Nú stöndum við skötuhjú í því að kaupa okkar fyrstu íbúð. Þegar hinu ótrúlega þreytandi ferli að skoða eignir, bera þær saman, gera tilboð og fá gagntilboð er lokið tekur við hið ótrúlega niðurlægjandi ferli að láta bankann vega sig og meta til að athuga hvort ég sé þess verður að fá lánaðan pening.
Ég hef verið lagður á skrifborð þjónustufulltrúa og þar flakaður, roðflettur og ormahreinsaður. Skimað í alla króka og kima. Potað í fótsveppinn minn og dagbækurnar mínar frá unglingsárunum hafa verið lesnar upphátt á kaffistofum allra bankastofnana landsins.
Það er í rauninni ákveðin manndómsvígsla að fara í greiðslumat. Öllu stolti er kyngt niður eins og það sé bómullarsúpa í matinn. Á hnjánum við gyllta fætur Mammons. Má ég greiða þér, elskulegi andskoti, bróðurpartinn af laununum mínum næstu fjörutíu árin fyrir að fá lánaðan á mafíuvöxtum hjá þér pening, sem þú sannarlega skapar úr engu, og er – eins og ég – algjört klink í bókhaldinu þínu? Gerðu það, drottinn vor Mammon. Amen.
Ég sem hef lagt hart að mér við að hata kerfið. Úr smá fjarlægð er nefnilega augljóst að nútíma kapítalismi er fangelsi. En maður eignast kærustu og er sjúklega skotinn í henni. Heyrðu, hún bara skyndilega ólétt og allt í einu barn. Nú er helvítis bíllinn bilaður og leigan bugandi. Bleiur kosta líka sitt og leikskólar eru nú ekkert ókeypis og djöfull er maturinn hérna dýr og allt í einu ertu kominn í mun hærri vinnuprósentu en til stóð og hálfskrifuð skáldsagan rykfellur á harða drifinu og án þess að það hafi staðið til er anarkíska ljóðskáldið farið að skrifa pistla í dagblöð um jarðarför eigin hugsjóna til þess að fá pening til þess að kaupa íbúð til þess að eiga möguleika á að geta nú örugglega lagt öll launin sín beint inn á reikning eiganda bankans.
Enginn veit sína ævina fyrr en í greiðslumat fer.
Athugasemdir