Þingmenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar fylktu sér á bak við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn á fyrstu dögum 146. löggjafarþings í desember og hjálpuðu starfandi stjórnarflokkum að koma umdeildum málum í gegnum þingið með hraði án þess að ráðrúm gæfist til ítarlegrar umræðu um efni þeirra, áhrif og afleiðingar.
Gríðarlegt kapp var lagt á að ljúka þingstörfum fyrir jól svo þingmenn kæmust í langt frí og þyrftu ekki að mæta til vinnu milli jóla og nýárs. Alþingi kemur ekki aftur saman fyrr en 24. janúar og gera forystumenn í Bjartri framtíð, Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum sér vonir um að búið verði að mynda ríkisstjórn fyrir þann tíma.
14 þingfundir voru haldnir í aðdraganda jóla og átta lagafrumvörp samþykkt, en þar bar hæst fjárlagafrumvarp ársins 2017 og lög um ýmsar forsendur þess auk frumvarpa Bjarna Benediktssonar, starfandi fjármálaráðherra, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og málefni kjararáðs.
Fundarhöld um fjárlögin takmörkuð
Allar þrjár umræðurnar um fjárlagafrumvarp ársins 2017 tóku aðeins um 12 klukkustundir en til samanburðar má nefna að rætt var um fjárlög síðasta árs í um það bil 100 klukkutíma. Venjulega er fjárlagafrumvarpi útbýtt annan þriðjudag í september en nú var það ekki lagt fram fyrr en 6. desember. Þrátt fyrir þetta var ekki talin þörf á að þingið starfaði milli jóla og nýárs. Í ljósi aðstæðna ákvað fjárlaganefnd að takmarka mjög fundarhöld með fulltrúum einstakra stofnana og að eiga ekki fundi með fulltrúum einstakra sveitarfélaga eins og venjan er. Þannig komu aðeins fulltrúar ráðuneyta og fulltrúar Landspítalans og Vegagerðarinnar á fund nefndarinnar.
„Nefndin fékk mjög stuttan tíma til þess að fara yfir umsagnir og til þess að ná einhverri heildarsýn yfir frumvarpið. Þar hjálpuðu þó ný lög um opinber fjármál þar sem efnisleg umræða hafði þegar farið fram um fjármálaáætlun ársins 2017. Nýtt verklag stangaðist hins vegar dálítið á við eldra verklag og í sameiningu urðu framangreind atriði, þ.e. hversu seint frumvarpið var lagt fram, hversu stuttan tíma nefndin fékk til þess að fjalla um frumvarpið og að fjárlagafrumvarp var í fyrsta sinn afgreitt eftir nýjum lögum um opinber fjármál, til þess að meðferð nefndarinnar á frumvarpinu hefði getað verið betri,“ sagði í nefndaráliti Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um fjárlögin.
Alþingi stóð ekki við fyrri skuldbindingar
Fjárlagafrumvarpið sem Bjarni Benediktsson lagði upphaflega fram í byrjun desember vakti strax hörð viðbrögð. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, benti á að óbreytt fæli það í sér aðhaldskröfu á Landspítalann upp á 5,3 milljarða króna.
„Verði frumvarpið samþykkt óbreytt verða afleiðingarnar mjög alvarlegar fyrir stóran hóp sjúklinga og aðstandendur þeirra. Ekki verður komist hjá uppsögnum, lokunum deilda og annarri skerðingu á þjónustu sjúkrahússins,“ sagði hann í pistli sem birtist á vef spítalans í desember. Fulltrúar fleiri stofnana og hagsmunasamtaka gagnrýndu frumvarpið harðlega og bent var á að þar væri til dæmis ekki tekið tillit til fjárhagslegra skuldbindinga vegna samgönguáætlunar sem Alþingi samþykkti skömmu fyrir kosningar.
Vinna fjárlaganefndar í desember miðaði að mestu að því að tryggja auknar fjárveitingar til heilbrigðis-, mennta- og samgöngumála. Samkvæmt heimildum Stundarinnar var sú hótun undirliggjandi að ef ekki næðist sátt um smávægilegar breytingar á frumvarpinu myndu þingmenn starfsstjórnarinnar freista þess að keyra frumvarpið í gegn nær óbreytt. Þá myndu hinir fimm flokkarnir neyðast til að efna til málþófs eða að ná víðtækri samstöðu um að kjósa gegn frumvarpinu. Hræðslan við að þingstörfin og fjárlagavinnan yrðu sett í uppnám með þessum hætti þjappaði þingmönnum saman, sumum nauðugum viljugum. Afraksturinn var 1,5% breyting á útgjaldahlið fjárlagafrumvarpsins, meðal annars aukning fjármuna til Landspítalans sem rétt nægir til að tryggja nauðsynlega grunnþjónustu á spítalanum á yfirstandandi fjárlagaári. Hins vegar tókst ekki að fullfjármagna þá samgönguáætlun sem þó þingmenn úr öllum flokkum greiddu atkvæði með á haustþingi. Þannig stóð Alþingi ekki við þær pólitísku skuldbindingar sem gerðar voru rétt fyrir kosningar.
Í Hagsjá, fréttabréfi greiningardeildar Landsbankans sem sent var í morgun, er bent á að „þrátt fyrir mikla umræðu og augljósan vilja margra stjórnmálamanna til breytinga á áherslum verður að segja að upphaflegt frumvarp, og þar með fjármálaáætlun og áherslur fyrri ríkisstjórnar, hafi haldið sér að verulegu leyti“. Breytingarnar á fjárlögum í meðförum Alþingis fólust í auknum útgjöldum upp á samtals 11,3 ma. kr og aukinni tekjuöflun upp á tæpt eitt prósent.
Fram hefur komið í fréttum að næsta ár verði Háskóla Íslands erfitt vegna fjárskorts þrátt fyrir þá hálfs milljarðs aukningu sem fjárlaganefnd náði samstöðu um. Samkvæmt stefnu vísinda- og tækniráðs – í því sitja meðal annars forsætisráðherra, fjármálaráðherra og menntamálaráðherra hverju sinni – stóð til að Ísland næði meðaltali OECD-ríkja hvað varðar framlög til háskólastigsins árið 2016. Nú, í upphafi ársins 2017 vantar enn um átta milljarða til að það geti orðið að veruleika.
Eins og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur bent á gera fjárlögin ekki ráð fyrir því fjármagni sem þarf til að ljúka átaki um byggingu 2.300 íbúða í almenna íbúðakerfinu en stjórnvöld skuldbundu sig til þess þegar samþykktar voru ráðstafanir í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí 2015.
Tæknileg mistök í fjárlögum
Milli jóla og nýárs greindi svo RÚV frá því að fjárveiting til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða hefði verið lækkuð í fjárlögum vegna „tæknilegra mistaka“ sem urðu þess að „ekki var gert neitt stöðumat á frumvarpinu milli annarrar og þriðju umræðu“.
Fjárlagafrumvarpið var tekið til annarrar umræðu í þingsal kl. 12.40 þann 22. desember og lauk þeirri umræðu kl. 20.26. Þriðja umræða hófst sama kvöld klukkan 22.53 og lauk kl. 22.57. Þá voru fjárlögin samþykkt með 27 atkvæðum og þingmenn komust í jólafrí. Hugsanlega höfðu tæknilegu mistökin við afgreiðslu fjárlaga eitthvað með það að gera hve hratt þau voru afgreidd.
VG og Píratar vildu aukna tekjuöflun
Í fjárlagavinnunni á Alþingi árin 2015 og 2016 sameinuðust allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn um breytingartillögur sem miðuðu að auknum framlögum til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála, fjármögnuðum með tekjuöflunarleiðum á borð við hækkun veiðigjalda og endurupptöku orkuskatts á stóriðju. Átakalínurnar um bandorminn svokallaða, þ.e. lög um ýmsar forsendur fjárlaga ársins 2017, voru með öðrum hætti nú.
Þegar bandormurinn var afgreiddur út úr efnahags- og viðskiptanefnd samþykktu fulltrúar Viðreisnar, Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins, Bjartrar framtíðar og Pírata nefndarálit og breytingartillögu um lítillegar breytingar á tilteknum neyslusköttum, svo sem hækkun tóbaksgjalds og niðurfellingu virðisaukaskatts af umhverfisvænum hópbifreiðum. Þegar Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Smári McCarthy úr Pírötum, lögðu fram viðameiri breytingartillögur brugðust fulltrúar hinna flokkanna illa við, einkum formenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, og kvörtuðu undan slæmum vinnubrögðum.
Hver einasti liður í breytingartillögum Katrínar og Smára var kolfelldur af þingmönnum Bjartrar framtíðar, Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar. Þannig sameinaðist meirihluti þingheims þann 22. desember um að greiða atkvæði gegn málum á borð við hækkun vaxta- og barnabóta, lítillega lækkun fjárframlaga til Þjóðkirkjunnar og upptöku auðlegðarskatts og skattaálags á fjármagnstekjur og launatekjur yfir 2 milljónum króna á mánuði.
Athugasemdir