Í landinu okkar var maður nokkur ráðinn sem ritstjóri eins stærsta fjölmiðlafyrirtækisins eftir að hafa verið formaður stærsta valdaflokksins í áraraðir, forsætisráðherra í næstum einn og hálfan áratug og seðlabankastjóri þegar landið varð fyrir heimssögulegu bankahruni.
Hann skrifar nú dylgjur um þá sem mótmæltu honum og þá fjölmiðla sem segja frá því að honum og flokksbræðrum hans sé mótmælt. Nú um helgina skrifaði hann þær órökstuddu ásakanir í blaðið sem hann stýrir að þeir sem mótmæltu honum, þegar hann var að störfum, hefðu verið fjármagnaðir af og skipulagðir af einhverju utanaðkomandi valdi til að yfirtaka stjórn landsins.
Þetta segir margt um manninn, en hann er bara einn maður, sem heitir Davíð Oddsson. Við þetta vakna hins vegar alvarlegar spurningar um íslenskt samfélag:
1.
Hvað hefði orðið um okkur ef honum hefði, út á okkar nafn, tekist að fá 620 milljarða króna lán frá Rússlandi Pútíns árið 2008, sem á síðustu misserum hefur leynt og ljóst verið að sölsa undir sig landsvæði frá öðrum ríkjum í krafti hernaðarmáttar?
2.
Hvers vegna var seðlabankastjóri Íslands í samskiptum við sendiherra Rússland um að fá þetta risalán, sem hann tilkynnti sjálfur ranglega að hefði fengist, en ekki stjórnvöld?
3.
Hver voru raunveruleg stjórnvöld?
4.
Hvers vegna talaði Bjarni Benediktsson, núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, um að Davíð hefði verið „hrakinn“ úr Seðlabankanum undir „ótrúlegum formerkjum“ þegar hann var látinn hætta eftir langvarandi mótmæli gegn störfum hans sem Seðlabankastjóri og eftir mistækar ákvarðanir og raunverulegt gjaldþrot Seðlabankans?
5.
Hvers vegna hafa meðlimir Sjálfstæðisflokksins, valdamesta flokks í sögu landsins, ekki viljað gagnrýna það að fyrrverandi formaður þeirra, forsætisráðherra og seðlabankastjóri í hruninu sé í því hlutverki að miðla upplýsingum til almennings um atburði sem tengjast vafasömum störfum hans og flokksins?
6.
Hvað segir það um íslenskt samfélag að Davíð sé ritstjóri stærsta áskriftarblaðsins, þar sem hann reynir að endurskrifa söguna um sjálfan sig og flokkinn út frá því að þeir sem andmæltu honum hafi verið skríll fjármagnaður af annarlegum aðilum?
7.
Hvers vegna hætti bara um helmingur áskrifenda Morgunblaðsins vegna ráðningar Davíðs Oddssonar?
8.
Hvað segir það okkur um íslenska fjölmiðla að einn af fáum fjölmiðlum sem þó er enn óháður í umfjöllunum um stærstu mál samtímans, þrátt fyrir tilraunir til inngripa af hálfu fulltrúa stjórnvalda, sé undir stöðugum árásum fyrir að fjalla eðlilega um andstöðu gegn yfirvöldum?
9.
Hvers vegna hefur Árvakur ekki samið reglur um sjálfstæði ritstjórnar Morgunblaðsins, eftir að reglunum þeirra var hafnað af Fjölmiðlanefnd?
10.
Hvers vegna sjá eigendur Árvakurs - Guðbjörg Matthíasdóttir, Þorsteinn Már Baldvinsson, Kaupfélag Skagfirðinga, Gunnþór Ingvason, Ólafur Marteinsson, Sigurbjörn Magnússon og fleiri, sem eru eigendur ýmist af sjálfsdáðum eða fyrir hönd annarra - ekki að þeir eru að skaða heilbrigði íslensks samfélags með því að hafa ritstjóra í vinnu sem hefur hag af og hikar ekki við að reyna markvisst að villa um fyrir lesendum sínum í eiginhagsmunaskyni?
11.
Mun takast að normalísera spillingu í íslensku samfélagi?
Athugasemdir