Það er að nálgast suðupunkt í bandarísku forsetakosningunum sem eru þær fáránlegustu í sögunni. Það er vika í þær og nú hriktir í grunnstoðunum og æsingurinn sem einkennir kapp frambjóðenda og þeirra kjarnahópa, er ekki fallinn til að auka tiltrú almenings á stjórnkerfinu – sem var nú löskuð fyrir.
Um leið og lúðraþeytarinn Trump var að komast í tapstöðu lýsti hann því yfir að það væri alls óvíst að hann myndi una niðurstöðunni enda væri þetta allt saman svindl. Þetta kom í kjölfar makalausra yfirlýsinga um að hann myndi setja andstæðing sinn í fanglesi. Demókratamegin hafa menn getað látið Trump eftir að auka fylgi sitt. Sjaldan hafa púkar fitnað hraðar á fjósbita.
Í sumar urðu demókratar himinlifandi þegar James B. Comey, yfirmaður Alríkislögreglunnar, FBI, lýsti því yfir að hann sæi enga ástæðu til þess að rannsókn á kæruleysislegri meferð Hillaríar á trúnaðargögnum leiddi til ákæru. Dagblaðið New York Times rifjar upp að leiðtogar demókrata í báðum þingdeildum hældu Comey á hvert reipi í kjölfarið. „Þetta er afburðamaður ... það eru forréttindi fyrir þjóðina að hann leiði Alríkislögregluna,“ sagði Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni. Harry Reid, forystumaður demókrata í öldungadeildinni bætti við hrósið um Comey; „Enginn getur dregið heilindi hans í efa.“
Þetta breyttist svo heldur betur á föstudag þegra Comey tilkynnti að hann myndi halda áfram rannsókn á Hillary Clinton vegna tölvugagna sem komu upp í rannsókn á Anthony Weiner, fyrrverandi þingmanni, sem varð uppvís að því að senda unglingsstúlku dónaleg textaskilaboð. Weiner var þá kvæntur Humu Abedin, nánustu aðstoðarkonu Hillaríar Clintons, til margra ára.
Annað hljóð var þá komið í strokk demókrata gagnvart Comey. Hann var ekki bara sakaður um tvöfeldni og tilraun til að hafa áhrif á kosningarnar heldur fullyrti John Podesta, kosningastjóri Clintons, nánast, að Comey hefði brotið lög.
Svo mikill er hitinn og heiftin að menn í herbúðum konunnar sem enn getur orðið næsti forseti, eru tilbúnir til að saka yfirmann æðstu löggæslustofnunar landsins um lögbrot.
Yfirlýsing frá yfirmanni FBI á föstudag breytti miklu; Trump hefur unnið á og minnkað forskot Clintons. Um leið hefur aðeins koðnað undan ríkjandi möntru um að Pútín væri með óeðlileg inngrip í kosningabaráttuna. Langsótta myndin af þessum meintu rússainngripum er einhvern veginn svona: þrjótar á vegum Pútíns brutust inn í tölvur Podesta, kosningastjóra Clintons, sóttu þar tölvupósta og sömdu við WikiLeaks um að birta þá, til að styðja við bakið á Trump.
Rússagrýlan hefur heldur betur fengið nýtt líf. Glenn Greenwald rekur í ágætri grein hvernig þessi meinti samblástur um Podesta-tölvupóstana er ekki eina birtingarmyndin, því fleiri hafa verið sakaðir um að vera handbendi Pútíns. Það er raunar stórmerkilegt í sögulegu ljósi því demókratar hafa lengst af sætt gagnrýni af þessum toga; „nytsamir sakleysingjar“ eða réttir og sléttir landráðamenn sem voru hallir undir Kremlarherra. Nú hefur rússagrýlan gengið aftur í nýju hlutverki sem móðurstöð repúblikana í skítlegum þjónustustörfum fyrir Pútín.
„Svo mikill er hitinn og heiftin að menn í herbúðum konunnar sem enn getur orðið næsti forseti, eru tilbúnir til að saka yfirmann æðstu löggæslustofnunar landsins um lögbrot.“
Þó að það yrði smávægilegt hik á öskrunum um Pútíngrýluna, vegna útspils FBI-forstjórans (sem engan veginn tóks tað rekja til Pútíns) tók maskínan aftur við sér eftir nokkurra daga hlé og er háværari núna en nokkru sinni fyrr.
Vladimir Pútín er líklega valdamesti strámaðurinn í vestrænni stjórnmálasögu.
Bandarísku forsetakosningarnar eru ekki vinsældakosning heldur óvinsældakosning. Þar hefur Trump smám saman skapað sér óvinsældaforystu með makalausum yfirlýsingum um innflytjendur og íslamsfólk í bland við kvenfjandsamlegt raup um kynferðisbrot, í lekum myndböndum. Þetta breyttist á föstudag og óvinsældamælir Clinton tók kipp.
Íslendingar fylgjast með þessu makalausa og að því er virðist nánast endalausa pólitíska stríði og hugsa um sína hagsmuni. Það er algengt á samfélagsmiðlum að sjá þar endurspeglun á sviðsmyndinni um að baráttan sé á milli femínistans og karlrembunnar. Þessi sviðsmynd á sér ekki mikla endurómun hjá ungum konum í Bandaríkjunum sem flykktust um Bernie Sanders og hafa nú fengið sannanir fyrir því að flokksforystan í Demókrataflokknum vann markvisst gegn honum í forkosningunum, meðal annars í gegnum þægindalegt samband við fjölmiðla. Það ætti að vera umhugsunarefni af hverju róttækar ungar konur sáu hag sínum betur borgið með að styðja þennan öldung fremur en konu sem gæti orðið sú fyrsta á forsetastóli.
Svo hafa einhverjir Íslendingar áhyggjur af heimsstyrjöld og sjá Trump fyrir sér sem brjálæðinginn sem strýkur hvíta kettinum, hlær vitfirringslega, ýtir á kjarnorkutakkann og allt er búið. Það er nokkuð ólíkleg sviðsmynd af ýmsum ástæðum. Hin myndin sem menn ættu að huga að, er þessi; Hillary verður forseti með því að tapa óvinsældakosningunni naumlega. Sem sjóaður pólitíkus veit hún að besta leiðin til að auka vinsældir forseta er að fylkja þjóðinni um eins og eitt stríð. Það hefur alltaf svínvirkað. Í kappræðum frambjóðendanna stakk Hillary upp á flugbanni í Sýrlandi, til að verja óbreytta borgara, einkum í Aleppo, hvar flugfloti Rússa og Sýrlandsstjórnar hafa verið að slátra fólki og ekki gert mikinn greinarmun á almennum borgurum, öfgafullum íslamistum og andstæðingum Assads forseta, enda ekki auðvelt. En hvað þýðir þetta? Flugbanni er aðeins fylgt eftir með einu; vopnavaldi og hótun um að skjóta niður flugvélar. Hillary ætlar sem sagt að stilla Pútín upp við vegg, á alviðkvæmasta óreiðupotti sem fyrirfinnst á jörðinni í dag og hóta að skjóta niður orustuþoturnar hans. Þetta er meira ógnvekjandi sviðsmynd en myndin af Trump að fitla við kjarnorkutakkann. Hvaða land á hann líka að sprengja? Mexíkó?
Við sjáum veröldina í gegnum margar síur. Við horfum á heiminn og heimurinn á okkur. Um helgina var heimurinn að horfa á Ísland og helsta niðurstaðan var furða yfir því að nokkrum mánuðum eftir mestu fjöldamótmæli Íslandssögunnar þar sem spillingu var kröftuglega mótmælt kaus þjóðin yfir sig annan spillingarflokkinn, sem var mómælt. Það er hægt að malda í móinn og segja að málið sé ekki alveg svona einfalt en ágætt að hafa þetta í huga þegar Íslendingar horfa til Ameríku og furða sig á því að biluð karlremba hefur svona mikinn stuðning þegar svona fín femínistakona er í boði. Málið er nefnilega ekki svona einfalt. Það er það aldrei og það sem verra er; einföld mynd er næstum alltaf falsmynd.
Við lifum tíma þar sem markvisst er reynt að brengla skynjun okkar á veruleikanum. Fjölmiðlar eru gjarnir á að taka meðvitað eða ómeðvitað þátt í leiknum. Allt þarf því að vefengja. Öðru hvoru berast fólki þó sterkar vísbendingar um blekkinguna, eins og Truman upplifði í myndinni Truman Show; þegar ljóskastari datt skyndilega af himnum. Eða þegar sama fólkið var á endalausu hringferli um hverfið nú eða þegar uppljóstrari ruddist inn á sviðið og náði að hrópa sannleikann áður en viðkomandi var dreginn í burtu.
Eins og Truman þarf fólk að leggja á gerfihaf til að leita sannleikans. Það er örugglega sársaukafullt þegar stefni skútunnar hamrast inn í leikmyndina og opinberar blekkinguna. Smám saman eru hins vegar að myndast stórar rifur í leiktjöldin. Það getur verið sársaukafullt og erfitt að líta í gegnum götin, en öðruvísi verða ekki breytingar.
Óttinn við sannleikann er stærsta hindrunin í vegi jákvæðra breytinga. Þann ótta þarf hver og einn að sigra. Ekki vera hrædd.
Athugasemdir