Nýjársdagsmorgunn. Hvítur blindrastafur í forstofunni. Ég staldra við. Horfi. Hann var ekki hér fyrir ári síðan. Í byrjun síðasta árs flutti ég fyrirlestur um áföll á vegum samtaka um sorg og sorgarviðbrögð alls óafvitandi um sorgina sem árið 2015 bar í skauti sér. Elsti sonur minn missti sjónina eftir heilaaðgerð um hásumar. Átti hann einhvern tíma eftir að líta glaðan dag? Átti ég eftir að líta glaðan dag? Af hverju var þetta ekki frekar lagt á mig, sem hef séð meira af lífinu, en son minn? Spurningar sem þessar og ótal fleiri leita á í kjölfar alvarlegra áfalla.
En þetta á að vera pistill um hamingjuna. Ég hef áður verið beðin um að fjalla um hamingjuna, farsældina eða hvað við veljum að kalla þetta viðvarandi jafnaðargeð sem býr að baki ölduróti daganna, gleðinni, gremjunni, sorginni og áföllunum sem lífið færir okkur. Á níunda áratugnum hafði Jón Björnsson sálfræðingur samband við mig, sálfræðingurinn sem vildi ekki verða inni og sagði starfinu lausu til að leggja upp í krefjandi ferðalög, skrifa og skemmta landanum með óborganlegum pistlum. Oft hef ég blessað bæði Jón og Ríkisútvarpið þegar ég rek upp hlátursrokur límd við útvarpstækið. En Jón sagðist sem sé eiga við mig erindi sem hann vildi ekki ræða í síma og mætti á stofuna til mín eins fljótt og við var komið. Það skal tekið fram að tölvupóstur var ekki fram kominn á þessum árum, einhvern veginn komumst við af án hans þótt ég eigi bágt með að skilja það nú. Og erindið sem Jóni fannst vissara að bera upp augliti til auglitis var að biðja mig um að fjalla um hamingjuna frá sálfræðilegu sjónarmiði á væntanlegri ráðstefnu. „Hamingjuna?“ át ég upp eftir honum vantrúuð. Já, hann hafði átt von á að mér þætti þetta undarlegt erindi. Hvað hafði svo sem verið skrifað um hamingjuna í sálarfræðibókum? Hvaða heimildir gæti ég leitað í? Jón sagðist þó vita um eina bók, The Psychology of Happiness eftir Michael nokkurn Argyle. Hún væri að vísu nokkuð jarðbundin en betri en ekkert. Og ég sló til. Pantaði bókina og skannaði þéttsetnar bókahillurnar á heimili mínu. Og viti menn – þar fann ég þykka bók sem ég hafði keypt á námsárunum í Bandaríkjunum, Pathfinders (Brautryðjendur), sem byggir á umfangsmikilli könnun á því sem einkennir hamingjusamt fólk. Fyrirlesturinn varð allnokkuð lengri en ráð var fyrir gert og birtist síðan í fyrsta eintaki Sálfræðiritsins árið 1990. Annar velviljaður starfsbróðir sem líka heitir Jón benti mér á að þetta hefði verið fyrsta greinin um jákvæða sálarfræði á íslensku.
„Lífið er stundum grimmt og ósanngjarnt og hvað getur maður þá annað gert en að grípa hverja gleðistund traustataki með því að sleppa sér lausum og gera grín?“
En ég minnist þess líka að þegar ég flutti fyrirlesturinn hafði einhver á orði að hann væri nokkuð jarðbundinn (og þar er auðvitað bók Michaels nokkurs Argyle um að kenna) en ég varði mig með að benda á að heppilegt væri að vera með annan fótinn á jörðinni. Annan. Ekki báða. Alls ekki báða. Og ég hef styrkst í þeirri trú eftir því sem árunum fjölgar og þar með gleðistundunum og áföllunum. Því lífið er stundum grimmt og ósanngjarnt og hvað getur maður þá annað gert en að grípa hverja gleðistund traustataki með því að sleppa sér lausum og gera grín? Það hef ég lært á seinni helmingi síðasta árs. Oft hef ég undrast og dáðst að þolinmæðinni, jafnaðargeðinu og húmornum sem elsti sonur minn hefur sýnt í erfiðleikum sínum. Kímnin er ein leið til að stíga út fyrir sjálfan sig, sjá hlutina í stærra samhengi og skrifa sögu sína sjálfur þótt hluti hennar sé ekki á manns valdi. Japanski rithöfundurinn Murakami líkir áföllum við það að svamla einn í köldum nætursjónum og komast af. Og hann leggur einni söguhetju sinni í munn: „Við höfðum þetta af. Þú og ég. Og á þeim sem lifir af hvílir skylda. Það er skylda okkar að lifa eins vel og við getum. Jafnvel þótt líf okkar sé ekki fullkomið.“
Og þessi orð leiða okkur aftur að hamingjunni. Því það kemur fram aftur og aftur að þeir sem telja sig gæfusama hafa ekki farið varhluta af skakkaföllum, vonbrigðum og erfiðri lífsreynslu. Á síðari helmingi tuttugustu aldarinnar var sú skoðun útbreidd að slétt og fellt líf, laust við kollsteypur og óvæntar uppákomur myndi leiða til mestrar farsældar. En kannanir á hamingjunni leiddu í ljós að svo er alls ekki. Þeir sem hamingjusamastir voru í könnun Gail Sheehy litu svo á að þeim hefði einhvern tíma mistekist verulega á lífsleiðinni, þeir staðið á krossgötum og upplifað miklar breytingar sem og ýmis áföll. Það sem gerði gæfumuninn var hvernig fólk hafði tekist á við kreppurnar í lífi sínu. Þeir sem hamingjusamastir voru höfðu sýnt hugrekki og horfst í augu við raunveruleikann og nýta sér það sem þeir bjuggu yfir til að finna nýja leið í lífinu. Áföll geta aukið sjálfsþekkingu og tengt okkur við styrk sem var okkur hulinn þegar allt lék í lyndi. Þau geta dýpkað okkur sem manneskjur, opnað hjarta okkar og aukið samkennd og skilning á erfiðleikum annarra. Lífsraunirnar geta átt stóran þátt í að gefa lífi okkar merkingu og tilgang. En það lífsviðhorf, að finnast líf manns hafa merkingu og stefnu, reyndist hafa langmest að segja fyrir lífshamingju fólks samkvæmt bókinni góðu sem ég lumaði á í bókahillunni og ég veit ekki til að sú kenning hafi verið hrakin. Mig langar að vitna í einn þátttakanda í hamingjurannsókn sem hafði þetta að segja (og ef einhverjum finnst að þetta gæti allt eins verið þátttakandi í „góðærinu“ mikla á Íslandi 2007 lái ég honum ekki):
„Líf mitt hefur verið stórfínt síðastliðin ár, nóg af peningum, kvenfólki, vinum, alls kyns tómstundaiðju og ferðalögum. Ég er í góðu starfi og stend mig vel …fæ sennilega kauphækkun á árinu og frjálsar hendur til að gera það sem ég vil. En allt er einhvern veginn merkingarsnautt. Hvert stefnir líf mitt? Hvers vegna er ég að gera það sem ég er að gera? Ég hef á tilfinningunni að ég láti berast með straumnum. … Þetta er eiginlega eins og að keyra eftir einhverjum vegi. Það gengur snurðulaust, en maður hefur ekki hugmynd um hvers vegna maður valdi einmitt þennan veg né hvert hann liggur.“
Tilgangur lífsins er ekki fólginn í hlutum, athöfnum eða peningum – ekki einu sinni velgengni. Hann er fólginn í manneskjunni sjálfri og viðhorfi hennar til lífsins. Og hamingjan kemur ekki upp í hendur okkar, fyrirhafnarlaust. Lífið öðlast merkingu og tilgang við það að við leggjum á okkur að huga alvarlega að viðhorfi okkar og tengslum við samferðafólk og stígum skrefin sem færa okkur nær langtímamarkmiðum okkar. Við áföll opnast gluggi breytinga í lífi okkar því að þau knýja okkur út af beinu brautinni. Þau geta orðið nokkurs konar „wake up call“. Vakið okkur til vitundar um það sem skiptir raunverulega máli. Orðið til þess að breyta lífssýn okkar, gildismati og forgangsröðun í lífinu. Við neyðumst til að staldra við. Horfa. Hugsa. Verða meðvituð. Hvernig ætla ég að skrifa næsta kafla í lífssögu minni?
Anna Valdimarsdóttir er sálfræðingur og höfundur bókanna Hugrækt og hamingja og Leggðu rækt við sjálfan þig.
Athugasemdir