Þrítugustu og fyrstu Ólympíuleikarnir hefjast í Rio de Janeiro í Brasilíu þann 5. ágúst í sumar. Þegar staðsetning leikanna var ákveðin árið 2008 brutust út mikil fagnaðarlæti í Brasilíu. Þá ríkti nærri taumlaus bjartsýni í landinu, uppgangur var í efnahagslífinu, hjól atvinnulífsins snerust af kappi og velmegun hafði aukist.
Um leið virtist seta hins viðkunnanlega vinstrimanns Lula da Silva á forsetastóli trygging fyrir því að félagslegt réttlæti og samfélagsleg ábyrgð ykjust – og ekki vanþörf á í þessu landi hins mikla misréttis, sem verið hafði. Og Ólympíuleikaranir voru ekki eini stórviðburðurinn sem Brasilíumenn höfðu tryggt sér til merkis um þann slátt sem á þeim var þegar leið að lokum fyrsta áratugar 21stu aldar, heimsmeistaramótið í fótbolta hafði líka verið afráðið að færi fram í landinu árið 2014 og þá átti loksins, loksins að leiðrétta þau hörmulegu mistök sem urðu árið 1950 þegar Brasilíumenn töpuðu af heimsmeistaratitli í fóbolta á heimavelli, og höfðu grátið æ síðan. Nú átti að kosta öllu til og heimsbikarinn á heimavelli skyldi verða tákn um hina fögru nýju veröld sem upp væri risin í landi rauðviðarins. Lula lét af embætti 2011 en við tók Dilma Rousseff, baráttukona gegn herforingjastjórnum fyrri tíma og hafði verið pyntuð í fangelsi fyrir hugsjónir sínar um 1970, og þegar slík kona tyllti sér í forsetastólinn var það enn eitt merkið um gjörbreytt landslag í Brasilíu, hún hlyti að gæta þess jafnvel enn frekar en Lula að réttlæti og sanngirni yrðu höfð að leiðarljósi í efnahagsuppganginum sem virtist svo þrotlaus. Um þær mundir var farið að tala um að Brasilía stefndi óðum að því að verða eitt af stórveldum 21stu aldarinnar – það var smíðað hugtakið BRICS sem stóð fyrir hin vaxandi efnahagsveldi sem yrðu drifkrafturinn í efnahagsmálum heimsins og tækju við af gömlu stórveldunum á efnahagssviðinu sem einmitt um það leyti sigldu inn í djúpa kreppu.
BRICS var skammstöfun yfir ensk heiti hinna verðandi stórvelda: Brasilíu, Rússlands, Indlands, Kína og Suður-Afríku.
Nú er öldin önnur, aðeins hálfum áratug síðar. Þeim sem nefndu Rússland og Suður-Afríku í sömu andrá og efnahagslegan uppgang yrði mætt með kuldahlátri. Kína er í mjög viðkvæmri stöðu og þar getur farið alla vega. Indland heldur vissulega sínu striki svona nokkurn veginn, en það er heldur ekki meira en svo. Og Brasilía er í djúpum skít.
Fótboltabruðli mótmælt
Efnahagsuppgangurinn var á veikari rótum reistur en menn héldu – eða vonuðu. Og misréttið í samfélaginu var ekki á því undanhaldi sem flestir höfðu vonað meðan hinn góði Lula sat að völdum. Undir handarjaðri hans og þó enn frekar hinnar fyrrum hugsjónaríku Dilmu Rousseff þá þreifst spilling sem fyrr og ríka fólkið hrifsaði til sín flest það sem aflögu var. Óánægja kraumaði undir niðri og braust út með ótrúlegum hætti á heimsmeistaramótinu í fótbolta. Okkur hafði verið sagt að hinir lífsglöðu Brasilíumenn beinlínis lifðu fyrir fótbolta og þeir myndu ekki hugsa um neitt annað þær vikur sem mótið færi fram 2014, en þá voru allt í einu mættir mótmælendur í þúsundavís út á götur til að andmæla versnandi hag hinna fátæku og bruðli ríkisins sem birtist í fótboltamótinu, þarna var mætt fólk sem heimtaði jöfnuð og réttlæti og fór óhikað í verkfall en lét sig engu skipta hvað gerðist inni á fótboltavellinum – og það var einhvern veginn mjög hæfilegt merki um hve snögglega og brútalt þjóðin vaknaði af velmegunardraumunum frá 2010 þegar furðulega þunglamalegt fótboltalandsliðið var gjörsamlega kjöldregið af líflegum Þjóðverjum sem unnu 7-1. En sá háðulegi ósigur, sem einhvern tíma hefði valdið djúpu hjartasári fótboltaóðra Brasilíumanna, hann virtist nú ekki kveikja neitt sérstakt þunglyndi með þjóðinni, ótrúlega mörgum var sama, fólk vildi beina athyglinni að öðru.
Fargjöld í strætó voru fólki ofar í huga en fótboltalandsliðið í sjálfri Brasilíu, svo var þá komið, og hefðu menn fyrrum látið segja sér tvisvar.
Og öllum áformum um að Brasilía verði efnahagslegt stórveldi á næstu áratugum hefur þegjandi og hljóðalaust verið slegið á frest.
Sykur og gull
Flest er á huldu um forsögu Brasilíu. Þangað var komið fólk og farið að móta sér leirker fyrir tíu þúsund árum, ef ekki fyrr, eða sem sé aðeins fáeinum þúsöldum eftir að menn komu fyrst hópum saman til Ameríku frá Asíu. Þegar Portúgalir komu að ströndum landsins laust fyrir 1500 bjuggu þar fjölmargar þjóðir, flestar fámennar og á steinaldarstigi og höfðu ekki myndað tæknivædd menningarríki. Tengsl við Inka og aðrar þróaðri þjóðir vestantil í Suður-Ameríku virðast engin hafa verið, enda yfir mikil fljót og frumskóga að fara. Engin sérstök skýring hefur fundist á því af hverju tæknimenning reis ekki í strandhéruðum Brasilíu, nógur var tíminn til þess og nóg var frjósemi jarðar til að standa undir blómlegum ríkjum, en þau mynduðust sem sagt ekki – kannski var einfaldlega of fámennt, eða jörðin of næringarrík, það þurfti ekki mikið að hafa fyrir lífsbaráttunni þar sem best lét, alltaf nóg að bíta og brenna fyrir hvern hóp í sínum kima landsins, engin sérstök þörf á að finna upp eitthvað nýtt. Og Portúgalir lögðu undir sig ströndina fyrirhafnarlítið í byrjun sextándu aldar. Þeir hröktu burt Frakkar sem voru farnir að dreifa fyrir sér þar sem nú heitir Rio de Janeiro og um sama leyti og Jón Arason var afhausaður á Íslandi, þá voru portúgalskir pótintátar að stofna formlega nýlendu þar suður frá með höfuðborg í Salvador og Jesúítar voru mættir til leiks að boða sinn stranga guð. Portúgalir hófu svo að rækta sykurreyk í frjósamri jörðinni. Fólk flutti frá Evrópu til að sinna um akrana en lengi vel óx íbúafjöldinn hægt. Eftir því sem sykurreirsræktunin færðist í aukana voru þó sífellt fluttir inn fleiri þrælar frá Akríku til að púla á ökrunum. Svo fannst gull í Brasilíu á 18. öld og þá færðist fjör í leikinn og höfuðborgin frá flutt til Rio de Janeiro sem var nær námasvæðunum en Salvador.
Undir lok þeirrar aldar voru borgarar og jafnvel líka ráðandi stéttir í Portúgal hér um bil búnar að fá sig fullsaddar af stjórn Portúgala, rétt eins og íbúar á öðrum svæðum Suður-Ameríku voru komnar með upp í kok af nýlendustjórn Spánverja. Þróunin varð þó giska ólík á spænskumælandi svæðum annars vegar og í Brasilíu hins vegar. Símon Bólivar og fleiri frelsishetjur hinnar spænsku Ameríku stýrðu vopnuðum uppreisnum gegn Spánverjum og brutust til sjálfstæðis eftir meiri eða minni stríð gegn Spánverjum. En til Brasilíu mætti kóngurinn í Portúgal og setti þar í raun upp nýtt ríki sjálfur.
Plottaði gegn eiginmanninum
Það vildi þannig til að árið 1807 réðist Napóleon Frakkakeisari inn í Portúgal til að refsa þarlendum fyrir að hafa verið í slagtogi með Bretum. Þá réði að nafninu til ríkjum í Portúgal hin 73ja ára María drottning, en hún var geðveik orðin og að mestu ósjálfbjarga, svo fertugur sonur hennar að nafni Jóhann fór með hina raunverulegu stjórn. Og hann vildi ekki hætta á að verða fangi Napóleons eða lúta valdi hans svo rétt í þann mund að franskar hersveitir komu marserandi inn í Lissabon höfuðborg Portúgals, þá lagði þar svolítill floti úr höfn og stefndi til Brasilíu og voru á skipum þessum allt að 15.000 manns – öll hirðin og nánasta aðstoðarfólk og tók siglingin langan tíma og var slíkur troðningur um borð í skipunum að allir voru orðnir grálúsugir þegar loksins kom til Brasilíu. Og segir sig sjálft að Rio de Janeiro fór alveg á hliðina þegar við 70.000 íbúa þar bættist allt í einu þessi stórhópur frá Portúgal. En nú lýsti Jóhann því yfir að um fyrirsjáanlega framtíð skyldi Rio en ekki Lissabon vera höfuðborg portúgalska veldsins og þótt Napóleon væri endanlega hrakinn frá völdum í Frakklandi árið 1815 og engin hætta stafaði frekar af honum, þá var Jóhann ekkert að flýta sér heim. Meira að segja eftir að móðir hans dó södd lífdaga árið 1816 og Jóhann var að lokum krýndur kóngur Portúgals og Brasilíu – sem var nafnbótin sem hann tók sér – þá var hann ekkert að flýta sér heimleiðis. Margt flækti málin og eitt af því var eiginkona Jóhanns.
Sú hét Karlotta Jóakvína og var dóttir kóngsins af Spáni. Eftir að þau Jóhann settust að í Brasilíu fór hún að makka með spænskum útlögum, bæði í Brasilíu og héruðunum þar suður af sem nú heita Úrúgvæ og Argentína, og vildu margir þeirra taka hana þar til drottningar – en sambandið við Spán var þá stopult eftir umrót Napóleonsáranna. Hjónaband Jóhanns og Karlottu var þá lítið annað en nafnið tómt enda hafði hún þegar í Portúgal verið farin að plotta gegn eiginmanni sínum. Nú makkaði hún með spænskum mektarmönnum um að hún yrði ekki aðeins drottning á spænskumælandi svæðum í Suður-Ameríku, heldur skyldi Jóhann líka settur af í Brasilíu og Portúgal og hún yrði einvaldsdrottning yfir öllu saman. En samsærið féll um sjálft sig, spænskumælandi íbúar í Argentínu höfðu þegar til kom engan áhuga á að fá yfir sig drottningu af hinni fyrirlitnu konungsætt í Madrid, og í Brasilíu héldu menn tryggð við Jóhann kóng. Og hann fyrirgaf Karlottu uppreisnarstandið og hjónabandi þeirra var ekki slitið þótt ekki byggju þau lengur saman.
Dauðadæmt samband
Árið 1820 dró til tíðinda. Þá gerðu frjálslyndir menn í Portúgal uppreisn og kröfðust þess að sett yrði ný stjórnarskrá sem fæli í sér afnám einveldis kóngsins. Þá höfðu sendimenn Jóhanns kóngs stjórnað í Portúgal um árabil í hans nafni og nutu ekki vinsælda. Og jafnframt heimtuðu uppreisnarmenn að Jóhann kóngur sneri til baka frá sínu rólyndis munaðarlífi í Brasilíu til að taka við stjórn í nýju þingbundnu konungdæmi. Jóhann varð við því og sneri heim, en af því varð mikil og flókin saga sem ekki verður sögð hér. Í Brasilíu skildi hann eftir sig soninn Pétur sem var rétt rúmlega tvítugur og skyldi hann vera ríkisstjóri Portúgals í flæminu mikla handan hafsins. En Jóhann var raunsæismaður og hafði gert sér grein fyrir því – sem til dæmis konungsætt Spánar gerði ekki enn – að samband Evrópuríkjanna og nýlendnanna í Ameríku hlaut að rofna fyrr en síðar. Hann sagði við Pétur um leið og hann lagði í heimferðina 1821:
„Samband Portúgals og Brasilíu er dauðadæmt. Vertu því tilbúinn til að taka þér konungstign, það er skárra en að einhver lukkuriddari geri það.“
Og Pétur fór að ráðleggingum föður síns, aðeins ári seinna lýsti hann yfir sjálfstæði Brasilíu og sleit sambandið við föðurlandið. Nema hann tók sér ekki konungstign heldur bætti um betur og kallaði sig keisara.
Athugasemdir