Janúar er mánuður hins nýja lífs. Það er komið nýtt ár með nýjum tækifærum og nú skal lífið aftur í fastar skorður og röð og reglu. Í janúar tökum við mataræði okkar í gegn, hugum að hollri hreyfingu og tökum til í kringum okkur. Janúar er ferskur og nýr, dagarnir lengjast og við sjáum fram á bjartari tíma í orðsins fyllstu merkingu. Í janúar glittir í hamingjuna.
Hvað er hamingja? Gríski fornaldarheimspekingurinn Aristóteles hélt því fram að hamingjan væri tilgangur og markmið lífsins – að allir menn leituðu hamingjunnar. Hamingjuna væri ekki hægt að öðlast eða tapa skyndilega eins og góðri tilfinningu, heldur væri forsenda hennar að hafa lifað góðu lífi. Hamingjan væri þá uppsöfnuð niðurstaða lífs okkar og yrði okkur ljós þegar komið væri að endalokunum. Ég veit ekki hvort það þjónar neinum tilgangi að finna niðurnjörfaða skilgreiningu á hamingjunni – að hún sé þetta en ekki hitt, að hún sé aðeins heildarniðurstaða lífsins en ekki eitthvað sem maður getur upplifað mörgum sinnum á lífsleiðinni. Það er vel hægt að líta til baka yfir farinn veg án þess að vera kominn að endalokunum og velta fyrir sér hvort maður sé í mínus eða plús, hvort samtala lífsins, enn sem komið er, sé hamingja eða óhamingja.
„Sem unglingur reyndi ég að geðjast öðrum og vera eins og hinir, þrátt fyrir að það færði mér fátt annað en óöryggi og vanlíðan.“
Ég er sammála Aristótelesi um að hamingjan sé meira en vellíðan, hún nær yfir stærra svæði en stað og stund. Einhverra hluta vegna finnst mér óþægilegt þegar fólk segir mér að það sé mjög hamingjusamt eða hrikalega hamingjusamt, það finnst mér gengisfella hugtakið – hamingjan verður ekki stærri eða meiri með sterkum lýsingarorðum sér við hlið. Hamingjan hefur yfir sér töfraljóma sem þarf kannski ekki að tala svo mikið um, ef einhver er hamingjusamur geislar það af honum og það þarf ekki frekari vitnanna við.
Sá sem leitar hamingjunnar, eins og allir menn gera samkvæmt Aristótelesi, gerir gjarnan þau mistök að einblína á ytri gæði og aðstæður fremur en sig sjálfan. Þetta gerði ég sjálf lengi vel. Sem barn sóttist ég eftir því að vera hjá öðrum fjölskyldum og inni á öðrum heimilum en mínu eigin, þar sem hugmynd mín um hið fullkomna fjölskyldulíf, sem var forsenda hamingjunnar, samræmdist ekki upplifun minni af mínu fjölskyldulífi. Sem unglingur reyndi ég að geðjast öðrum og vera eins og hinir, þrátt fyrir að það færði mér fátt annað en óöryggi og vanlíðan. Sem ung kona rembdist ég eins og rjúpan við staurinn við að öðlast hamingju og uppskar hvert skipbrotið á fætur öðru því ég hreinlega vissi ekki hvað ég vildi. Þegar ég nú lít til baka er vissulega ýmislegt sem ég vildi hafa gert á annan hátt, en þá væri ég ekki sú sem ég er í dag. Þá hefði ég ekki lært það sem líf mitt hefur kennt mér og ég get miðlað áfram, þá gæti ég kannski ekki sagt að samtals væri ég í plús núna. Að einmitt núna fyndist mér líf mitt vera í þessu jafnvægi sem ég leitaði svo stíft að – núna þegar ég er hætt að rembast og leyfi lífinu að fljóta með mig frekar en að róa á móti straumnum. Kannski er þetta hinn stóri sannleikur og hin miklu gæði þess að verða fullorðinn, að hafa ekki of miklar áhyggjur af framtíðinni og stefnunni, að njóta þess sem lætur manni líða vel.
Breski heimspekingurinn John Stuart Mill sagði að það væri betra að vera óhamingjusamur Sókrates en hamingjusamt svín – betra að vera skyni gæddur maður sem færði fórnir til þess að bæta heiminn heldur en sá sem hefur það markmið eitt að svala sínum eigin nautnum. Einkunnarorð einnar persónu í spennuþáttunum Brúnni sem sýndir voru á RÚV voru að hamingjan væri val eða ákvörðun. Að það væri algerlega undir manni sjálfum komið hvort maður væri hamingjusamur eða ekki. Í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna er skilgreindur réttur fólks til lífs, frelsis og þess að leita hamingjunnar.
„Þegar hitt er farið, óþarfinn, óþægindin og leiðindin, þá eru töfrar hamingjunnar nær.“
Ef hamingjan er tilgangur lífsins og markmið hlýtur janúarátakið að snúast um að færa okkur nær því að öðlast hamingju. Með því að taka til, hreyfa okkur og borða hollan mat má vel telja sér trú um að maður sé að bæta heiminn, við gefum þeim sem á þurfa að halda það sem við losum okkur við í tiltektinni, hreyfingin viðheldur hreysti og við verðum (vonandi) lengur nýtir þjóðfélagsþegnar og kaup á hollum mat smyrja hjól atvinnulífsins. Svo eitthvað af þessu sé gert þarf að taka um það ákvörðun og þar með erum við búin að ákveða – ef ekki að verða hamingjusöm þá allavega að færa okkur nær hamingjunni.
Til þess að greiða leiðina að því markmiði sem hamingjan er hef ég í gegnum tíðina losað mig við þá hluti og þær athafnir sem flækjast fyrir mér. Ég hef smátt og smátt tileinkað mér mínímalískan lífsstíl án þess að hafa haft hugmynd um það. Þegar ég fór að skoða hvað slíkur lífsstíll felur í sér (og ég sem hélt að ég væri alls ekki þessi „lífsstílstýpa“!) sá ég að margt sem þar er fjallað um fellur mjög vel að mínu lífi og hvernig ég lifi því. Þessi stefna mín hefur orðið skýrari með árunum og með því að kynna mér hana með markvissara hætti, eftir að ég komst að því hvað hún heitir, finn ég alltaf fleiri og fleiri aðferðir sem nýtast mér. Það sem mér fellur einna best er hvað mínímalisminn er umburðarlyndur gagnvart hinum ýmsu dellum sem maður hefur, svo mjög að það má næstum því rökstyðja hverja einustu ákvörðun sem tekin er með vísun í mínímalisma. Þetta er einfaldlega tæki til þess að bæta líf sitt, færa sig nær hamingjunni. Maður þarf auðvitað að taka tillit til annarra og upp koma aðstæður sem ekki er hægt að stjórna, en þá gildir að feta sig eftir stígnum milli meðvirkni og tillitssemi. Stundum er erfitt að koma auga á þann stíg og stundum verða manni á mistök – en þá lærir maður af því. Að eiga það sem veitir manni gleði og maður þarf að eiga og gera það sem gleður mann (og aðra – og þar með mann sjálfan) og maður þarf að gera – það er minn galdur. Þegar hitt er farið, óþarfinn, óþægindin og leiðindin, þá eru töfrar hamingjunnar nær.
**Áslaug Guðrúnardóttir er markaðs- og kynningarstjóri Listasafns Reykjavíkur og höfundur bókarinnar Mínímalískur lífsstíll – Það munar um minna.
Athugasemdir