Það kom ýmsum á óvart þegar Tyrkir skutu á dögunum niður rússneska orrustuþotu yfir Sýrlandi, ekki síst eftir að í ljós kom að Tyrkir voru sannarlega hvorki bljúgir né iðrandi eftir atburðinn – þvert á móti voru þeir borubrattir mjög og Erdogan forseti þeirra virtist þess albúinn að fara í harða störukeppni við Pútin Rússlandsforseta. Hissa urðu menn því við erum ekki vön að líta á Tyrki sem verulegt afl í heiminum, jafnvel ekki í Miðausturlöndum; yfirbragð þeirra í huga okkar hefur verið gamaldags og gjarnan eilítið klaufalegt, eins og þeir væru ekki alveg með í samtímanum – þeir væru eins og fjarskyldir þungbúnir ættingjar aftarlega á fjölskyldumynd, kannski rammir að afli en furðulega hikandi, og kynnu ekki að beita afli sínu. Þessi mynd af Tyrkjum varð fyrst til á seinni hluta 19. aldar þegar hið forna stórveldi Ottómana í Istanbúl var staðnað og farið að fúna. Gjarnan er sagt að Tyrkjum hafi þá verið haldið uppi fyrst og fremst af erlendum lánardrottnum af því evrópsku stórveldin gátu ekki komið sér saman um hvað ætti að verða um líkið eftir að loks væri búið væri að veita Ottómanaveldinu náðarstunguna.
En sannleikurinn er sá að þeir sem raunverulega þekkja til hafa lengi átt von á að Tyrkir hristu af sér hlédrægnina og slenið og færu að berja sér á brjóst á alþjóðavettvangi. Þetta er gríðarlega fjölmennt ríki, menntunarstig er hærra en margir halda og Tyrkland býr yfir miklum möguleikum. Þeir eru til sem telja að um miðja þessa öld verði Tyrkland komið í hóp öflugustu stórvelda. Svo það er bara í samræmi við forna sögu að Tyrkir beri sig mannalega framan í Rússa.
Langt fram á 19. öldina voru Rússar og Tyrkir sífellt að keppa um völd og áhrif á Krím, á Balkanskaga og í Kákasus. En þá fór Tyrkjum að hnigna. Soldánar þeirra í Istanbúl urðu valdalitlir leiksoppar embættiskerfis, stjórnsýslan gerðist makráð og spillt og óhæf og er á leið öldina voru endalokin í sjónmáli.
Síðasti soldáninn
Síðasti soldáninn sem tók sér raunveruleg völd var Abdulhamíd II sem tók við 1876, tæplega hálf fertugur. Í upphafi ferils síns sýndi hann ýmis merki þess að vilja nútímavæða landið og hefja umbætur. Hann setti landinu stjórnarskrá sem þótti furðu framsækin og lýðræðisvæn miðað við afturhaldið sem svo lengi hafði verið við lýði í Istanbúl. En svo runnu tvær grímur á Abdulhamíd, honum fannst vestræn áhrif aukast of hratt og fór að óttast um völd sín. Þá nam hann stórnarskrána úr gildi og stýrði sem einvaldur þaðan í frá. Og fór nú allt í handaskolum, ríki á Balkanskaga gengu sífellt á lendur Tyrkja þar og mikill órói var í Miðausturlöndum. En sjálfstæðisviðleitni Armena og annarra þjóða í Tyrklandi sjálfu var mætt með mikilli hörku og blóðugu ofbeldi.
Árið 1908 var framið valdarán í Istanbúl. Ungir herforingjar, sem einfaldlega hafa verið kallaðir Ung-Tyrkir, settu Abdúlhamíd af og gerðu bróður hans að soldán. Þeir hugðust koma á lýðræði og þingbundinni stjórn soldánsins sem fékk að lafa sem valdalaus silkihúfa. Fljótlega urðu frjálslynd öfl þó undir í hópi Ung-Tyrkja og 1913 tók lítil og herská klíka í raun öll völd í landinu. Árið áður höfðu Tyrkir beðið slæman ósigur í stríði við flest allar Balkanþjóðir og misst öll þau svæði í Evrópu sem þeir áttu eftir nema nokkra spildu vestur af Istanbúl.
Valdaklíkan hóf svo í ágúst 1914 þátttöku í fyrri heimsstyrjöldinni við hlið Þjóðverja og Austurríkismanna. Ástæðan var aðallega rökstuddur ótti klíkunnar við áform Breta, Frakka og Rússa um að styðja enn frekari sundurlimun Tyrkjaveldis. Rússar voru til dæmis ákveðnir í að taka Istanbúl af Tyrkjum strax og færi gæfist, en borgina höfðu þeir lengi litið hýru auga. Framan af stríðinu gekk Tyrkjum vel og þeir hrintu til dæmis heldur misráðinni innrás Breta og Frakka sem gerð var á útmánuðum 1915 þar sem heitir Gallipoli við Hellusund.
Hið sama ár hófu Tyrkir hins vegar hrottalegar ofsóknir á hendur Armenum sem bjuggu í austurhluta ríkisins og höfðu ekki farið dult með að þeir vildu losna undan tyrkneskum yfirráðum. Er sú saga öll hin hræðilegasta, Armenar voru reknir á vergang út í gróðurvana eyðimerkur þar sem þeir hrundu niður úr hungri og þorsta, aðrir voru settir í fangabúðir við ömurlegan aðbúnað og margir hreinlega drepnir. Talið er að að minnsta kosti ein og hálf milljón Armena hafi látið lífið í þessu þjóðarmorði sem Tyrkir hafa alla tíð síðan neitað að horfast í augu við. Enn í dag á fólk á hættu að vera fangelsað í Tyrklandi ef það rifjar upp þennan viðurstyggilega þátt í tyrkneskri sögu. Á hinn bóginn varð þetta þjóðarmorð Tyrkja á Armenum Adolf Hitler mikill innblástur. Þegar fyrir dyrum stóðu fjöldamorð nasista á Gyðingum spurði einhver hvort alþjóðasamfélagið myndi ekki rísa upp þegar athæfi Þjóðverja tæki að spyrjast út, en Hitler minnti þá á að í raun hefði öllum verið verið sama þegar Tyrkir myrtu Armena í hrönnum.
Tyrkland bútað niður
En Armenar voru reyndar ekki einu fórnarlömb grimmdaræðis Tyrkja í fyrri heimsstyrjöldinni, fjöldinn allur af Grikkjum týndi líka lífi, einkum þeir sem bjuggu á Svartahafsströnd Tyrklands, og sömuleiðis ótalmargir Sýrlendingar.
Þegar leið á heimsstyrjöldina fór mjög að halla undan fæti hjá Tyrkjum. Arabar hófu uppreisn gegn þeim í Miðausturlöndum og nutu stuðnings Breta og Frakka. Tyrkneskar hersveitir biðu nú hvern ósigurinn af öðrum gegn Bandamönnum og haustið 1918 rambaði ríkið þar að auki á barmi gjaldþrots. Í lok október sömdu Tyrkir um vopnahlé sem í raun fól í sér algjöra uppgjöf.
Tveimur árum seinna samþykktu svo fulltrúar Tyrkja friðarsamning sem sigurvegararnir í stríðinu höfðu lesið þeim fyrir í smábænum Sèvres í útjaðri Parísar og samkvæmt honum var Tyrkjaveldi algjörlega limlest. Tyrkir misstu ekki einungis öll sín héruð í Miðausturlöndum heldur var Tyrkland sjálft bútað niður og ekki nema um það bil einn fjórði af landinu stóð eftir. Grikkir og Armenar fengu vænar sneiðar af landinu auk þess sem Ítalir, Frakkar og Bretar fengu hver sitt „verndarsvæði“. Ljáð var máls á að stór hluti þeirra kynni að endingu að falla í skaut Kúrdum. Og Istanbúl – þetta djásn Tyrkja – átti að verða undir alþjóðlegri stjórn.
Ef þetta hefði gengið eftir má búast við að Tyrkland hefði í raun verið úr sögunni sem öflugt ríki. Það hefði orðið fátækt og auðlindasnautt miðlungsríki á suðurströnd Svartahafs og erfitt að sjá hvernig það hefði getað náð sér á strik í fyrirsjáanlegri framtíð. Enda var það einmitt ætlun stórveldanna að kveða Tyrki í kútinn í eitt skipti fyrir öll.
Mustafa kemur fram á sjónarsviðið
En þau höfðu gengið of langt. Þótt Tyrkir væru beygðir og blankir eftir heimsstyrjöldina létu þeir ekki bjóða sér þá algjöru auðmýkingu sem fólst í samningnum frá Sèvres. Og þegar neyð þeirra var stærst var hjálpin næst.
Mustafa hét maður og hafði viðurnefnið Kemal, „hinn þroskaði“ eða eitthvað í þá áttina, skilst mér. Hann fæddist í Þessaloníku í Grikklandi 1881. Borgin var þá enn hluti Tyrkjaveldis en þar ríkti sannkölluð fjölmenning og evrópsk áhrif voru sterk. Mustafa var miðstéttarmaður, gekk í herinn og tók þátt í byltingu Ung-Tyrkja. Árið 1911 vakti hann athygli fyrir djarfa framgöngu í orrustu í Líbýu, sem Tyrkir voru þá að tapa í hendur Ítala, og í fyrri heimsstyrjöldinni vann hann sig smátt og smátt ofar í metorðastiga hersins.
Eftir að ljóst varð hve rækilega Bandamenn ætluðu að skera Tyrkland niður við trog blöskraði mörgum og Tyrkir gripu til vopna gegn Bandamönnum. Í því stríði sem Tyrkir kalla sjálfstæðisstríð sitt varð Mustafa Kemal fljótlega innsti koppur í búri og hratt sókn Grikkja langt inn í tyrknesk lönd 1922 og rak þá síðan öfuga út í sjó. Er Grikkir höfðu verið sigraðir kom í ljós að Bandamenn voru ekki tilbúnir til að berjast við Tyrki um niðurstöðuna í Sèvres, og tyrkneski herinn náði brátt öllu landinu. Armenar fengu því ekki þau lönd í Austur-Tyrklandi sem um hafði verið samið, og eins og endranær sameinuðust allir að lokum um að láta eins og Kúrdar væru ekki til.
Í ágúst 1923 var lýst yfir stofnun lýðveldisins Tyrklands. Mustafa Kemal varð forseti, það kom eiginlega enginn annar til greina eftir glæsilega frammistöðu hans í stríðinu. En nú reyndist Mustafa ekki aðeins hafa verið dugmikill herforingi. Hann var líka heilmikill og sérlega djarfur hugsuður, sem þar að auki var óhræddur við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Á rúmum áratug gerbylti Mustafa tyrknesku samfélagi. Öllum fúnum innviðum Ottómanaveldisins var sópað út í hafsauga og sérlega athyglisvert var að alveg var skorið á tengsl trúarbragða og ríkisins. Ottómanaríkið hafði alls ekki verið heittrúarríki en íslam var þó auðvitað áberandi þáttur í því flókna gólfteppi sem stoðir samfélagsins hvíldu á. Mustafa Kemal var hins vegar trúlaus og taldi trúarbrögð ævinlega vera til ama. Hann stóð fyrir nær algerri „sekúlariseríngu“ tyrknesks samfélags.
Íslamskir dómstólar voru lagðir niður og nýtt og nútímalegt lagasafn tekið upp. Og konur fengu í einni svipan jafnrétti að lögum á við karla. Ótal margt fleira tók Mustafa sér fyrir hendur í tilraun sinni til að þrýsta Tyrkjum í einu vetfangi frá miðöldum Ottómananna inn í vestrænan nútíma. Víðtækar umbætur voru til dæmis gerðar á menntakerfi og latneskt letur tekið upp í stað hins arabíska sem notað hafði verið um aldir.
Tók fleiri áratugi en Atatürk vonaði
Mustafa dó fyrir aldur fram 1938, þá kallaður Atatürk. Það nafn hafði hann tekið sér sjálfur þegar hann skipaði svo fyrir að Tyrkir skyldu taka upp ættarnöfn. Nafnið hefur þá hógværlegu merkingu „faðir Tyrkja“. Á sinn hátt var Atatürk sannarlega einn merkasti stjórnmálamaður 20. aldar, þótt ekki væri hann fullkominn. Hann hélt til dæmis uppteknum hætti að kúga Kúrda og þegja armenska þjóðarmorðið í hel. En Atatürk má eiga það sem hann á. Hann reyndi að koma á vestrænu lýðræði með fjölflokkakerfi og þótt það gengi ekki í fyrstu tilraun varð Tyrkland að lokum raunverulegt lýðræðisríki.
Það hefur reyndar gengið á ýmsu og herinn oftar en einu sinni tekið völdin, yfirleitt í þeim yfirlýsta tilgangi að að varðveita arfleið Atatürks gegn ásókn stjórnmálamanna sem vilja hagnýta sér íslam til að sópa til sín völdum. Það tók fleiri áratugi en Atatürk vonaði að koma iðnframleiðslu, lífsháttum og lífskjörum Tyrkja í átt að því sem tíðkast á Vesturvöldum en kaldhæðnislegt má teljast að nú þegar Tyrkir telja sig orðna nógu mikla bóga til að ögra Rússum, þá sé það gert undir forystu einræðissinnaðs forseta sem markvisst sniðgengur hugmyndir Atatürks og daðrar glaðlega við trúarofstækismenn til að styrkja völd sín.
Athugasemdir