Ég hef nokkrum sinnum í starfi mínu sem blaðamaður reynt að ná tali af sveitarstjóranum í Skagafirði, Ástu Pálmadóttur. Af einhverjum ástæðum gekk það aldrei. Ég hringdi og skildi eftir skilaboð á skrifstofu sveitarfélagsins en aldrei heyrði ég frá henni.
Mér fannst þetta merkilegt: Að sveitarstjóri í nokkur þúsund íbúa samfélagi á Norðurlandi geti ekki haft samband við blaðamann sem hringir í hana. Frekar auðvelt er að ná tali af mörgu uppteknu og valdamiklu fólki á Íslandi eins og forstjórum stórfyrirtækja, stjórnmálamönnum og jafnvel ráðherrum. En ekki sveitarstjóranum í Skagafirði. Af hverju er þetta?
Var ég kannski að fara að spyrja um eitthvað sem ekki mátti tala um?
„Skagafjörður er Napólí norðursins“
Aðgengi að Skagfirðingum
Þeir blaðamenn sem skrifa fréttir um umdeild eða vafasöm mál sem tengjast Skagafirðinum, og þá yfirleitt sérstaklega Kaupfélagi Skagfirðinga og tengdum fyrirtækjum, munu átta sig mjög fljótlega á því að það er ekkert sérstaklega auðvelt að fá upplýsingar frá fólki í þessu byggðarlagi. Þegar ég hef hringt í einhverja einstaklinga í Skagafirðinum til að reyna að fá upplýsingar um tiltekin mál, til dæmis samkeppnisstöðu í sölu á matvöru, hef ég fengið það á tilfinninguna að íbúarnir séu hræddir við að tala um viðkomandi mál. En við hvað eru þeir hræddir?
Forsvarsmenn Kaupfélags Skagfirðinga eru heldur ekki yfirleitt skrafhreifnir þegar blaðamenn hringja til að spyrja út í viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækisins. Aldrei hef ég náð tali af Þórólfi Gíslasyni kaupfélagsstjóra. Einu sinni fékk fjölmiðillinn sem ég vann hjá tölvupóst frá aðstoðarkaupfélagsstjóranum, Sigurjóni Rúnari Rafnssyni, sem ég notaði í frétt. Í eitt skipti talaði ég svo í síma við Jón Eðvald Friðriksson, forstjóra FISK Seafood útgerðarfélags kaupfélagsins, um tiltekið mál þar sem þessir þrír æðstu stjórnendur kaupfélagsins höfðu sjálfir keypt og selt hlutabréf í sömu fyrirtækjum og kaupfélagið og hagnast um tugi milljóna króna.
Ekkert upplýsingagildi
Það samtal var svona:
Blaðamaður: Árið 2008 eignast þú félag sem heitir Síðasti dropinn. Félagið hafði áður verið í eigu þriggja félaga sem öll hétu Háahlíð…
Jón Eðvald: Ég svara engu um þetta.
Blaðamaður: Getur þú ekki sagt mér hvaðan þeir peningar sem voru inni í félaginu komu?
Jón Eðvald: Ég er með mann hérna hjá mér.
Blaðamaður: Viltu ekki ræða þetta?
Jón Eðvald: Nei.
Blaðamaður: Af hverju ekki?
Jón Eðvald: Ég vil það bara ekki
Blaðamaður: Viltu ekki segja mér af hverju?
Jón Eðvald: Nei. Þakka þér fyrir.
Blaðamaður: Takk
Jón Eðvald, Þórólfur og Sigurjón Rúnar höfðu keypt hlutabréf í útgerðarfélögum sem Kaupfélag Skagfirðinga eignaðist svo á endanum. Þetta gerðu þeir á árunum 2005 og 2006 í gegnum félagið Fiskileiðir ehf. sem keypti og seldi hlutabréf í FISK Seafood, útgerðarfélagi kaupfélagsins, á heppilegum tíma. Allir högnuðust þeir um tugi milljóna króna á viðskiptunum. Þessi viðskipti æðstu stjórnenda kaupfélagsins með hlutabréf útgerðarfyrirtækis kaupfélagsins vöktu einhverja athygli í Skagafirði þegar frá þeim var greint árið 2011. Um fréttina sagði Sigurjón Þórðarson, þáverandi sveitarstjórnarmaður í sveitarfélaginu, til dæmis:
„Í umfjöllun DV hefur ýmislegt komið fram s.s. að æðstu stjórnendur KS hafi stofnað félagið Fiskileiðir um það að kaupa upp hlutabréf útgerðarfélagsins FISK og selt síðan KS sem þeir stýrðu með mörg hundruð milljóna króna hagnaði! Þessi mál hljóta að verða skýrð út af stjórnendum KS.”
Þar með eru viðbrögðin úr Skagafirðinum eiginlega upptalin. Kannski töluðu íbúar sveitarfélagsins um þessi viðskipti á bak við luktar eldhúsgardínur í hálfum hljóðum, pískruðu saman í röðinni við kassann í kaupfélaginu eða ypptu bara öxlum yfir pissuskálunum á bensínstöðinni - hver veit. Kannski voru þeir gáttaðir en sögðu ekkert. Fréttirnar höfðu engar afleiðingar.
„Eigendur Kaupfélags Skagfirðinga eru um 1.500 félagsmenn sem allir hafa jafnt atkvæðavægi á fundum félagsins og félagið því í raun í eigu íbúa héraðsins.“
Innherjaviðskipti í bankageiranum
Ef æðstu stjórnendur fjármálafyrirtækis myndu stunda svona viðskipti með hlutabréf í bankanum sem þeir stýra til að græða á því persónulega þá væru slík viðskipti án vafa saknæm. Kannski myndi stjórn og hluthafar fjármálafyrirtækisins reyna að lágmarka orðsporstjónið með því að láta stjórnendurna fara í kyrrþey, og án aðkomu eftirlitsaðila í kjölfar kæru, en það er alveg ljóst að eitthvað myndi gerast.
Í Kaupfélagi Skagfirðinga gerðist hins vegar ekki neitt þrátt fyrir að fyrirtækið sé sameignarfélag í eigu 1500 íbúa í sveitarfélaginu. Um þetta segir á heimasíðu FISK Seafood: „Eigendur Kaupfélags Skagfirðinga eru um 1.500 félagsmenn sem allir hafa jafnt atkvæðavægi á fundum félagsins og félagið því í raun í eigu íbúa héraðsins. Allir íbúar héraðsins, sem þess óska og orðnir eru 14 ára gamlir geta gerst félagar í Kaupfélagi Skagfirðinga með 100 kr. greiðslu og öðlast með því jafnan rétt á við þá sem fyrir eru í félaginu og þar með orðið þátttakendur í fjölbreyttri atvinnustarfsemi KS og meðal annars í íslenskum sjávarútvegi.“
Þremenningarnir eiga ekki Kaupfélag Skagfirðinga, þó héraðsfréttablað kaupfélagsins í Skagafirði hafi einu sinni séð tilefni til að skrifa frétt um Þórólfur ætti ekki kaupfélagið, en þeir komust upp með þetta. Þeir stýra kaupfélaginu og tengdum félögum áfram þrátt fyrir þessi viðskipti sín þar sem nota þá aðstöðu sem þeir eru í innan samvinnufélagsins til að hagnast á því persónulega.
Hvað er að þessum 1500 eigendum Kaupfélags Skagfirðinga? Forsvarsmenn kaupfélagsins þurftu ekki einu sinni að útskýra þessi viðskipti sín fyrir einum eða einum, hvorki innan kaupfélagsins né opinberlega. Og ekki vildu þeir ræða viðskiptin við blaðamann. Af hverju krefjast þeir sem eiga kaupfélagið ekki útskýringa á því sem stjórnendur félagsins gera í starfi sínu sem stjórnendur þess?
Það er enginn mafíósi í Skagfirði
Ég fjalla um þetta hér í ljósi ummæla Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, þess efnis að Skagafjörður sé „Sikiley Íslands“.
Umræðan um þau ummæli síðustu vikurnar hefur verið æði sérstök og byggir á þeim misskilningi og rangtúlkunum á orðum Birgittu að hún hafi verið að segja að allir íbúar Skagafjarðar séu mafíósar. Birgitta sagði aldrei neitt slíkt. Byggðaráð Skagafjarðar krafðist afsökunarbeiðni frá Birgittu vegna málsins en sú krafa byggir í raun á rangtúlkun á því sem hún sagði. Birgitta varð samt við þeirri beiðni.
Ein steiktasta greinin um málið rann úr penna Bjarna Jónssonar, sveitastjórnarmanns Vinstri grænna, í héraðsfréttablaði kaupfélagsins. Hann hóf greinina á orðunum: „Í Skagafirði býr gott fólk“ - Birgittu sagði aldrei neitt annað í sínum skrifum um málið. Svo sagði hann: „Það er grátbroslegt að verða vitni að þeirri hatursorðræðu sem beint er gegn íbúum Skagafjarðar, nú síðast þegar leiðtogi Pírata, Birgitta Jónsdóttir, útmálaði íbúa heils byggðarlags sem glæpahyski þar sem spilling og rotin viðhorf ráði ferð.“
Misskilningurinn í málinu byggir meðal annars á því að allir íbúar Sikileyjar séu mafíósar eða tilheyri mafíunni. Á Sikiley búa rúmlega fimm milljónir manna, nærri tíu prósent af öllum íbúum Ítalíu. Mafían á Sikiley er heldur ekki eina „mafían“, skipulögðu glæpasamtökin, á Ítalíu. Á meginlandi Ítalíu er Camorruna að finna í Napólí, og nærsveitum, og í héraðinu Kalabríu er Ndranghetan. Þessi glæpasamtök eru bæði orðin sterkari og valdameiri en mafían á Sikiley. Birgitta hefði allt eins getað sagt: „Skagafjörður er Napólí norðursins“ eða „Skagafjörður er Kalabría Íslands“.
Ef Birgitta hefði gert þetta hefði hún þá líka verið að segja að allir íbúar Skagafjarðar væru glæpamenn rétt eins og allir íbúar Napólí og nærsveita eða Kalabríu? Auðvitað ekki: Þó mafíu eða önnur glæpasamtök sé að finna á tilteknum stað þá er það ekki svo að allir íbúarnir tilheyri henni. Birgitta notaði hins vegar ekki orðin „Napólí“ eða „Kalabría“ vegna þess að Sikiley er þekktasta heimabyggð skipulagðra glæpasamtaka Ítalíu og þar af leiðandi er nærtækast að grípa til eyjunnar í þessu samhengi.
Hvað var Birgitta að meina?
En hvað var Birgitta þá að meina með þessum orðum sínum? Auðvitað hefði hún á ekki átt að ýja að því að valdamestu menn Skagafjarðar væri ígildi mafíósa, þannig skildi ég hana. Valdamestu menn Skagafjarðar eru ekki mafíósar, þeir stunda ekki glæpastarfsemi eins og mafíósar gera - smygl, rán, vændisstarfsemi og morð. Þetta er svo augljóst að það þarf varla að tala um þetta. Það eru engir mafíósar í Skagafirði - nema ef vera skyldi að einhver ítalskur mafíósinn hafist þar við í leyni, til dæmis á Hofsósi eða á Hólum, landflótta undan blóðhefnd eða réttvísi skipulagðrar glæpastarfsemi í heimalandi sínu. Birgitta er ekki heimsk eða veruleikafirrt: Hún var ekki að meina þetta.
En hvað er Birgitta þá að meina? Eins og ég skil hana þá er hún að meina að efnahagslífi, stjórnmálalífi, viðskiptalífi og kannski öðrum þáttum mannlegs lífs í Skagafirði sé stýrt að hluta af fámennum hagsmunahópi sem stjórnar Kaupfélagi Skagfirðinga.
Ummælin lét hún falla út af grein í Stundinni sem fjallaði um að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu hefði öðrum þræði verið dregin til baka út af viðskiptalegum hagsmunum Kaupfélags Skagfirðinga. Birgitta er ekki að meina, bókstaflega, að þessir menn séu mafíósar en hún er væntanlega að meina að í Skagafirði þrífist spilling út af hagsmunum þessarar valdaklíku.
Risi í heimabyggð
Kaupfélag Skagfirðinga er lang stærsta fyrirtækið í Skagafirði og stærsti atvinnurekandinn. Félagið er nánast í einokunarstöðu varðandi sölu á matvælum í byggðarlaginu, sem og á stærstum hluta annarrar smásölu. Það á stærsta útgerðarfélagið í byggðarlaginu; stærsta tölvufyrirtækið; það á héraðsfréttablaðið; það styrkir íþróttahreyfinguna í gegnum auglýsingasamninga, framleiðir ógrynni landbúnaðarafurða hvers konar sem seldar eru allt land og svo framvegis og framvegis. Og við lítum út fyrir Skagafjörðinn þá á fyrirtækið stóran hlut í Olís, Morgunblaðinu og Mjólkursamsölunni svo aðeins það helsta sé nefnt.
Ekki á neinum stað á Íslandi stýrir eitt fyrirtæki svo miklu í bæjarfélaginu og ekki á neinum stað á Íslandi eiga svo margir af íbúunum eins mikið undir hjá einu fyrirtækinu. Eins og einn viðmælandi sagði við DV í nærmynd um Þórólf Gíslason í fyrra: „Menn fyrir norðan þora varla að tjá sig. Þarna er rekið ótrúlegt starf. Kaupfélagið ræður öllu, það rekur Skagafjörðinn. Eiginlega er ekkert undanskilið."
„Þó Gunnar Bragi afneiti honum þrisvar þá er það samt að svo þeir eru mjög nánir.“
Klíkan í kaupfélaginu
Birgitta hefði sannarlega ekki átt að koma með mafíutenginguna inn í málið með því að kalla Skagafjörð þessu nafni, Sikiley Íslands. En Skagafirði er sannarlega stjórnað af fámennri klíku sem býr alltaf svo um hnútana út á við að hún stjórni með hagsmuni byggðarlagsins að leiðarljósi; að hún sé að vinna fyrir fólkið í héraðinu. Þessi klíka teygir anga sína svo sannarlega inn í íslensk stjórnmál, líkt og fréttir frá Ítalíu segja okkur að skipulögð glæpasamtök geri raunar líka þar í landi þó ekki sé smekklegt að ýja að því að stjórnendur kaupfélagsins séu mafíósar.
Klíkan í kringum Kaupfélag Skagfirðinga er nátengd Framsóknarflokknum og hefur verið um árabil. Sveitarstjórinn í Skagafirði er framsóknarkona og fyrrverandi starfsmaður kaupfélagsins, og Gunnar Bragi Sveinsson, núverandi utanríkisráðherra, er það líka. Um tengsl Gunnars Braga og Þórólfs sagði einn fyrrverandi þátttakandi í sveitastjórnarmálum í Skagafirði í samtali við DV árið 2013. „Ég er alveg sannfærður um að þeir séu mjög nánir. Einfaldlega vegna þess að Gunnar Bragi hefði aldrei farið inn í pólitík nema með blessun Þórólfs. Þegar hann var í sveitastjórninni í Skagafirði var hann mjög náinn Þórólfi sem las honum pistil dagsins. Þó Gunnar Bragi afneiti honum þrisvar þá er það samt að svo þeir eru mjög nánir.“
Hagsmunir kaupfélagsins
Þetta er einhvern veginn svona: Það sem Kaupfélag Skagfirðinga vill í Skagafirði það fær kaupfélagið. Þetta er ekkert flókið. Þeir framsóknarmenn sem ná árangi í innsveitarpóltík Skagafjarðar gera það ekki í óþökk kaupfélagsins sem sjálft hefur verið beintengt við flokkinn. Og þar sem Skagafjörðurinn er eitt af höfuðvígjum Framsóknarflokksins þá skarast hagsmunir kaupfélagsins við hagsmuni flokksins í sveitinni.
Hagsmunir Kaupfélags Skagfirðinga eru þeir að Ísland fari ekki í Evrópusambandið, þar sem stærstu tekjuliðir fyrirtækisins byggja á kvótakerfi í sjávarútvegi og landbúnaði sem er stýrt með pólitískum hætti, eins og einn viðmælandi í umræddri nærmynd sagði: „Þórólfur og kaupfélagið þrífast á pólítískri fyrirgreiðslu, pólitískum afskiptum, kerfi sem ekki byggir á frjálsri samkepppni eða röskun á högum. Hann vill útdeilingu á hinum ýmsu gæðum: Óbreytt sjávarútvegskerfi, óbreytt landbúnaðarkerfi, enga samkeppni í mjólk eða ostum, hann rekur eitt stærsta sláturhús á Íslandi og er með þriðjung af sláturhúsamarkaðnum. Þórólfur vill almennt séð hafa óbreytt kerfi og í skjóli fákeppninnar fá að víla og díla. Og ef þú sérð þetta endurspeglast með miklum hætti í stefnu Framsóknarflokksins þá veit ég ekki hvað. Þórólfur hefur alltaf litið á Evrópusambandið sem stórhættulegt fyrirbrigði.“
„Eðlilega er fólk hrætt um stöðu sína í samfélagi þar sem svo fáir ráða svo miklu.“
Aðalatriði málsins
Það eru þessi heljartök klikunnar í Kaupfélagi Skagfirðinga á þessu litla sveitarfélagi fyrir norðan sem eru áhugaverð, og eins þau ítök sem hún er með í Framsóknarflokknum, sem eru áhugaverð. Ekki einhver fáránleg rangtúlkun á hvað það var sem Birgitta Jónsdóttir átti við með orðum sínum um Skagafjörð sem Sikiley. Þetta er aðalatriði málsins.
Inntakið í því sem Birgitta var að meina - ítök klíkunnar í kaupfélaginu í heimabyggð og í Framsóknarflokknum - hefur hins vegar lítið verið rætt þar sem rangtúlkun á orðum hennar hefur verið helsta umræðuefnið. Þegar sagt er að mafían ráði miklu á Sikiley er ekki verið að segja að allar fimm milljónirnar sem búa á Sikiley séu mafíósar og að sama skapi er ekki verið að segja að allir þessir tvöþúsund Skagfirðingar hafi eitthvað slæmt á samviskunni þó fámenn klíka í kaupfélaginu sé nánast einráð og hafi þar að auki áhrif á utanríkisstefnu Íslendinga.
Hræðsla og þöggun
Samfélagið í Skagafirði er hins vegar hrætt við þessa valdaklíku og því er erfitt að fá íbúa þar til að tala um viðkvæm eða umdeild mál sem tengjast kaupfélaginu. Eðlilega er fólk hrætt um stöðu sína í samfélagi þar sem svo fáir ráða svo miklu.
Þarna eru svo kannski aftur líkindi með samfélagi þar sem mafían eða glæpasamtök eru ráðandi, þó hræðsan sé vitanlega af allt öðrum toga. Ég man til dæmis eftir því þegar ég var í Napólí í tvær vikur árið 2004 að sussað var á mig þegar ég talaði stundarhátt völd um „mafíunnar“ á götum úti, líkt og orðið væri bannorð. Fyrsta reglu mafíunnar er kannski að maður talar ekki um mafíuna og fyrsta reglan í Skagafirði um klíkuna í kaupfélaginu er að íbúarnir tala kannski sem minnst um hana af því að fyrirtækið brauðfæðir stóran hluta þeirra.
Hræðsla og þöggun eru því miður einkenni samfélagsins í Skagafirði; hræðsla við ægivald kaupfélagsins sem lýsir sér í vanmætti til að tala um og taka á þeim fjölmörgu óeðlilegum málum sem tengjast starfsemi þess og hafa komið upp á liðnum árum. Kannski þurfa þessir 1500 eigendur Kaupfélags Skagfirðinga að átta sig á því að þeir sjálfir geta ákveðið hverjir stýra kaupfélaginu.
Spuninn sem fór í gang um ummæli Birgittu, og rangtúlkanirnar á þeim, gerðu það að verkum að umræðan um greinina sem Birgitta vísaði til átti sér ekki stað heldur snérist umræðan um rangtúlkanir á því sem hún sagði. Þar af leiðandi skilur umræðan um inntak þess sem Birgitta var að tala um ekkert eftir sig. Við vitum núna að Birgitta baðst afsökunar og að enginn mafíósi er í Skagafirði - en við vissum það nú auðvitað fyrir. Skagfirðingar geta hins vegar enn sleppt því að ræða gagnrýnið um klíkuna í kaupfélaginu sínu líkt og ekkert hafi í skorist.
* Hér eru nokkrir hlekkir á fréttir um kaupfélagið:
Mál Giftar og Fjárfestingarfélagsins Fells
Sérstakur saksóknari og Fjárfestingarfélagið Fell
Skipulag Giftarviðskiptanna - Lýður Guðmundsson og Kaupfélag Skagfirðinga
Samningar Íbúðalánsjóðs og Kaupfélags Skagfirðinga
Umfjöllun í skýrslu um Íbúðalánasjóðs um samninginn við Kaupfélag Skagfirðinga
Átökin um Sparisjóðs Hólahrepps
Kaupfélagsmenn þvinguðu sparisjóðsstjóra
Viðskipti stjórnenda kaupfélagsins í gegnum Fiskileiðir
Sveitarstjórinn í Skagfirði tjáir sig um Fiskileiðarviðskiptin
Braskið í Kaupfélagi Skagfirðinga
Fyrirtæki maka aðstoðarkaupfélagsstjórans fékk verslunarhúsnæði í Leifsstöð
Athugasemdir