Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra notaði tækifærið í hátíðargrein sinni í dag til að beina spjótum sínum að neikvæðu fólki, sem hann kallar „nátttröll“. Greinin hefur yfirskriftina „trúin á hið góða“ og í henni lýsir hann vilja til þess að samfélagið „komist úr skugga neikvæðni og niðurrifs í öllum sínum myndum“.
„Þeir sem stundum eru kallaðir hinn þögli meirihluti verða að þora að láta ljós sitt skína og óttast ekki hramm nátttröllanna. Þau þrífast bara í myrkri. Upplýsta umræðu þola þau ekki,“ skrifar Sigmundur meðal annars.
Með kröfunni um trú á hið góða og afnám „neikvæðni“ og með ákalli sínu til þögla meirihlutans er Sigmundur að haga orðræðu sinni með sams konar hætti og Þjóðkirkjan, fjölmiðlaútgefandinn Björn Ingi Hrafnsson og Eggert Skúlason, ritstjóri DV, svo einhverjir séu nefndir.
Það er gilt sjónarmið út frá jákvæðri sálfræði að fólki sé gott að líta almennt líf sitt jákvæðum augum. Hins vegar er það samfélagslegt mein ef það sem flokkast getur undir neikvæðni í umræðu er aflagt í „öllum sínum myndum“. Sérstaklega er varasamt ef slík stemmning myndast í samfélaginu að þeir sem gagnrýna, og flokkast því undir neikvæðni, eru jaðarsettir og jafnvel uppnefndir - til dæmis nátttröll eða netbúar - og þeir sagðir dvelja í myrkrinu og afneita „hinu góða“.
Sigmundur og „hið góða“
Trúarlegi undirtónninn í framsetningu Sigmundar er áhyggjuefni, vegna þess að með honum gefur hann til kynna að annars vegar sé myrkrið og hins vegar sé ljósið - annars vegar hið góða og hins vegar hið illa - og um leið virðist hann markvisst nota ræður til að flokka gagnrýnendur sína undir hið síðarnefnda – myrkrið.
Sigmundur ákallar þögla meirihlutann, en meirihlutinn, hversu þögull sem hann er, fylgir ekki Sigmundi í einu og öllu. Meirihlutinn kýs reyndar ekki Sigmund og ríkisstjórn hans, heldur Pírata og aðra stjórnarandstöðuflokka.
En það þýðir ekki að Sigmundur geri allt rétt, eða allt rangt. Hann gerir sumt rétt og sumt rangt, og stundum er erfitt að greina þar á milli. Stundum er það sem hann gerir rétt fyrir hann sjálfan, en rangt fyrir einhverja aðra.
Það er hins vegar ógnvekjandi þegar forsætisráðherra nýtir hverja hátíðarstundina á fætur annarri til að setja fram kröfu um að í góðu efnahagsástandi eigi að þagga niður ákveðnar raddir, og útmálar gagnrýnendur með uppnefnum.
Hann gæti gert þetta í staðinn:
1. Meðtekið og umborið áhyggjur fólks og óánægju, jafnvel þótt hann sé ekki alltaf sammála, í stað þess að hreyta uppnefnum í það í hátíðarræðum sínum.
2. Játað það sem hefði getað farið betur - því það er alltaf eitthvað - sýnt gott fordæmi og leiðtogahæfni með því að auðsýna auðmýkt.
3. Áttað sig á því að sumt sem hann er nota vald sitt til að gera, til dæmis að taka sér persónulega vald til að grípa inn í húsbyggingar, eins og hann fékk í gegn í sumar, vekur réttilega áhyggjur hjá upplýstum borgurum í lýðræðisríki – jafnvel þótt hann ætli sér gott eitt.
4. Áttað sig á því að viðbrögð hans við gagnrýni auka enn á áhyggjur fólks af því sem hann gerir og segir. Því þegar maður svarar fólki í umræðum, beint eða óbeint, með uppnefnum og jaðarsetningu, herðist það bara í afstöðu sinni frekar en að opnast fyrir manns eigin sjónarmiðum.
5. Áttað sig á því að þótt efnahagsástandið sé ágætt þýði það ekki að fólk þurfi í reynd að trúa á hann sem hið góða eða hætta að gagnrýna það sem því finnst vera varasamt eða vandamál. Þó það sé ekki nema vegna þess að óþol fyrir gagnrýni og krafan um samhenta jákvæðni þjóðarinnar er þekkt einkenni hóphugsunar, einnar hættulegustu orsakar slæmrar ákvarðanatöku.
6. Hætt að reyna að fylla fólk eins og foie gras-gæsir á hátíðisdögum með endurteknum kröfum um jákvæðni og samheldni. Lýðræðið krefst gagnrýninnar umræðu, það er allt annars konar þjóðfélagsskipan sem krefst þess sem Sigmundur fer fram á.
7. Þegar allt kemur til alls gæti hann sýnt gott fordæmi með því að vera ekki svona neikvæður gagnvart því að sumt fólk skuli stundum gagnrýna hann. Og lagt áherslu á trúna á hugmyndafræði lýðræðis, nauðsynlegar rökræður og átök hugmynda, frekar en að ýta undir fornfálega, trúarlega heimssýn hins góða og illa. Það er jú jákvæðni sem hann vill.
Með minni stjórnsemi og meira umburðarlyndi, auðmýkt, skilningi og hluttekningu gæti Sigmundur sannarlega verið lykilþátttakandi í að gera Ísland betra fyrir alla. Enda er hann í bestu aðstöðunni til þess.
Athugasemdir