Ég viðurkenni fúslega að ég varð alveg fjúkandi vondur þegar ég sá að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var að grínast með ástandið á raflínum í Shatila-flóttamannabúðunum í Beirut. Ég kom þangað fyrir nokkrum árum og raflínurnar eru reyndar mjög áberandi, þær liggja alls staðar milli húsa yfir þröngar göturnar og líkjast sums staðar þéttum vafningsviði milli tröllvaxinna trjánna í regnskógum hitabeltisins. Ástæðan fyrir þessu er að sjálfsögðu sú að algjör eymd og fátækt ríkja í þessum alræmdu flóttamannabúðum og þótt fólk komist í rafmagn, þá hefur enginn efni á því að láta ganga almennilega frá leiðslunum. Þetta er afskaplega myndrænt og á sinn hátt jafnvel tilkomumikið, en auðvitað er þetta fyrst og fremst lífshættulegt enda eru slys – jafnvel banaslys – vegna þess arna algeng í Shatila.
Uppruna Shatila-búðanna má rekja allt aftur til ársins 1949 þegar fjöldi Palestínufólks var á vergangi eftir stofnun Ísraels. Þar hafa nú vaxið þrjár til fjórar kynslóðir Palestínumanna sem þekkja ekkert annað en lífið í þessum ömurlegu búðum. Líbönum má vissulega þakka fyrir að hafa veitt Palestínumönnunum skjól en lífskjör þarna eru ömurleg og ekkert gamanmál. Búðirnar komust í heimsfréttirnar árið 1982. Þá höfðu Ísraelar brotið sér leið til Beirut og annaðhvort hvöttu til eða létu að minnsta kosti viðgangast að morðsveitir kristinna hægrimanna réðust inn í bæði Shatila og Sabra-hverfið þar í grennd og myrtu þúsundir Palestínumanna. Ísraelsmenn hafa aldrei tekið nema algjörlega til málamynda ábyrgð á þessum voðaverkum.
Þegar ég var þarna á ferð ásamt hópi Íslendinga árið 2010 bjuggu líklega um 10.000 manns í Shatila. Síðan hafa bæst við að minnsta kosti jafn margir flóttamenn undan viðbjóði borgarastríðsins í Sýrlandi. Það er erfitt að ímynda sér hörmungarnar sem þarna ríkja nú, eða vanlíðan fólksins, en þeim mun ósmekklegra og barnalegra er að það skuli verða útlenskum þjóðarleiðtoga í stuttri heimsókn tilefni til að grínast á Snapchat. Sumir gripu til varna fyrir Sigmund Davíð þegar hann var gagnrýndur fyrir grín sitt og sögðu sem svo: Hvaða læti eru þetta, má nú ekkert, er ekki allt í lagi að geta séð léttu hliðarnar jafnvel á alvarlegum málum?
Því er til að svara að öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Þótt ekki þykist ég hafa minni eða þröngsýnni húmor en hver annar, þá finnst mér ekki að það sé þjóðarleiðtoga sæmandi að hafa opinberlega í flimtingum hörmungarástand eins og er í rafmagnsmálum í flóttamannabúðunum – og veldur hættulegum slysum, eins og ég sagði áðan. Það er einfaldlega ekki hlutverk forsætisráðherra í stuttri heimsókn að grínast með hættuspil og hrjáð fólk. Og það bætti síst úr skák, þegar Sigmundur Davíð birti mynd af sér með brosandi fólki á fundi í flóttamannabúðunum, og sagði sisona að þetta fólk „missi aldrei húmorinn“. Þessi smekkleysa var ekki mikið skárri en hin fyrri. Auðvitað brosir fólk á fundum með aðvífandi forsætisráðherra og að reyna að koma því inn hjá fólki að þarna sé aldeilis verið að grínast og glensa um hangandi rafmagnssnúrur og fleira, það er lágkúrulegt.
En ef fólk skilur ekki hvað er athugavert við svona grín hjá forsætisráðherra, þá verður bara svo að vera.
Mér finnst þetta hins vegar enn eitt merkið um það dómgreindarleysi sem sínkt og heilagt grípur Sigmund Davíð og mér finnst frómt frá sagt að sé ótvírætt merki þess að hann hafi ekki það skynbragð sem þarf í hans stöðu. Og má hafa um það mörg orð – enda hef ég gert það síðustu misseri, ef mig misminnir ekki!
Og annað merki um sama dómgreindarleysi er kvikmyndagerðin margfræga. Að geta komið spillingarorði á kreik þegar mál snúast um aðstoð við flóttamenn, það er óneitanlega nokkurt afrek.
En að því sögðu, þá væri ekki sanngjarnt ef ég nefndi ekki að með því að taka á móti sýrlensku flóttamönnunum sem komu til Íslands og með því að fara til Líbanon, þá hefur Sigmundur Davíð að nokkru slegið vopnin úr höndum þeirra sem óttuðust – eins og ég gerði – að Framsóknarflokkurinn ætlaði að keyra á útlendingaandúð og flóttamannatortryggni í kosningunum á næsta ári. Það virtist eiginlega liggja í loftinu eftir hörmulega framgöngu flokksins í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík 2014, en með framgöngu sinni nú hlýtur Sigmundur Davíð að vera að lýsa skorinort yfir að svo verði ekki gert.
Og það er gott hjá honum, ég skal fúslega viðurkenna það. Það hefði orðið óbærilegt ef Framsóknarflokkurinn hefði ætlað þá leiðina 2017.
En hér heima þarf reyndar enn að taka til hendi. Hér á enn að fara að vísa úr landi albönsku fólki sem ekkert hefur gert af sér annað en að vilja setjast hér að og eiga veik börn. Leyfum þeirri fjölskyldu að vera.
Athugasemdir