„Í þrjátíu ár dreymdi mig alltaf sama drauminn á hverri einustu nóttu. Ég var á hlaupum um dimmar þröngar götur, fram til og baka án þess að nokkurs staðar bólaði á undankomuleið, og fólkið sem elti mig hafði engin andlit og ég heyrði það bara hrópa: Burt, burt! Og fólkið var alveg að ná mér en þá vaknaði ég löðursveittur og skelfingu lostinn. Á hverri nóttu í þrjátíu ár dreymdi mig þetta.“
Svo mælti maður nokkur í blaðaviðtali árið 1980, hann var tæplega sextugur, mjósleginn, þykkt hárið grásprengt, hann var virðulegur og vitur á svip, rólyndur og yfirvegaður; það var ekki á honum að sjá að hann þyrfti að sleppa lifandi á hlaupum á hverri einustu nóttu.
Það var heldur ekki á honum að sjá að hann hefði einu sinni ætlað að myrða sex milljónir manna og lauma eitri út í brauð svo innyfli þeirra eyðilegðust sem brauðið ætu. Hann var nú á sínum efri árum eitt frægasta skáld þjóðar sinnar, virðulegur eldri herra; hvernig gat hann hafa ætlað að drepa fólk?
En sagan um Abba Kovner er samt sönn. Hún er flókin og erfið eins og allt sem viðkemur helförinni og sambúð gyðinga við þjóðirnar í Mið- og Austur-Evrópu. Því Abba Kovner var gyðingur og þegar viðtalið var tekið var hann búsettur í Ísrael, nánar tiltekið á einu þeirra samyrkjubúa sem áttu að verða tákn fyrir hið fyrirheitna og endurreista land gyðinga eftir heimshornaflakk í tvö þúsund ár og svo helvíti helfararinnar.
Þar hélt hann til, orti mögnuð ljóð um baráttu kúgaðra gegn ofurefli, klappaði börnum á koll og yrkti jörðina – maðurinn sem hafði ætlað að drepa milljónir manna.
Abba Kovner fæddist árið 1918 á Krímskaga. Hann var gyðingur og þegar hann var fárra ára fluttu foreldrar hans með hann til Vilníus í Litháen, hinnar gömlu höfuðborgar Litháens. Borgin var þá nýlega orðin hluti Póllands og 65 prósent íbúanna voru Pólverjar en 28 prósent gyðingar. Gyðingar höfðu búið á svæðinu öldum saman, þeir voru hvarvetna um samfélagið, sumir fátækir alþýðumenn og bændur eins og Fiðlarinn á þakinu en aðrir vel stæðir kaupmenn eins og gengur. Menning gyðinga var með hýrri há, þeir stóðu saman þegar á þurfti að halda og þótt ofsóknir gegn þeim þekktust vissulega voru þær ekki sérlega algengar þar um slóðir.
Vildi ekki hlaupast á brott
En allt var á hverfanda hveli. Með uppgangi Hitlers í Þýskalandi fengu gyðingahatarar hvarvetna sterka rödd. Árið 1939 braust síðari heimsstyrjöldin út og þá hertóku Sovétmenn Vilníus. Árið eftir hertóku þeir Litháen og gáfu þá Litháum sína gömlu höfuðborg aftur. Pólverjar voru reknir burt en Litháar tóku að flytjast til borgarinnar í staðinn. Að þeir fengju höfuðborgina í hendur dugði þó ekki til að sætta Litháa við hernám Sovétmanna. Sumir gyðingar voru þó sagðir vera heldur hliðhollari hernáminu en almennir Litháar, þeir töldu gjarnan illskárra að hafa lent undir stjórn sovéskra kommúnista heldur en þýskra nasista.
Í júní 1939 réðust þýskar hersveitir inn yfir landamæri Sovétríkjanna. Strax og fréttist af innrásinni í Litháen byrjuðu landsmenn að drepa gyðinga. Þjóðverjar voru ekki einu sinni mættir á staðinn þegar litháískar dauðasveitir höfðu myrt þúsundir manna. Menn drápu nágranna sína, karla, konur, börn og gamalmenni á viðbjóðslegan hátt. Heiftin var svo mikil að þegar Þjóðverjar birtust, þá blöskraði þeim stundum ósköpin og reyndu að halda aftur af blóðbaðinu ef eitthvað var.
Gyðingar í Litháen höfðu verið 270.000 árið 1939. Strax í árslok var búið að drepa stærstan hluta þeirra og þar áttu Litháar sjálfir stærri hlut að máli en Þjóðverjar. Þeir gyðingar sem eftir lifðu voru flestir lokaðir inni í gettóinu í Vilníus.
Abba Kovner var 23 ára þegar Þjóðverjar réðust inn í Litháen og gyðingadrápin hófust. Hann hafði verið við listnám og lagt stund á ýmis gyðingleg fræði og hann var Zíonisti – það er að segja barðist fyrir því að gyðingar fengju að eignast heimaland í Palestínu, sem þá var undir stjórn Breta. Eftir innrás Þjóðverja var Kovner um skeið í felum í kaþólsku klaustri og hefði getað komist undan, en hann valdi að snúa aftur í gettóið í Vilníus. Honum fannst hann ekki geta hlaupist á brott.
„Látum ekki leiða okkur til slátrunar“
Í gettóinu varð hann eins og aðrir vitni að viðurstyggilegum hlutum. Hann lýsti því til dæmis einu sinni þegar hermenn voru að færa nokkra íbúa í gettóinu burt og allir vissu að þeir yrðu drepnir. Hermennirnir hrintu móður með ungbarn á gangstéttina en einn þeirra hrifsaði af henni barnið.
Hún skreið til hans, faðmaði leðurstígvélin hans og grátbað hann um að þyrma barninu. Hermaðurinn lyfti því hátt á loft og sló því svo af öllu afli utan í húsvegg.
Í desember 1941 tilkynntu Þjóðverjar að flytja ætti burt alla íbúa gettósins til vinnubúða annars staðar. Margir gyðinganna hneigðust til að fallast á brottflutninginn og streitast ekki á móti. Lífið í þessum vinnubúðum gæti ekki orðið verra en í gettóinu. En Kovner og nokkrir ungir ákafamenn af báðum kynjum hvöttu landa sína að láta ekki sjálfsblekkinguna ná tökum á sér. Kovner hélt ræðu yfir 150 ungum gyðingum í súpueldhúsi í gettóinu og sagði meðal annars:
„Gyðingaæska! Treystið ekki þeim sem ætla að blekkja ykkur ... Hitler ætlar sér að útrýma öllum gyðingum Evrópu og gyðingarnir í Litháen hafa orðið fyrir valinu sem þeir fyrstu. Við munum ekki láta leiða okkur eins og sauði til slátrunar! Já, við erum veik og varnarlaus, en eina svarið sem við getum gefið morðingjunum er uppreisn! Bræður! Betra er að deyja sem frjálsir baráttumenn en lifa við miskunn morðingjans. Rís upp! Rís upp með ykkar hinsta andardrætti!“
„Drottinn guð hefndarinnar!“
Kovner og félagar hans hófu nú uppreisn í gettóinu. Framin voru skemmdarverk og ráðist að þýskum og litháískum varðmönnum ef tækifæri gafst. Verk hópsins ollu Þjóðverjum litlu tjóni en markmiðið var líka fyrst og fremst að sýna nasistum fram á að þessir gyðingar ætluðu ekki að deyja baráttulaust. Um síðir hrökklaðist hópurinn út úr gettóinu. Kovner fór síðastur allra gegnum holræsi burt úr borginni. En hópurinn hélt síðan uppteknum hætti með skemmdarverkum í skógunum í nágrenni Vilníus og varð hluti af skæruliðahreyfingu Sovétmanna gegn Þjóðverjum.
Í júlí 1944 frelsaði Rauði herinn Vilníus og síðar allt Litháen sem varð að nýju hluti Sovétríkjanna. Þá lifðu aðeins rúm 12.000 af gyðingunum í landinu. Allt að 95 prósent gyðinga í Litháen týndu lífi í helförinni. Í Litháen má enn varla um þetta tala. Í Vilníus er stórt og mikið opinbert safn um kúgun kommúnista á landsmönnum, og full ástæða til þess. En safnið til minningar um helförina í landinu er lítið hús uppi í brekku, rekið af veikum mætti af nokkrum gömlum gyðingum.
Abba Kovner tók sér nú fyrir hendur að hjálpa þeim fáu gyðingum sem eftir lifðu að komast til Palestínu, en það var ekki nóg fyrir hann. Þegar stríðinu var endanlega lokið hélt hann fund með nokkrum ungum gyðingum í Búdapest í Ungverjalandi og las yfir þeim 94. Davíðssálm sem byrjar svo:
„Drottinn, Guð hefndarinnar,
Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!
Rís þú upp, dómari jarðar,
endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!“
Krafa Kovners á hendur félögum sínum var einföld: Að hefna þeirra milljóna sem myrtar höfðu verið. Og hann varð nú forsprakki hefndarhóps sem gekk undir ýmsum nöfnum en var oftast kallaður Nakam – Hefndin á hebresku. Margt er enn á huldu um starfsemi Nakam en starfsemin virðist hafa greinst í þrennt.
Steinolía í blóðgjöfinni
Í fyrsta lagi mun lítill hópur hafa farið um næstu árin og drepið SS-menn og fangaverði útrýmingarbúða sem höfðu sloppið undan réttvísinni. Þetta voru launmorð og yfirleitt var reynt að láta líta út fyrir að viðkomandi hefðu framið sjálfsmorð. Einn SS-maður sem komist hafði til Kanada fannst hengdur í bílskúr sínum eftir heimsókn Nakam-manna, sem héldu yfir honum réttarhöld þar sem þeir voru bæði ákærendur og dómarar. Honum mun þó hafa verið gefinn kostur á að hengja sig sjálfur. Annar SS-maður lá á sjúkrahúsi þegar steinolía komst með einhverjum furðulegum hætti í blóðgjöf og steindrap hann. Ómögulegt er að segja til um hversu margir voru drepnir með þessum hætti.
Í öðru lagi hugðust Kovner og félagar myrða þúsundir SS-manna sem voru í haldi bandamanna rétt eftir stríðið í fangabúðum nálægt Nürnberg. Einn félagi í hópnum fékk sér vinnu í bakaríi sem bakaði brauð fyrir SS-fangana. Hann hleypti svo félögum sínum eina nóttina inn í bakaríið og þeir blönduðu arseniki í deigið. Staðfest er að þúsundir fanga fengu arsenik-eitrun en heimildir um hvort og þá hve margir dóu eru mjög á reiki. Sumir segja að allir hafi náð heilsu á ný, aðrir að um það bil 1.000 hafi dáið.
Í þriðja lagi var svo metnaðarfyllsta og skelfilegasta fyrirætlan Kovners og félaga. Þeir héldu til Palestínu, þar sem gyðingar voru óðum að undirbúa stofnun ríkis, þótt alþjóðasamfélagið hefði enn ekki fallist á það. Þeir lögðu hugmyndina fyrir ýmsa helstu menn í gyðingasamfélaginu. Flestum hryllti við. David Ben-Gúríon, síðar fyrsti forsætisráðherra Ísraels, bað þá í guðs bænum að leggja þetta á hilluna. Hins vegar fengu þeir betri viðtökur hjá Chaim Weizmann, sem fáeinum árum seinna varð fyrsti forseti í Ísrael. Hann er sagður hafa haft samúð með fyrirætlunum þeirra og jafnvel hafa tekið virkan þátt í að útvega þeim það sem þeir þurftu til verka sinna – þótt þáttur Weizmanns í því sé reyndar ósannaður.
Hver kom upp um hann?
Og hvað var það sem þeir þurftu á að halda? Jú, gífurlegt magn af eitri sem þeir hugðust fara með til Þýskalands og lauma út í vatnsbólin í Berlín, Nürnberg, Hamborg, München og Weimar. Og þessum eiturbyrlunum skyldi ekki hætt fyrr en jafn margir Þjóðverjar væru dánir og gyðingar sem voru myrtir í helförinni.
Sex milljónir.
Það skal tekið fram að þótt Abba Kovner hafi verið ákafamaður mikill og ekki alltaf sést fyrir í orðum og stundum æði, ansi tens týpa sem sagt, þá ber öllum saman um að hann hafi verið umhyggjusamur og hlýr þegar svo bar undir, réttlátur og sanngjarn í flestöllum persónulegum samskiptum við fólk.
En hann ætlaði samt að drepa sex milljón manns.
Kovner steig á skipsfjöl með eiturbirgðir þær sem gyðingar í Palestínu útveguðu honum. Það átti í raun og veru að ganga til þessara verka. Bretar réðu hins vegar því skipi og handtóku Kovner af einhverri tylliástæðu. Það er lítill vafi á að Ben-Gúríon eða einhverjir aðrir frammámenn gyðinga komu upp um hann. Þeim blöskraði hefndarþorstinn og vildu umfram ekki að svona æðisleg hefnd gæti orðið til að skemma fyrir fyrirætlunum um stofnun Ísraels.
Eiturbirgðum fleygt í sjó
Kovner tókst á síðustu stundu að fleygja eiturbirgðum sínum í sjóinn og hann þurfti ekki að dúsa lengi í steininum hjá Bretum. Hann sneri aftur til Palestínu og skipti sér ekki framar af samtökunum Nakam. Á hinn bóginn varð hann frægur að endemum þegar Ísrael lýsti yfir sjálfstæði og Egiftar hófu stríð gegn hinu nýja ríki. Þá ritstýrði hann upplýsingapésa fyrir herinn og heimtaði að innrásarmönnum yrði gereytt af slíku offorsi að jafnvel gekk fram af ísraelsku herstjórninni. Þá atyrti hann fyrir hugleysi herflokks sem hafði gefist upp fyrir ofurefli liðs. Honum fannst að hermennirnir hefðu átt að berjast til síðasta blóðdropa, ekki „láta leiða sig eins og sauði til slátrunar“. Og var þó föngum Egifta alls ekki slátrað.
Eftir sigur Ísraels í sjálfstæðisstríðinu 1948 hafði Abba Kovner fremur hægt um sig. Hann starfaði í vinstrisinnuðum stjórnmálaflokki Zíonista en reyndi ekki að öðlast stjórnmálaframa. Kunningi hans sagði síðar að hann hafi í raun aldrei kunnað vel við sig í Ísrael en þar bjó hann þó til æviloka og orti dramatísk ljóð um reynslu sína úr helförinni og stríðinu. Það munu vera mögnuð ljóð og hann fékk öll helstu bókmenntaverðlaun Ísraels. En á nóttunni var hann á flótta um völundarhús þaðan sem var engin undankomuleið.
Ég hef komið í það hverfi í Vilníus þar sem gettóið var og veit hverju hann var að lýsa úr martröðum sínum.
Abba Kovner lést 1987.
Athugasemdir