinu á RÚV eftir að augljós var í hvað stefndi. Að átökin væru í rauninni af hinu góða, þó það virstist örðuvísi í hita leiksins. Þarna sættist ég endanlega við hugmyndina um hann sem forseta.
Slagurinn búinn og rétt að byrja
Eftir fjöruga kosningabaráttu, þar sem kanónur birtust og hurfu á víxl, landið gekk inn í stjórnarkreppu, forsætisráðherra sagði af sér og kosningum var flýtt, kusum við lýsanda leiksins sem forseta. Þrátt fyrir öll átökin, skítkastið og frídreifingu Moggans var það á endanum þjóðin sem valdi sér hógværan og jarðbundinn sagnfræðing til að búa með börnunum sínum fimm og konunni sinni frá Kanada á Bessastöðum. Áhugaverður kosningaslagur útúrsnúninga, átaka og undirróðurs leiddi til ótrúlega óáhugaverðrar kosningavöku.
Þegar Guðni steig inn í húsið, sýnilega verulega þreyttur, var honum fagnað sem þjóðhetju. Vinur minn grínaðist með að það þyrfti bara að snara honum í tóga og fá einhvern til að halda á lárviðarlaufi yfir höfðinu á honum. Ég stóð beint á móti bróður hans, Patreki Jóhannessyni, þegar þeir knúsuðust innilega rétt áður en Guðni gekk inn í troðfullan salinn. Afmælissöngur, ræður og fagnaðarlæti. Á meðan Jóhanna Vigdís Arnardóttir söng Happy Birthday Mr. President fyrir Guðna Th.- rétt eins og viðhald John F. Kennedy, Marilyn Monroe, hafði gert í lyfjamóki 54 árum áður, gengum við félagarnir flissandi út í nóttina.
Eftir að hafa skutlað vini mínum heim keyrði ég Grensásveg framhjá kosningamiðstöð Davíðs Oddsonar. Á meðan salurinn hjá Guðna var svo stútfullur að út úr flæddi var heldur fámennara hjá Davíð. Fáeinar hræður að tínast niðurlútar út, og svo las ég að nokkrum mínútum síðar hefði ljósum verið slökkt og skellt í lás. Ef ekkert annað tókst Íslendingum í það minnsta í eina kvöldstund að hafna gamla Íslandi. Íslandi útúrsnúnings og persónuárása. Vonandi er sú þróun komin til að vera, því þá fyrst verður hægt að fagna.
Athugasemdir