Lítill hluti þjóðarinnar elskar raunveruleikastjörnur. Kim Kardashian er á landinu en hún er fræg fyrir ekki neitt. Hún er bara ómissandi fyrir fjölmiðla sem finna hjá sér þörf að upplýsa almenning um ekki neitt. Við eigum bara eina raunveruleikastjörnu; Ólaf Ragnar Grímsson. Hann er frægasti maður landsins fyrir að gera ekki neitt. Er samt mjög ómissandi, að eigin mati og fóðrar fjölmiðla á fréttum af engu.
Forsetinn telur sig ómissandi í ljósi óvissu um framtíðina. Það er ódýrara sölutrikk en á Sjónvarpsmarkaðinum í gamla daga þar sem allar söluræður hófust með orðunum; „hver kannast ekki við það vandmál að...“ Þannig voru seldir súkkulaðigosbrunnar, bakklórur, megrunargræjur, jónatæki og hægðarlosunarlyf. Sjónvarpsmarkaðurinn var besta raunveruleikasjónvarp á Íslandi eða þangað til beinar útsendingar frá Bessastöðum urðu tíðari.
Vandmálið er sum sé, að það er ekkert vandamál. Kennarastarf í gaggó útheimtir meiri stjórnkænsku en forsetaembættið. Það þarf stjórnkænsku að leysa krísu í vinkvennahópnum í 9.bekk þegar búið er að blokka Stellu á Instagram af því hún var að daðra við Stjána sem er nýhættur með Stefaníu. Stjórnarmyndun útheimtir minni stjórnkænsku en íþróttakennarinn í 8. bekk sem þarf að skipta krökkunum í fótboltalið án þess að gaurarnir sem eru að æfa saman í boltanum, rotti sig saman.
Einhverjum þótti forsetinn sýna óskaplega stjórnvisku á dögunum þegar fyrrverandi forsætisráðherra ætlaði að frekjast í firringskasti. Það var samt minna vandaverk en hjá barnakennaranum sem varð að senda nemandann heim í hreinar nærur eftir að hafa misst í buxurnar. Það þarf ákveðni þegar nemandinn þverneitar fyrir að nokkuð hafi gerst, þrátt fyrir að hinir krakkarnir haldi fyrir nefið, gráfölir í framan.
Forsetinn er óþarfur sem öryggisventill, það er að segja ef þjóðin fær þá stjórnarskrá sem hún var búin að semja. Þá getur þjóðin sjálf sett mál í þjóðaratkvæði.
Það eina sem getur gert forsetan þarfan er að vera kyndilberi framtíðarlandsins; Íslands, eins og það á að vera, samkvæmt yfirgnæfandi meirihluta landsmanna. Ólafur Ragnar hefur álíka mikla sýn til framtíðar og gaurinn sem sagði um árið, að þetta internet væri bara bóla. Hann er fulltrúi fortíðardrauga sem allir vilja losna við. Hann er ekkert sameiningartákn nema fyrir framsóknarmenn sem elska hann alveg 99%, samkvæmt síðustu vísindarannsókn.
Það hefur verið voðalega aumingjalegt að fylgjast með Ólafi Ragnari og Kardashian gera ekki neitt, nema vera til leiðinda af og til. Einhver Kardashian var með ónæði í heita pottinum við Hótel Rangá og var rekin uppúr, af rétthugsandi starfsmanni. Hann er starfsmaður mánaðarins. Þjóðin þarf að taka hann sér til fyrirmyndar og reka Ólaf Ragnar úr pottinum. Hann er bara leiðinlegt ónæði, auk þess að hafa verið svo lengi ofan í, að það er komin skítabrák á vatnið. Það þarf því að losna við kallinn, tæma pottinn, hreinsa hann og skipta um vatn.
Þjóðin er á fullu að reyna að gera Ísland betra. Hún þarf ekki ónæði þarflausra einstaklinga sem eru frægir fyrir ekkert.
Athugasemdir