Fræðigreinin sagnfræði snýst um að kunna að rannsaka mannleg samfélög, einkum í fortíð, og miðla þekkingu um þau til annarra. Mikilvægur hluti sagnfræði felst í að kunna að lesa mikinn fróðleik út úr litlum heimildum og beita þó varúð við að oftúlka hvorki né mistúlka.
Með þessum orðum er fræðigreininni sagnfræði lýst á heimasíðu Háskóla Íslands. Lýsingin er góð, hún gefur til kynna að hlusti maður eða lesi skoðanir sagnfræðinga um okkar sögu geti maður verið þess fullviss að á ferðinni er lærður einstaklingur sem hefur vit á því sem hann segir.
En hvað er hægt að segja um sagnfræðing sem vísvitandi segir ósatt frá? Sagnfræðing sem fullyrðir um sögulegar staðreyndir sem hann veit vel sjálfur að eiga ekki við rök að styðjast. Ósannleik sem virðist eingöngu þjóna einum tilgangi, að ala á fordómum, andúð, hatri og hræðslu gagnvart minnihlutahóp hér á landi.
Að mínu mati er skömm að slíkum fræðimanni, jafnframt þykir mér slík hegðun varpa rýrð á allra sagnfræðinga almennt. Það stingur mig í hvert skipti þegar hann merkir skrif sín með nafni og í sviga „höfundur er sagnfræðingur“.
Það stingur mig í hvert skipti þegar hann merkir skrif sín með nafni og í sviga „höfundur er sagnfræðingur“
Þetta er þó eingöngu mín skoðun, það er má vera að þetta fari minna í taugarnar á öðrum. En ég bið þig að lesa pistilinn, leyfa mér að útskýra og þá getið þig gert upp við ykkur hvort þið eruð sama sinnis og ég, eða ekki.
Ég ætla ekki að nefna sagnfræðinginn á nafn, ég get þó sagt að hann hefur verið sérstaklega iðinn við að tala niður til hóps fólks sem aðhyllist önnur trúarbrögð en aðrir Íslendingar. Að auki hefur hann talað gegn lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra hér á landi svo annað dæmi sé nefnt.
Sögufölsun
Hvað er það sem sagnfræðingurinn hefur sagt ósatt?
Í bæði ræðu og riti hefur hann haldið eftirfarandi fullyrðingum fram.
„Er einhver sem vill halda því fram með gildum rökum að trúfrelsisákvæði sem komust inn í stjórnarskrár Evrópulanda á 19. öldinni hafi yfirleitt gert ráð fyrir því að menn gætu iðkað Íslam? Nei það gerði enginn ráð fyrir því.“
Þessi fullyrðing hjá honum um trúfrelsisákvæði er ekki rétt, hún er beinlínis ósönn. Fyrir því eru margar góðar heimildir og gild rök sem sýna fram á að að umrædd ákvæði hafi einnig gert ráð fyrir íslam þegar þau voru samin.
Tilurð nútíma trúfrelsis
Hér verður stiklað á stóru og taldir upp tveir aðilar sem hvað stærstan þátt áttu í tilurð nútíma trúfrelsisákvæða auk innleiðingar annarra borgaralegra réttindi á Vestulöndum. Þó er rétt að benda á að sagan er mun lengri en athafnir þessara tveggja einstaklinga, ásamt því að margir aðrir heimspekingar og stjórnmálamenn komu að málum. Ein staðreynd er þó nauðsynleg og ber að nefna fyrst, að mörgu leyti má þakka ægivaldi kaþólsku kirkjunnar á árum áður fyrir það sem seinna varð.
Upplýsingaröldin er hins vegar tímabilið sem um ræðir, þá var að finna fjölmarga aðila sem við í dag getum þakkað okkar borgaralegu réttindi, m.a. frelsi í trúmálum. Það er af mörgum að taka, en þessi pistill er skrifaður til þess að sýna fram á sérstaklega að íslam hafi einnig verið í hugum manna þegar ákvæði Vesturlanda um trúfrelsi urðu að veruleika.
Ég ætla að skrifa sérstaklega um tvo aðila. Sá fyrri hét John Locke, hann var einn mesti áhrifavaldur síðari aðilans sem ég skrifa um, sá hét Thomas Jefferson en hann, eins og margir vita, er óopinber höfundur Sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna ásamt því að vera einn mesti áhrifavaldur Réttindaskrár Bandaríkjanna (Bill of Rights).
John Locke (1632-1704)
John Locke er talinn einn merkasti heimspekingur Englands. Jafnframt er hann talinn sá heimspekingur sem flestir þakka nútíma frjálshyggju og frjálslyndisstefnu í stjórnmálum. Hann var mikill talsmaður borgaralegra réttinda og þess að tilgangur ríkisvalds væri að tryggja þegnum þau réttindi sem okkur þykja sjálfsögð í dag. Í ritgerð Lockes, Ritgerð um mannlegan skilning,(An Essay Concerning Human Understanding) talaði Locke fyrir því að múslimar, sem og aðrir, ættu að geta gengið að borgarlegum réttindum vísum í Englandi [Samveldinu]. Vitað er að Thomas Jefferson hafði miklar mætur á Locke. Í bréfum Jeffersons er að finna fjölmargar tilvísanir í hann og víst er að hann hafi verið einn helsti áhrifavaldur Jeffersons á hans ferli.
Thomas Jefferson (1743-1826)
Thomas Jefferson var einn merkilegasti stjórnmálamaður sögunnar. Fáir menn hafa líklega haft jafnmikil áhrif á heiminn og hann. Jefferson var þriðji forseti Bandaríkjanna og einn aðalhöfunda Sjálfstæðisyfirlýsingar landsins. Áður en Jefferson dó lét hann skýrar leiðbeiningar fylgja um hvað skyldi standa skrifað á legsteini sínum eftir dauðann:
Hér var grafinn
Thomas Jefferson
Höfundur Sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna
Trúfrelsisákvæðis stjórnarskrár Virginíuríkis
& faðir háskóla Virginíuríkis
Stjórnarskrá Virginíuríkis er afar merkileg í nútímalegu samhengi, sagt er að hún hafi verið fyrirmynd mannréttindayfirlýsingar Frakklands árið 1789, stjórnarskrár Bandaríkjamanna 1789 sem síðar varð að fyrirmynd stjórnarskrár Frakklands árið 1791. Eftir henni voru seinna sniðnar flestar stjórnarskrár Evrópu á 19. öld. Í sjálfsævisögu Jeffersons og bréfum talar hann um tilurð trúfrelsisákvæðis Virginíuríkis, sem hann vildi látast sérstaklega minnast sín fyrir og áréttar fyrir hverja ákvæðið var samið. Í bréfum Jeffersons er m.a. þessa tilvitnin í John Locke að finna.
„[Hann] segir hvorki múslima, heiðingja né gyðinga ætti að halda utan borgaralegra réttinda Samveldis sökum trúarskoðanna sinna.“
(Jefferson vitnar í John Locke, 1776) Jefferson, papers 1:548
Stjórnarskrá og Réttindaskrá Bandaríkjanna
Í réttindaskránni stendur:
„Sambandsþingið skal engin lög setja um stofnun trúfélags né til að koma í veg fyrir frjálsa iðkun trúarbragða; né heldur til skerðingar málfrelsi eða prentfrelsi; né réttindum fólks til friðsamlegra mannfunda eða að senda stjórninni bænaskrá um leiðréttingu kvörtunarefna.“
Áður en að fullgildingu stjórnarskrár Bandaríkjanna kom var Jefferson ekki sannfærður um ágæti hennar. Það fór svo að hann neitaði að skrifa undir stjórnarskrána nema viðaukum um borgaraleg réttindi væri komið fyrir, þar sem honum þótti stjórnarskráin ekki tryggja réttindi þegna nægilega gegn valdi alríkisins. Þessir viðaukar eru í dag kallaðir Réttindaskrá Bandaríkjanna (Bill of Rights). Úr varð að John Madison samdi réttindaskrána, en til þess studdist hann heilmikið við eldri skrif Jefferson um stjórnarskrá Virginíuríkis þegar réttindaskráin var samin. Að því loknu skrifaði Jefferson undir stjórnarskrána. Það liggur ansi ljóst fyrir, að íslam hafi líka verið í hugum þeirra sem eiga heiðurinn af borgaralegum réttindum okkar allra í dag. Að halda öðru fram er lygi.
Hægri-Vinstri
Eins og ríkulega er gert þegar undirritaður eða aðrir benda á hversu vond, hættuleg eða vitlaus orðræðan er, þá er oft beitt viðurnefnum í þeirri viðleitni að gera lítið úr málflutningi okkar. Sem dæmi um slíkt má nefna viðurnefnin „vinstri-pakk“, „menningarmarxisti“, „samfóisti“, „gnarristi“ eða þaðan af kjánalegra.
Þetta er alvitlaust. Sögulega má nefna að fyrr á tíðum sem og í dag skipta pólitískar stefnur engu máli þegar kemur að mikilvægi þess borgaralega réttindi sem trúfrelsi er. Því til sönnunar eru hér nokkur dæmi um vinstri og hægri stefnur:
• Nasismi Þýskalands, gyðingar og Hitler (hægri)
• Stalínismi Rússlands, gyðingar ásamt öðrum (vinstri)
• ISIS (hægri)
• Þjóðarhreinsun Polpot og Rauðu khmeranna (vinstri) o.s.frv.
Rauði þráðurinn í öllum tilvikum er að trúarbrögð voru takmörkuð eða bönnuð af ráðandi stjórnmálaöflum. Það er nauðsynlegt að allir þekki og geri sér grein fyrir þessari staðreynd.
(Ef þið verðið fyrir uppnefninu „menningarmarxisti“ þá skulið þið vita, að þótt þessi stimpill sé ekki fundinn upp af Breivík var honum hann mjög hugleikinn. Breivik nefndi hann ítrekað „menningarmarxisma“ sem aðalhættu nútímans í stefnuskrá sem hann skrifaði.)
Titill pistilsins
Það má vera að margir kannast við heitið „Ráðuneyti sannleikans“. Fyrir þá sem ekki þekkja þá er ráðuneytið tekið úr bók George Orwell - Nítján hundruð áttatíu og fjögur. Skáldsagan gerist í dystópítískri framtíð þar sem ríkið ræður öllu, jafnvel hugsunum þegna sinna.
Hún fylgir raunum Winston Smith sem vinnur í ráðuneyti sannleikans. Hann vinnur við að hafa upp á gömlum fréttum, endurskrifa þær þannig að sagan endurspegli aðgerðir ríkisins daginn í dag, en ekki í gær. Þetta er ekki auðvelt starf. Sérstaklega vegna þess að það er langt frá því að vera sama þjóðin sem ríkið á í stríði við, eins eru mynduð bandalög við áður svarna óvini ríkisins. Starf hans er afar mikilvægt hagsmunum ríkisins. Það vill halda almenningi í stöðugum ótta, ala á hatri á þjóð dagsins með öllum tilteknum ráðum. Það gefur að skilja að passi Winston ekki upp á vinnuna gæti það grafið undan valdi ríkisins.
Ein orðasamsetning eða hugtak sem lifað hefur sérstaklega úr skáldsögum Orwells er „Big Brother is watching“ eða stóri bróðir fylgist með. Skáldsaga Orwells er varnarorð fyrir framtíð okkar allra, hún lýsir ægilegri framtíð þar sem ríkið veit um allt sem þú gerir, allt sem þú hugsar og allt sem þú ætlar að gera. Ríki þar sem allir þegnar þess eru þrælar.
Ef allir þyrftu á lífsleiðinni að lesa eina bók þá mæli ég eindreigið með 1984 eftir Orwell. (Bókin er til í íslenskri þýðingu).
Að lokum
Þessi pistill lýsir frásögnum manns sem gæti verið yfirmaður Winstons, í skjóli nafnbótar sem sagnfræðingur falsar hann söguna í annarlegum tilgangi. Tilgangi til þess að kasta rýrð á minnihlutahóp á Íslandi sem á endanum mun valda og hefur valdið þjáningum. Hann hefur endurtekið gert sig sekan um þetta
Hann á sér dygga aðdáendur sem hlusta á orð hans og ræðu sem þau telja sannleika. Áhangendur, skoðanabræður (og -systur) þessa manns eru að mínu mati lýti á menningu okkar. Mörg þeirra styðja hispurslaust tillögur sem miða að því að takmarka mannréttindi sem barist hefur verið fyrir í aldaraðir. Þau sjá ekkert að því að ríkið vopnavæðist, né að ríkinu séu veittar heimildir til forvirkra rannsókna undir „fölsku“ yfirskyni. Þau telja mörg að samkynhneigð sé röng ásamt því að þeirra Guð (sem er reyndar sá sami) sé betri en aðrir. Það sem sagnfræðingurinn gerir er að mínu mati stórhættulegt, jafnframt er hægt að færa sannfærandi rök að af honum stafi mun meiri ógn hér á landi en nokkurn tímann af ISIS eða öðrum öfgahópaum sem við lesum um daglega í hinum stóra heimi.
Hákon Helgi Leifsson
(Höfundur er ekki sagnfræðingur)
Athugasemdir