Í lok árs 2014 valdi íslenska þjóðin sér vinsælasta lag allra tíma. Lag Bjartmars Guðlaugssonar, „Þannig týnist tíminn“, varð fyrir valinu. Höfundurinn hefur sagt að boðskapur textans sé sá að fólk ætti „að gefa ömmu sinni blóm á meðan hún er á lífi; þá getur hún notið þeirra, en ekki eftir andlátið“. Í orðum söngvaskáldsins felst viðvörun. Hann er með sínum ljóðræna hætti að benda okkur á að tíminn líður og geti fyrr en varir orðið að stund hinna glötuðu tækifæra.
Í stjórnmálum er stundum talað um glugga tækifæranna. Það er sá tími sem stjórnvöldum gefst til að koma á stefnubreytingum. Sagt er að sá tími sé eins og gluggi sem standi opinn og að hann geti lokast aftur fyrr en varir.
Glugginn lokast af ástæðum sem eru ekki á valdi stjórnvalda. Þegar gluggi tækifæranna lokast hafa tækifæri stjórnvalda til að gera breytingar gengið þeim úr greipum. Þá er með öllu óvíst hvenær slíkt tækifæri gefst aftur. Þannig týnist tíminn í heimi stjórnmálanna og verður að stund hinna glötuðu tækifæra.
Ferðaþjónustan og stund hinna glötuðu tækifæra
Stund hinna glötuðu tækifæra í ferðaþjónustunni getur verið að renna upp. Hvaða tækifæri eru þetta og hvað er í húfi ef þau glatast? Þessi tækifæri eru í fyrsta lagi tækifæri þjóðarinnar til að vernda og varðveita þann arf sem er að finna í náttúrufegurð og undrum landsins svo kynslóðir framtíðarinnar fái notið þeirra til jafns við okkur sem nú lifum. Í öðru lagi eru þetta tækifæri landsmanna til að fjármagna, byggja upp og viðhalda góðum innviðum í landinu. Þessi tækifæri má grípa núna og markmiðum þeirra ná með einni aðgerð, það er með því að leggja komugjald á öll fargjöld til landsins.
Vaxandi straum ferðamanna til landsins frá árinu 2010 má meðal annars rekja til þess að fyrst eftir hrunið 2008 var gengi íslensku krónunnar lágt, eldgos kom Íslandi á heimskortið og öflugu kynningarátaki tókst að gera landið að eftirsóttum áfangastað ferðamanna. Þá hefur olíuverð farið lækkandi og æ fleiri lággjaldaflugfélög hafa séð sér hag í því að bjóða ódýrar ferðir til landsins. Árið 2005 voru 5 flugfélög með ferðir til Íslands. Árið 2010 voru þau orðin 20 og 25 árið 2016. Fjölgun ferðamanna til landsins á nýliðnu ári náði nýjum hæðum og ekkert lát virðist á ef marka má bókanir. Þennan mikla straum ferðamanna til landsins núna má fyrst og fremst rekja til þess að fargjöld til landsins eru óvenju lág og munar þar mestu um lágt olíuverð á heimsmarkaði. Þessi hagstæðu ytri skilyrði eru ekki á valdi íslenskra stjórnvalda.
Það er hins vegar á valdi íslenskra stjórnvalda að grípa tækifærið núna með aðgerð sem er til þess fallin að stilla af þá grimmu samkeppni sem nú ríkir um starfsfólk og gistingu, tempra álagið á náttúru landsins og styrkja þá innviði sem teljast til almannagæða, svo sem vegakerfi, löggæslu og heilbrigðisþjónustu. „Núna“ (og þó fyrr hefði verið) er tíminn og tækifærið sem stjórnvöld hafa til að færa þjóðinni „blóm“. Á morgun getur það verið um seinan. Óvíst er hve lengi þessi gluggi tækifæranna stendur opinn, en tíminn styttist og gæti týnst fyrr en varir. Þegar olíuverð hækkar eða þegar flugfélögin ákveða að beina ferðamönnum á nýja og ódýrari áfangastaði.
Hvers vegna komugjöld?
„Hvers vegna nýjan skatt?“ – spyrja eflaust margir með óbragð í munninum. Skattar eru ofbeldi, ekki satt? Nei, þetta orðalag er orðaleikur þeirra sem vilja þvæla opinbera umræðu; orðaleikur þeirra sem setja einkahagsmuni ofar almannahagsmunum. Skattar eru hins vegar það gjald sem við greiðum fyrir það að búa í siðuðu samfélagi.
En hvað er málið? Allir greiða jú skatta af atvinnutekjum og allir greiða virðisaukaskatt af vörum og þjónustu. Því fleiri ferðamenn; því meiri atvinna; því meiri skatttekjur, svo greiða ferðamenn virðisaukaskatt af vörum og þjónustu. Allt rennur þetta á endanum í ríkissjóð. Allir eru að græða! Gott mál, eða hvað!? … Nei, ekki endilega. Þeir sem tala fyrir hugmynd brauðmolahagfræðinnar líta sjálfsagt svo á. Aftur á móti eru vegir brauðmolahagfræðinnar bæði langir, umdeildir og vafasamir; skattheimtumenn bæði margir og smáir og heimtur oft misjafnar. Komugjald er stjórntæki sem er bæði gagnsærra og einfaldara í framkvæmd. Þar eru færri gjaldtökustaðir, einfaldara eftirlit og ekki þarf að koma upp nýju stofnanakerfi eins og „náttúrupassinn“ svokallaði hefði þurft. Tekjurnar sem koma í ríkissjóð eru sýnilegri og þar með má gera ráðstöfun þeirra gagnsærri. Komugjald er áhrifaríkasta leiðin til að stýra innstreymi ferðamanna.
Hvað er í húfi ef þetta tækifæri glatast?
Tæplega tvær milljónir erlendra ferðamanna fóru um náttúru landsins á síðasta ári eða nýttu sameiginleg þjónustukerfi sem byggð eru upp miðað við 330 þúsund manna þjóð. Ef tækifærið til að setja á komugjöld glatast, er það dæmi um það hvernig almenningur bíður tjón af því að einkahagsmunir eru settir ofar almannahagsmunum. Hér gildir það sama og með aðganginn að sjávarútvegsauðlindinni og lausagöngu búfjár; harmleikur almenninganna blasir við. Til að standast vaxandi ágengni á náttúru landsins og álag á innviði þess, þá þarf að afla viðbótartekna sem standa í eðlilegu hlutfalli við fjölda þeirra sem fara um landið og nýta almannagæði þess. Að öðrum kosti mun fjármögnun þessara verkefna halda áfram að keppa við það takmarkaða fjármagn sem áætlað er á fjárlögum ár hvert til uppbyggingar og reksturs á sameiginlegum þjónustukerfum fyrir þessa 330 þúsund manna þjóð. Þetta þýðir með öðrum orðum að opinberu fjármagni er varið til að gera áframhaldandi gróða einkafyrirtækja mögulegan, án þess að þeir sem græða mest taki þátt í óbeinum kostnaði. Þetta er ein birtingarmynd þess sem kallað er að samfélagsvæða kostnaðinn á meðan gróðinn er einkavæddur. Þegar stjórnvöld hafa misst af tækifærinu til að stemma stigu við átroðning á náttúru landsins og álagi á mikilvæga innviði þess þá er það dæmi um það hvernig tíminn týnist og almenningur bíður tjón af.
Í Fréttablaðinu 30. desember síðastliðinn fór rödd úr Seðlabanka Íslands nokkrum orðum um augljósa hættu á alvarlegri ofhitnun þjóðarbúsins. Hún sagði meðal annars að viðskiptakjör gætu versnað á ný og bakslag komið í ferðaþjónustu. Draga mætti úr „of mikilli eftirspurn með aðhaldsamri hagstjórn og þar með úr líkum á snarpri aðlögun síðar meir.“ Þá sagði röddin ennfremur: „Þegar öllu er á botninn hvolft felur hækkun gengisins að hluta til a.m.k. í sér aðlögun þjóðarbúsins að vexti ferðaþjónustunnar eftir að fullri atvinnu er náð. Því má líta á hana sem leið markaðarins til að beina þróuninni inn á sjálfbæra braut. Til að draga úr þeirri áhættu sem vissulega felst í þessari þróun er því áhrifaríkast að höggva að rótum vandans sem um þessar mundir felst í of mikilli samkeppni um vinnuafl, húsnæði og ýmsar aðrar bjargir þessa lands.“
Í stuttu máli þýðir þetta að ef markaðslögmálinu einu er látið það eftir að sjá um aðlögun að hækkandi gengi krónunnar þá verður þjóðarbúið fyrir tjóni. Markaðlögmálið er lögmál frumskógarins. Markaðurinn fer um eins og kjarreldar sem eira engu og skilja eftir sig sviðna jörð. Aðeins stærstu trén í skóginum geta lifað eldana af. Slík verða ruðningsáhrif stjórnlausrar ferðaþjónustu á aðrar útflutningsgreinar.
Hvað tefur? Um hvað snýst málið?
Málið snýst um pólitíska hugmyndafræði og trúarbrögð. Talsmenn brauðmolahagfræðinnar vilja að jafnvæginu milli eftirspurnar og framboðs innan ferðaþjónustunnar verði náð með lögmálum markaðarins. Þá er peningamálastefnunni einni látið það eftir að bregðast við hækkandi gengi krónunnar. Ef peningamálastefnan á hins vegar að virka, þurfa aðgerðir í ríkisfjármálum með inngripum í markaðinn með skattlagningu að koma til.
Því er haldið fram að fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja í landinu sé betri núna en fyrir hrunið 2008. Aftur á móti er ljóst, illu heilli, að rétt eins og fyrir hrunið 2008 þá takast hér á sömu hugmyndirnar, sem snúast um það hvort markaðurinn eða ríkið eigi að ráða ferðinni. Pólitík ríkisfjármála einkennist af aðgerðar- og afskiptaleysisstefnu nú eins og þá – og þannig týnist tíminn. Gleðilegt ár.
Athugasemdir