Af einhverjum ástæðum eru íslenskir fjölmiðlar lélegri en í löndunum sem Ísland ber sig saman við.
Hvað á ég við með lélegri fjölmiðlum? Ég á við að fjölmiðlamenningin á Íslandi er grynnri. Ekki hafa til dæmis skapast skilyrði á Íslandi fyrir lífvænlegt frjálst og óháð dagblað sem hefur grundvallargildi blaðamennskunnar að leiðarljósi, eins og til dæmis New York Times, The Guardian eða Dagens Nyheter. Sama má segja um sambærilega óháða fréttastöð í sjónvarpi. Einu tvö dagblöðin sem eru gefin út á Íslandi, Morgunblaðið og Fréttablaðið stunda hagsmunagæslu fyrir eigendur sína og tengda aðila í umfjöllun um þá málaflokka sem þá snerta og reyna ekki einu sinni að fela það.
„Þetta er eins og að horfa um árabil á einkaðila stinga peningaseðli ítrekað í brjóstvasann á ginnkeyptum stjórnmálamanni eða dómara.“
Þeir starfsmenn þeirra sem sætta sig ekki við þá hagsmunagæslu þrífast ekki á þessum miðlum; annað hvort hætta þeir sjálfir eða eru látnir hætta. Auðvitað þýðir þetta samt ekki að allir aðrir starfsmenn miðlanna beygi sig undir eigendurna því sumir starfsmenn þeirra fjalla ekki endilega um málaflokka sem snerta hagsmuni þeirra - menningarblaðamaður er ekki líklegur til að stuða hagsmuni fjölmiðlaeigenda úr viðskiptalífinu og hann hefur því frjálsari hendur. Skýrasta og besta dæmið um slík starfslok á íslenskum fjölmiðlum er Ólafur Stephensen sem er í þeirri sérstæðu stöðu að hafa vera ýtt úr starfi bæði á Morgunblaðinu og Fréttablaðinu af því hann var ekki nægilega leiðitamur.
Fjölmiðlar heilla ekki peningamenn í góðri trú
Þeir einkareknu fjölmiðlar sem eftir eru eru hafa ekki mikla útbreiðslu eða mikinn lestur. Þetta eru örmiðlar með sárafáum starfsmönnum og ótryggan rekstrargrundvöll eða sérhæfðir miðlar sem fjalla afmarkað um tiltekna málaflokka, eins og til dæmis Viðskiptablaðið. Þessir fjölmiðlar koma og fara í ljósi þess að rekstrargrundvöllur þeirra er ótryggur. Ísland á ekkert réttnefnt frjálst og óháð dagblað. Sú staða er sorgleg, eiginlega ömurleg.
Fjölmiðlarekstur hefur af einhverjum ástæðum ekki náð að heilla íslenska peningamenn sem í góðri trú vilja stofna og eiga fjölmiðla til lengri tíma; fjölmiðla sem byggja á því að virða grundvallargildi blaðamennskunnar og reyna að spegla samfélagið.
Slík blöð hafa sprottið upp á Íslandi í gegnum tíðina en bara lifað til skamms tíma og svo hafa sérstakar samfélagslegar aðstæður leitt til þess að flokksblöð eins og Morgunblaðið hafa ekki stundað hagsmunagæslu um tiltekið skeið. Þá ég við stutt tímabil í kjölfar hrunsins 2008 þar sem Íslandsbanki átti blaðið og var með það í sölumeðferð. Morgunblaðið hefur aldrei verið betra en þá að mínu mati og komst þá næst því að vera þessi miðill sem Ísland þarf: Víðlesið dagblað sem á enga vini, hvorki Sjálfstæðisflokkinn né útgerðarfélög, og segir bara fréttir óháð hagsmunum valdaafla. Morgunblaðið þurfti bæði að losna við Styrmi Gunnarsson og hagsmunadrifna eigendur til að verða slíkt blað um hríð. Ég hlakkaði til að lesa Morgunblaðið á morgnana á þessum tíma.
Í löndunum í kringum okkur - Bretlandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku - eru slíkir einkareknir fjölmiðlar til og þeir lifa af. Eru íslenskir peningamenn svona ólíkir breskum og skandínavískum? Af hverju stafar þessi munur? Ísland á fullt af vellríkum, og án efa upplýstum og sannleikselskandi, peningamönnum sem ættu að sjá tækifæri í því að stuðla að því að búið verði til réttnefnt frjáls og óháð dagblað á Íslandi sem jafnframt gæti staðið undir sér. Dagens Nyheter í Svíþjóð er mest lesna morgunblaðið þar í landi og skilar blaðið hagnaði fyrir eigendur sína. Markaðurinn á Íslandi er auðvitað miklu minni en ef góð reynsla skapaðist af útgáfu frjáls og óháð og beitts dagblaðs á Íslandi myndi stór hluti þjóðarinnar kaupa það. Markaðurinn - fólkið á Íslandi sem vill kaupa áskrift að almennilegu dagblaði - kallar á slíkt blað.
„Ísland á ekkert réttnefnt frjálst og óháð dagblað. Sú staða er sorgleg, eiginlega ömurleg.“
Vantrú á fjölmiðlum
Ekki hefur heldur skapast hefð á Íslandi fyrir því að ríkisvaldið styrki einkarekna fjölmiðlun með fjárstyrkjum, til að mynda eins og í Svíþjóð þar sem tímarit geta sótt um fjárstyrki frá hinu opinbera til að halda sér gangandi. Þeir styrkir skipta sköpum fyrir mörg af þeim tímaritum og skilja á milli feigs og ófeigs í mörgum tilfellum. RÚV fær auðvitað sína árlegu milljarða einn fjölmiðla en aðrir ekkert. Á Íslandi má segja að ríkisvaldið geri minna til að styrkja og styðja einkarekna fjölmiðlun en gert er í löndunum í kringum okkur jafnvel þó fjölmiðlar gegni þessu mikilvægu hlutverki sem fjórða valdið í lýðræðissamfélögum. En auðvitað eru slíkir fjárstyrkir vandmeðfarnir: Hvaða fjölmiðla á að styrkja og hverja ekki? Slíkar styrkveitingar gætu endað á því að verða spilltar; stjórnmálaflokkarnir myndu styrkja þá miðla sem væru þeim þóknanlegir.
Ég heyri það frá mörgum Íslendingum sem ég tala við að þeim finnst íslenskir fjölmiðlar vera hálfgert drasl. Til hvers þá að borga fyrir þá? Vantrú Íslendinga á fjölmiðlum er skiljanleg þegar litið er yfir svið þeirra, sem lýst er hér að ofan. Þessi vantrú leiðir svo aftur til þess að blaðamannastarfið er álítið annars flokks starf; eitthvað sem ungt fólk vinnur við um hríð á leið sinni yfir í önnur og betri störf. Blaðamennska er ekki talin vera ævistarf heldur stoppistöð. Spekilekin úr blaðamennsku er mikill og gera lélegri fjölmiðlar og lítið álit á þeim það meðal annars að verkum að góðir blaðamenn þiggja önnur þægilegri og betur launaðri störf með þökkum. Þetta leiðir aftur til þess að meðalaldur blaðamanna á Íslandi er lægri en í öðrum löndum í kringum okkur sem aftur ýtir undir reynsluleysi stéttarinnar almennt séð. Svo eru það þeir, eins og Ólafur Stephensen, sem lenda ítrekað í hagsmunagæslu eigendanna og þurfa því að finna sér starf utan fjölmiðlanna. Hver blaðamaður á bara ákveðið mörg líf í ákveðið mörgum störfum innan fagsins. Svo nenna menn þessu ekki lengur.
Arfur flokksblaðanna
En af hverju er þetta eiginlega svona? Ein skýring sem stundum er nefnd er að vegna þess að á tuttugustu öld hafi flestir einkareknir íslenskir verið reknir af stjórnmálaflokkum til að ganga hagsmuna þeirra og vinna gegn öðrum flokkum. Flokksblöðin áttu að vera hlutdræg; það var beinlínis tilgangur þeirra að stunda hagsmunagæslu. Kynslóðin sem nú er á miðjum aldri og eldri ólst upp við þetta landslag þar sem samkrull stjórnmála- og fjölmiðlunar var staðreynd: Jón Baldvin Hannibalsson var til dæmis á Alþýðublaðinu; Svavar Gestsson var á Þjóðviljanum; Björn Bjarnason var á Morgunblaðinu og fjölmargir framsóknarmenn skrifuðu í Tímann.
Á Íslandi er engin, eða sáralítil, hefð fyrir einkareknum fjölmiðlum sem ekki stunda hagsmunagæslu. Hagsmunadrifna fjölmiðlahefðin hefur orðið ofan á á Íslandi en ekki sú fjölmiðlahefð sem þekkist í löndunum í kringum okkur. Þetta er bara eitt dæmi sem sýnir fram á það hversu vanþróað land Ísland er í þeim samfélagslegu þáttum sem snúa að lýðræðishefð eða þeim þáttum sem eru afleiðingar hennar. Dýpri fjölmiðlamenning er einn af hornsteinum þróaðra lýðræðissamfélaga en á því sviði er Ísland nær því að vera eins og vanþróað ríki en Svíþjóð til dæmis.
Áhugaleysi stjórnmálamanna
Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa ekki brugðist við þessu vandamáli með lagasetningu sem hefði það að markmiði að tryggja frjálsa og óháða einkarekna fjölmiðlun. Í raun gilda ekki aðrar reglur um meðferð eigenda á fjölmiðlum en á hvers kyns annars konar fyrirtækjum, jafnvel þó stundum sé talað um fjölmiðla sem „fjórða valdið“ í lýðræðisríkjum. Maður sem kaupir fjölmiðil getur í raun farið með hann með sambærilegum hætti og ef hann myndi kaupa kex- eða dósaverksmiðju jafnvel þó tvær síðastnefndu fyrirtækjagerðirnar hafi ekki neinu beinu hlutverki að gegna í lýðræðissamfélögum. Sá einkaðili sem kaupir fjölmiðil má gera það sem hann vill við hann. Einhvers konar lagasetningu þarf, einhvers konar regluverk, sem tryggir frelsi fjölmiðla. Án slíkrar lagasetningar næst varla að skjóta rótum undir bættari fjölmiðlamenningu á Íslandi til framtíðar.
„Laga- og reglusetningin sem nær yfir þetta „fjórða“ valdatæki þarf að endurspegla mikilvægi fjölmiðlunar í samfélaginu þannig að þetta tæki sé ekki leiksoppur hagsmunaafla.“
Sterkara regluverk er á Íslandi utan um flesta aðra þætti sem snúa að lýðræðinu. Laga- og reglusetning á að koma í veg fyrir misnotkun á hinu þrískipta ríkisvaldi: löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldi. Þingmenn þurfa að greina frá hagsmunatengslum sínum við fyrirtæki, stjórnmálaflokkar mega ekki taka við ótakmörkuðum styrkjum frá fyrirtækjum og þurfa að greina frá því hver styrkir þá og einkaðilar geta alls ekki keypt stjórnmálaflokka til að nota þá að eigin vild í sinni hagsmunabaráttu. Dómarar mega sömuleiðis ekki vinna fyrir einkaðila samhliða störfum sínum og svo eftir atvikum dæma í málum tengdum sömu fyrirtækjum. Með laga- og reglusetningu er reynt að koma í veg fyrir misnotkun einkaðila á stjórnmálaflokkum, stjórnmálamönnum, embættismönnum og dómurum. Rétt eins og þessi tæki ríkisvaldsins eru fjölmiðlar einnig valdatæki þó ekki séu þau ríkisstýrð nema í tilfelli ríkisrekinna miðla. Laga- og reglusetningin sem nær yfir þetta „fjórða“ valdatæki þarf að endurspegla mikilvægi fjölmiðlunar í samfélaginu þannig að þetta tæki sé ekki leiksoppur hagsmunaafla.
Annars breytist ekkert
Engin slík lagasetning er til utan um fjölmiðla og því hefur Morgunblað útgerðarinnar farið eins og það hefur farið efnislega og fjölmiðlum 365 er á endanum stýrt af geðþótta eins manns sem er eins og brúðumeistari á bak við tjöldin - stjórnendavelta fjölmiðla 365 er í raun orðin sérstakt rannsóknarefni. Ef sams konar misnotkun einkaðila á þremur valdaþáttum ríkisvaldsins - löggjafar-, dóms- og framkvæmdarvaldi, ætti sér stað væru eftirlitsaðilar löngu búnir að grípa inn í eða að umræðan um þessa misnotkun væri það megn að viðkomandi einkaðilar hefðu hlotið svívirðing fyrir hana. Fjórða vald fjölmiðlanna er auðvitað annars en hið þrískipta vald ríkisins en það er lýðræðinu og borgurunum til góðs að laga- og regluverk girði fyrir misnotkun á því.
Án slíkrar laga- og reglusetningar breytist fjölmiðlamenningin á Íslandi ekkert. Einkareknu fjölmiðlarnir verða bara áfram bitbein hagsmunaafla sem og þeir ganga í gegnum tímabil eignarhalds þar sem ólíkir aðilar misnota þá eftir hentugleikum. Ísland eignast aldrei lífvænlegt frjálst og óháð dagblað sem verður að stofnun í samfélaginu með sama hætti og kannski New York Times í Bandaríkjunum og Dagens Nyheter í Svíþjóð.
„Ef sams konar misnotkun einkaðila á þremur valdaþáttum ríkisvaldsins - löggjafar-, dóms- og framkvæmdarvaldi, ætti sér stað væru eftirlitsaðilar löngu búnir að grípa inn í“
Án almennilegra fjölmiðla fá landsmenn ekki krítíska, rétta og sanna mynd af því samfélagi sem þeir búa í. Myndin sem fólk hefur af samfélagi sínu er að stóru leyti byggð á þeirri mynd sem fjölmiðlar draga upp af því með fréttum og annarri umfjöllun. Án fjölmiðlunar hefðum við bara samræður við annað fólk og tíðindi sem bærust mann frá manni til að skapa mynd okkar af samfélaginu. Sú staða er auðvitað ekki æskileg og þess vegna eru fjölmiðlar mikilvægir til að miðla upplýsingum.
Frumkvæðið frá kjósendum
Ég veit hins vegar ekki nákvæmlega hvernig löggjafinn á sníða lög og reglur sem girða fyrir þessa hvimleiðu misnotkun einkaðila á fjölmiðlum og skjóta traustari rótum undir einkarekna fjölmiðla á Íslandi. Eina sem ég veit að ef einkaðilar stunduðu augljósa og grímulausa hagsmunagæslu og misnotkun á löggjafarvaldinu, framkvæmdavaldinu og dómsvaldinu um árabil, líkt og einkaðilar hafa í nokkrum tilfellum gert á fjölmiðlamarkaðnum, þá yrði eitthvað gert. Þetta er eins og að horfa um árabil á einkaðila stinga peningaseðli ítrekað í brjóstvasann á ginnkeyptum stjórnmálamanni eða dómara. Löggjafinn er eini aðilinn sem getur brugðist við þessari stöðu.
Frumkvæðið fyrir slíkum lagabreytingum þarf hins vegar að koma frá kjósendum á þeim forsendum að þeir séu orðnir þreyttir á þessari misnotkun á fjölmiðlum og að landið þurfi betri stóra, einkarekna fjölmiðla sem þeir hlakka til að lesa og eru reiðubúnir að borga fyrir.
Athugasemdir