Þingmenn í fjárlaganefnd fóru ítrekað fram á að styrkir hins opinbera til stjórnmálaflokka yrðu hækkaðir. Þrír nefndarmenn lögðust eindregið gegn hugmyndinni og rataði því hækkunin ekki inn í sameiginlegar breytingartillögur nefndarinnar við fjárlagafrumvarp ársins 2017.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar var tillagan sú að fjárframlög til stjórnmálaflokka yrðu hækkuð um 114 milljónir króna eða úr 286 milljónum upp í 387 milljónir króna. Þetta staðfestir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í stöðuuppfærslu á Facebook. Þar fjallar hann um vinnubrögðin á desemberþingi og vinnu fjárlaganefndar.
„Flumbrugangurinn gekk svo langt meira að segja að þegar samkomulagið var komið langa leið þá var bætt við hugmynd um að auka framlög til stjórnmálaflokka um 114 milljónir,“ skrifar Björn og bætir við: „Sú tillaga fór svo langt að það var myndaður hópur innan fjárlaganefndar sem reiknaði út hver hækkunin ætti að vera. Það þrátt fyrir að ég sagði þvert nei, Oddný sagði nei og Unnur Brá líka.“ Þarna vísar hann til Oddnýjar Harðardóttur, þingkonu Samfylkingarinnar og Unnar Brár Konráðsdóttur, þingkonu Sjálfstæðisflokksins. Aðrir þingmenn fjárlaganefndar eru þau Haraldur Benediktsson, Theodóra S. Þorsteinsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson.
Fjárlaganefnd undir þrýstingi
Eins og Stundin fjallaði um í gær voru aðeins smávægilegar breytingar gerðar á fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar á desemberþingi þrátt fyrir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hafi tapað meirihluta sínum á þingi í síðustu kosningum. Vinna fjárlaganefndar í desember miðaði að mestu að því að tryggja auknar fjárveitingar til heilbrigðis-, mennta- og samgöngumála. Samkvæmt heimildum Stundarinnar var sú hótun undirliggjandi að ef ekki næðist sátt um smávægilegar breytingar á frumvarpinu myndu þingmenn starfsstjórnarinnar freista þess að keyra frumvarpið í gegn nær óbreytt. Þá myndu hinir fimm flokkarnir neyðast til að efna til málþófs eða að ná víðtækri samstöðu um að kjósa gegn frumvarpinu. Hræðslan við að þingstörfin og fjárlagavinnan yrðu sett í uppnám með þessum hætti þjappaði þingmönnum saman, sumum nauðugum viljugum.
Athugasemdir