Af hverju ættu einhverjir erlendir aðilar frekar að vilja eiga á banka á Íslandi núna en árið 2001 eða 2002? Fréttin um væntanlegt eignarhald íslenska ríkisins á Íslandsbanka er áhugaverð í meira lagi og kallar eðlilega á samanburð við árin eftir aldamótin síðustu þar sem vilji ríkisvaldsins á Íslandi til að selja ríkisbankana tvo, Landsbankann og Búnaðarbankann, var skýr. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í gær að alveg ljóst væri að ríkið hefði ekki hug á því að eiga bankana tvo til langframa ef svo fer að ríkið taki yfir Íslandsbanka líka. „Það er ekki æskilegt fyrir mitt leyti að ríkið haldi á þeim hlut lengi.“
Hverjir munu kaupa þessa hluti í þeim bönkum sem ríkið á í? Nokkuð ljóst er að það verða varla erlendir aðilar. Af hverju ættu þeir frekar að hafa áhuga á að kaupa íslenska banka af ríkinu frekar en kröfuhöfum þeirra? Og af hverju ætti einhver erlendur banki að hafa áhuga á því að koma inn á tiltölulega nýhruninn markað sem telur 300 þúsund íbúa og þar sem gjaldmiðilinn er sá minnsti sjálfstæði í heimi? Pólitíska landslagið er afar ótryggt og sjálfsagt ekki mikill vilji fyrir því að erlendir aðilar eignist íslensku bankana - ekki það að margir séu um hituna.
Svo er það Arion banki. Litlar sem engar líkur eru á því kröfuhafar þess banka geti selt hann til erlendra aðila. Af hverju ættu erlendir aðilar frekar að hafa áhuga á Arion banka en Íslandsbanka. Sá banki er líka, í alþjóðlegu samhengi, bara lítill banki á Íslandi. Fréttablaðið segir frá því í dag hópur fjárfesta, meðal annars lífeyrissjóðir og útgerðarkonan Guðbjörg Matthíasdóttir í Vestmannaeyjum, hafi átt í viðræðum við verðbréfafyrirtækið Arctica Finance um kaup á Arion banka. Segja má að það sé einnig alveg ljóst að sá banki verði ekki til langframa í eigu erlendra aðila. Munurinn er hins vegar sá, ef kröfuhafar Arion selja beint til einhverra íslenskra aðila, að ekki er hægt að gagnrýna slík viðskipti einkaðila með hlut í fjármálafyrirtæki eins og gildir þegar ríkisvaldið á í hlut.
Einkavæðing við betri aðstæður
Einkavæðing ríkisbankanna 2002 og 2003 fór ekki fram eftir allsherjar bankahrun heldur hafði íslenska ríkið verið stærsti eigandi þeirra um langt skeið og má segja að ástandið á Íslandi og orðspor landsins hafi verið miklu traustara þá en nú. Við síðustu bankasölu var samt í raun bara einn erlendur aðili sem sýndi ríkisbönkunum áhuga, SEB-bankinn í Svíþjóð sem vildi kaupa allt að 50 prósenta hlut í Landsbankanum árið 1998.
Ætli SEB hafi áhuga á Íslandsbanka í dag? Hagnaður SEB í fyrra nam tæplega 300 milljörðum íslenskra króna á meðan hagnaður Íslandsbanka nam tæplega 23 milljörðum. Hagnaður Íslandsbanka nam því tæplega 8 prósentum af hagnaði SEB-bankans enda búa rétt aðeins fleiri á Íslandi en í skánsku borginni Malmö; Svíþjóð er um 30 sinnum fjölmennara land en Ísland. Ef við tölum um breska, þýska eða kínverska banka erum við svo komin í allt aðrar stærðir en þegar skandinavískir bankar eru bornir saman við þá íslensku. Ég held að erlendir bankar nenni ekki nú að taka þá áhættu sem fylgir því kaupa íslenskan banka því hún er ekki þess virði út af smæð landsins, efnahagslegum og pólitískum óstöðugleika á Íslandi auk auðvitað gjaldeyrishaftanna.
„Við vildum að einkavæðingarferlið væri opið, gegnsætt og menn hefðu leyfi til að bjóða í þetta, allir, með opnu ferli.“
Vilji „bláu“ og „grænu kallanna“
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var fjallað um ástæður þess að SEB hætti við að reyna að kaupa Landsbankann á sínum tíma og var haft eftir íslenskum starfsmanni þess banka, Óttari Guðjónssyni, að pólitíkin í málinu hefði verið mikil: „Eftir að SEB hafi unnið mat á bankanum (due diligence) segir Óttar að viðræðum hafi óvænt verið hætt af hálfu íslenska ríkisins og að SEB hafi ekki, svo Óttar viti, fengið viðhlítandi skýringar á því. Hann hafi þó skynjað pólitíkina í þessu máli og vísar í fyrrnefnt plagg viðskiptaráðuneytisins þar sem „bláu kallarnir fengu að halda Íslandsbanka og Búnaðarbanka og þá voru grænu kallarnir að vonast til að fá að halda [...] völdum í Landsbankanum í gegnum SE-bankann, [...] en það stóð ekki til af okkar hálfu”.“
Í skýrslunni var auk þess haft eftir Davíð Oddssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, að hann öðrum fremur hefði haft þau áhrif að viðræðum við SEB var hætt þar sem hann taldi ekki rétt að hefja viðræður við erlendan banka án þess að gefa öðrum færi á að bjóða í bankana. „Við vildum að einkavæðingarferlið væri opið, gegnsætt og menn hefðu leyfi til að bjóða í þetta, allir, með opnu ferli.“
Hvað gerðist svo? Íslenskir aðilar handgengnir flokkununum tveimur enduðu á því að kaupa báða bankana, „grænu kallarnir“ fengu Búnaðarbankann og „bláu kallarnir“ fengu Landsbankann. Svo fengu kaupendur Búnaðarbankans meira að segja að kaupa hlutabréf Landsbankans í Vátryggingafélagi Íslands í einkavæðingarferli sem alls ekki var „opið“ og „gegnsætt“.
Eins og Steingrímur Ari Arason, þáverandi fulltrúi fjármálaráðherra í einkavæðingarnefnd, orðaði það í endursögn rannsóknarnefndarinnar: „Steingrímur Ari telur jafnframt að ákvörðun um hverjum ætti að selja bankana hafi legið fyrir hjá ráðherrunum áður en hlutir bankanna voru auglýstir. Samkvæmt lýsingu Steingríms Ara var horfið nánast frá öllum helstu verklagsreglum einkavæðingarnefndar á þessum tímapunkti.“ Að hans mati voru það í raun Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson sem „tóku ákvarðanirnar“ í einkavæðingarferlinu.
Þessi brogaða einkavæðing bankanna var svo upphafið að því góðæri sem endaði með fjármálahruninu árið 2008. Þá hafði bankakerfið vaxið frá því að vera um tvöföld landsframsleiðsla að stærð árið 2002 upp í að vera um tólfföld landsframleiðsla. Rétt eins og árið 2002 er stærð bankakerfisins nú um tvöföld landsframleiðsla og rétt eins og þá stefnir í að íslenska ríkið haldi brátt utan um eignarhald tveggja stórra - á íslenskan mælikvarða - banka sem það þarf að selja til íslenskra aðila.
„Bjarni Benediktsson hefur lagt fram ótrúlegt frumvarp“
Spillt einkavæðing ekki gefin en...
Nú er það auðvitað alls ekki gefið næsta einkavæðing á íslenskum ríkisbönkum verði eins gölluð og svo sú síðasta. Bjarni Benediktsson segir auðvitað að mikilvægt sé að stíga varlega til jarðar og tryggja að allir sitji við sama borð við sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum.
Á sama tíma liggur fyrir að Bjarni hefur verið að styrkja tök sín og ríkisstjórnarinnar á Bankasýslu ríkisins, ríkisstofnuninni sem sett var á laggirnar til að halda utan um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjunum. Í ágúst var trúnaðarmaður Bjarna, Lárus Blöndal, sem var fulltrúi stjórnarandstöðunnar í Icesave-nefndinni á síðasta kjörtímabili settur yfir stjórn Bankasýslunnar. Þá var Sigurjón Örn Þórðarson, framkvæmdastjóri Kringlunnar og fyrrum aðstoðarmaður Árna Magnússonar, félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins, á árunum 2003 og 2006.
Þetta gerðist eftir að Bjarni hafði lagt fram frumvarp þess efnis að Bankasýsla ríkisins yrði lögð niður og að verkefni hennar myndu færast undir ráðuneyti hans. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi Bjarna harðlega fyrir þessa hugmynd: „Bjarni Benediktsson hefur lagt fram ótrúlegt frumvarp sem í grunnatriðum er svona: Bankasýslan er lögð niður og í staðinn leggur Bjarni til að hann sjálfur sem fjármálaráðherra fái vald til að taka aleinn – “að eigin frumkvæði“ -ákvörðun um sölu 30% hlutar í Landsbankanum, allra hluta ríkisins í Arion og Íslandsbanka og í sparisjóðunum.“
Ekkert varð af því að þetta frumvarp yrði að lögum en í kjölfar þessa var skipuð pólitísk stjórn yfir Bankasýslu ríkisins.
„Á því geta þó verið réttmætar undantekningar.“
Borgunarsporin hræða
Þrátt fyrir að auðvitað sé það ekki gefið að næsta einkavæðing ríkisbanka verði spillt þá eru ýmis nýleg spor sem hræða. Ættingjar Bjarna Benediktssonar voru til dæmis í fjárfestahópnum sem fékk að kaupa hlut Landsbankans í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Borgun í fyrra fyrir um 2.2 milljarða króna. Í ársbyrjun var ákveðið að greiða 800 milljóna arð út úr fyrirtækinu. Sú sala Landsbankans var ekki opin og gagnsæ, frekar en til dæmis sala Landsbanka Íslands á hlutabréfum sínum í VÍS til tilvonandi eigenda Búnaðarbankans árið 2002 og fjölskyldufyrirtækis Halldórs Ásgrímssonar, sem Steingrímur Ari Arason sagði að hefði stýrt einkavæðingu ríkisfyrirtækja.
Landsbankinn útskýrði hins vegar af hverju salan á Borgun hefði ekki verið opin og gegnsæ: „Salan hefur verið gagnrýnd á þeim forsendum að hluturinn hafi ekki verið auglýstur til sölu og hlutaféð ekki selt í opnu ferli. Almennt leitast Landsbankinn við að selja eignir í opnu söluferli eins og fjölmörg dæmi eru um. Á því geta þó verið réttmætar undantekningar.“
Rétt eins og Landsbankinn heyrir undir Bankasýslu ríkisins þá mun Íslandsbanki gera það einnig ef íslenska ríkið tekur bankann yfir og Bankasýslan lýtur á endanum valdi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar. Og Bjarni hefur nú þegar sýn það í verki að hann vilji ná Bankasýslu ríkisins beint inn á borð til síns ráðuneytis. Alltaf er hægt að rökstyðja „réttmætar undantekningar“ frá opnu og gegnsæju söluferli á ríkiseignum ef viljinn er fyrir hendi. Svo er auðvitað alltaf hægt að segja að flokksbræður, ættingjar og vinir íslenskra ráðmanna eigi ekki að líða fyrir þau tengsl sín við kaup á ríkiseignum.
Íslenska bankakerfið virðist nánast dæmt til þess að verða áfram nær alfarið í eigu íslenskra aðila á næstu árum. Lærdómar hrunsins eru auðvitað þeir meðal annars að standa þurfi faglega að einkavæðingu ríkisbanka því annars geti fjandinn orðið laus.
Athugasemdir