Undir lok síðustu aldar, löngu áður en netið og samfélagsmiðlar urðu hluti af daglegu lífi, horfði ég á Star Trek-þátt sem af og til skýtur upp kollinum í huga mér. Fyrir þá sem ekki vita er Star Trek framtíðarævintýri í 725 sjónvarpsþáttum, 11 bíómyndum og hundruðum bóka sem lýsir heimi þar sem mannkynið hefur náð ótrúlegum þroska og kannar undur alheimsins, safnar þekkingu og sinnir friðargæslu í geimnum. Í framtíðinni takast menn ekki á um efnisleg gæði enda hægt að margfalda þau eftir þörfum. Peningar eru því óþarfir og fullt jafnrétti ríkir á milli allra hinna ólíku íbúa alheimsins. Þátturinn eftirminnilegi fjallaði um það sem hratt sameiningu mannkyns af stað og opnaði augu jarðarbúa fyrir því að allir væru eins inn við beinið og ættu að vera jafningjar. Ef ég man þetta rétt (sem er reyndar frekar ólíklegt) þá var það þannig í „gamla daga“ (en nálægri framtíð okkar) að í stéttskiptu samfélagi mannanna höfðu hinir ríku völdin en öreigarnir voru undirokaðir. Þessum hópum var haldið aðskildum en dag einn tókst öreigunum að brjótast inn á einhvers konar internet og hófu að segja sögur sínar. Valdafólkið öðlaðist skilning á aðstæðum hinna valdalausu og mannkynið varð eitt.
Star Trek hefur líkt og annar góður vísindaskáldskapur oft verið ansi sannspár um framtíðina og veitt hönnuðum og uppfinningafólki innblástur. Í Star Trek fyrirfundust snjallsímar, spjaldtölvur og sýndarveruleiki löngu áður en þessi tækni leit dagsins ljós í raunheimum. Og í þættinum forðum náðu öreigarnir tökum á eins konar samfélagsmiðli. Ég var því nokkuð vongóð um framtíðarhorfur mannkyns þegar netið varð að alvöru fyrirbrigði og við fórum að tengjast á samfélagsmiðlum. Facebook varð svo að sameinandi herlúðri í búsáhaldabyltingunni og allt í einu fengu allir rödd. Við gátum sagt það sem okkur lá á hjarta, lesið skrif annarra, hrifist með og fengið innsýn inn í líf og skoðanir ókunnugra. Um stund fannst mér eins og hin útópíska framtíðarsýn Star Trek væri að rætast. Nú loksins sátu allir við sama borð. Á netinu var engin stéttskipting, engin landamæri, kyn og húðlitur skiptu ekki máli og allir gátu verið vinir. Eins og í Star Trek. Og svo gerðist eitthvað. Eitthvað allt annað.
Netið geymir svo ótal greinar, blogg, myndir og „gögn“ sem slengt er fram til að sanna hina réttu skoðun, óháð raunverulegu sannleiksgildi gagnanna.
Í stað þess að byggja brýr sköpuðu samfélagsmiðlarnir bergmálshella. Í mínum helli enduróma orð „góða fólksins“ sem vill frjálslyndi og alþjóðahyggju og við erum öll sannfærð um eigið ágæti og réttmæti skoðana okkar. Í öðrum hljómar eitthvað sem mér finnst vera popúlískur hræðsluáróður. Og milli þessara heima eru engar dyr, enginn grundvöllur til samræðu eða skilnings. „Góða fólkið“ stendur ráðþrota frammi fyrir uppgangi Trumps, Le Pen, Brexit, múslimahatara og flugvallarvina þessa heims. Margir hafa reynt að taka umræðuna; rökstyðja af hverju alþjóðasamvinna sé góð og trúfrelsi sjálfsögð mannréttindi. Segja hvers vegna við viljum ekki tilveru byggða á hatri og hræðslu heldur umburðarlyndi, ást og gleði. „Hrædda fólkið“ svarar fullum hálsi og segir okkur einföld og barnaleg. Auðvitað sé heimurinn stórhættulegur. Netið geymir svo ótal greinar, blogg, myndir og „gögn“ sem slengt er fram til að sanna hina réttu skoðun, óháð raunverulegu sannleiksgildi gagnanna. „Góða fólkið“ verður táknmynd ríkjandi stéttar sem vill óbreytt ástand og hr. Google sýnir okkur bara það sem við viljum sjá.
Stóra spurningin er hvernig við getum breytt þessu? Við verðum að reyna að hætta að garga hvert á annað og reyna að skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð – í raunheimum, ekki bara vísindaskáldskap. Lausnin, ef hún er þá til, hlýtur að felast í betri samskiptum, virkri hlustun og skoðanaskiptum á sæmilega siðmenntuðum vettvangi. Samskiptum sem byggjast á gagnkvæmri virðingu og tilraunum til að breyta um sjónarhorn. Eiginlega þyrftum við að drífa í þessu áður en við sogumst inn í svartholið. En hvernig komumst við út úr bergmálshellunum?
Beam me up, Scotty?
Athugasemdir