Samherjamálið er ekki búið - bara svo það sé á hreinu. Þó embætti sérstaks saksóknara hafi vísað málinu frá og muni þar af leiðandi ekki sækja forsvarsmenn Samherja til saka persónulega fyrir meint brot á lögum um gjaldeyrismál þá þýðir það ekki að búið sé að hreinsa akureyska útgerðarfyrirtækið af þessum meintu brotum. Í frétt frá Seðlabanka Íslands um niðurfellinguna segir orðrétt: „Í niðurstöðu sinni sem kynnt var bankanum sl. föstudag gerir embætti sérstaks saksóknara ekki athugasemd við að kærð háttsemi geti talist brotleg við lög.“
Samherjamálið snýst um það í grunninn að gjaldeyrir vegna viðskipta Samherja, og eða dótturfélaga þess, hafi ekki skilað sér með réttmætum hætti til landsins. Eins og Stundin greindi frá í síðustu viku þá er meðal annars um að ræða níu milljarða króna viðskipti pólsks dótturfélags Samherja.
Sumir tala nú um - eftir frávísun sérstaks saksóknara á málinu sem hugsanlegu sakamáli sem beinist gegn einstaklingum innan Samherja - eins og þar með liggi ljóst fyrir að Samherji hafi ekki brotið af sér og að forsvarsmenn Seðlabankans þurfi jafnvel að víkja vegna málsins. Seðlabankinn er ekki ákæruvald en honum ber að vísa málum sem metin eru sem meint lögbrot til ákæruvalds. Skoðun ákæruvaldsins á Samherjamálinu leiddi hins vegar í ljós þessa niðurstöðu núna: Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, verður ekki ákærður í því eða aðrir stjórnendur útgerðarinnar.
Bent á sumt en öðru sleppt
Þessi niðurstaða er hins vegar ekki endanleg. Seðlabankinn er nú að skoða niðurstöðu sérstaks saksóknara og mun í kjölfarið taka ákvörðun um það hvort bankinn mun una niðurstöðu embættisins eða kæra niðurstöðuna til Ríkissaksóknara. Embætti Ríkissaksóknara getur svo hugsanlega komist að annarri niðurstöðu en embætti sérstaks saksóknara og sagt að ekki hafi verið réttmætt að vísa málinu frá. Þá mun rannsókn Samherjamálsins sem sakamáls halda áfram og eftir atvikum leiða til annarrar niðurstöðu en núna. Seðlabankinn getur líka ákveðið að sekta Samherja fyrir hin meintu brot á lögum um gjaldeyrismál. Svo er málið einnig til skoðunar hjá embætti Skattrannsóknarstjóra samkvæmt frétt RÚV frá því í síðustu viku þar sem greint var frá því að sérstakur saksóknari hefði vísað málinu þangað.
Þorsteinn Már kýs hins vegar að halda þeirri niðurstöðu embættisins ekki á lofti heldur aðeins þeirri sem hugnast honum: Að sérstakur saksóknari höfði ekki sakamál gegn honum og eftir atvikum öðrum Samherjamönnum. Þorsteinn Már vildi heldur ekki láta RÚV fá bréf sérstaks saksóknara til Samherja, væntanlega af því eitthvað í því kemur sér ekki vel fyrir útgerðina. Þorsteinn Már vill aðeins, og kannski eðlilega í ljósi hagsmuna hans og stöðu, að upplýsingar um málið sem eru hentugar Samherja komi fram opinberlega. Samherjamálið gæti þó hins vegar verið rannsakað aftur hjá ákæruvaldi, Samherji gæti þurft að greiða sekt og skattrannsóknarstjóri gæti komist að sjálfstæðri niðurstöðu í málinu sem Samherji þarf að virða.
Málið er því alls ekki svart-hvítt; Samherji hefur ekki fengið endanlega syndaaflausn, alhreinsað mannorð eða uppreist æru. Samherjamálið er miklu nær því að vera grátt á þessari stundu.
Þorsteinn Már Baldvinsson hefur meira að segja aldrei útilokað að vel kunni að vera að fyrirtæki hans hafi gert mistök og hugsanlega brotið reglur. Í viðtali við Stundina í síðustu viku sagði Þorsteinn Már: „Brot er eitthvað að mínu mati sem maður fremur með vilja. Ég hef hins vegar alltaf sagt að það geti vel verið að við höfum gert mistök einhvers staðar. Hins vegar veit ég ekki hver þau eru þannig að ég hef alltaf viljað fá að sjá hvað það er sem við eigum að hafa gert rangt. Við unnum undir gríðarlega breyttu regluverki og undir gríðarlegri pressu á árunum 2008, 2009 og 2010 við að reka fyrirtækið. Ég hef ekki fundið þessi brot og sérstakur saksóknari staðfestir þetta. En Seðlabankinn, það virðist bara ekkert geta stoppað Seðlabankann. Miðað við það sem bankinn hefur gefið frá sér núna þá skal bara áfram haldið.“
Í ljósi þessa er nokkuð furðulegt hvað Þorsteinn Már er afdráttarlaus í gagnrýni sinni á rannsókn bankans.
„Brot er eitthvað að mínu mati sem maður fremur með vilja.“
Merking orðsins „brot“
Þorsteinn Már hefur þann skilning á orðinu „brot“ að það sé eitthvað sem framið er viljandi. Ég held raunar að sá skilningur Þorsteins Más sé ekki réttur en ég skil samt hvað hann á við. Auðvitað er hægt að brjóta lög og reglur óviljandi en ekki meðvitað og að yfirlögðu ráði.
Hugurinn á bak við brotið skiptir auðvitað máli að lagalegu og siðferðilegu leyti: Brot manns eða fyrirtækis er ámælisverðara ef það var framið viljandi og að yfirlögðu ráði. Maður sem deyðir annan viljandi hefur framið ámælisverðara brot en sá sem gerir það af gáleysi; maður eða fyrirtæki sem viljandi heldur fjármunum frá skattinum er gagnrýniverðara en sá aðili sem gerir það óvart eða sökum gleymsku; maður sem gleymir sér og keyrir á 110 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 og hefur ekki gerst sekur um eins ámælisvert brot og maður sem fer í kappakstur við annan á þjóðvegi og keyrir á 180 kílómetra hraða og svo framvegis.
En þetta eru samt sem áður brot þó viljaverkin séu auðvitað ámælisverðari. Ef Samherji hefur gerst sekur um brot þá er það samt brot þó það sé ekki eins ámælisvert ef um óviljaverk var að ræða, mistök við greiðslu á sköttum eða eitthvað slíkt. Og ef Samherji hefur framið viljandi eða óviljandi brot þá getur Þorsteinn Már ekki gagnrýnt þær stofnanir samfélagsins sem eiga að rannsaka slík brot því það er þeirra hlutverk. Getur verið að hluti vandamálsins í Samherjamálinu sé þessi skilningur, eða misskilningur, Þorsteins Más á því hvað felst í orðinu „brot“?
Þriggja ára PR-stríð
Þá skal það rifjað upp að fyrir rúmum þremur árum þegar rannsókn Seðlabankans á meintum brotum Samherja hófst reyndi Þorsteinn að beita efnahagsþvingunum til að koma í veg fyrir rannsóknina. Þá lét hann þýskt dótturfélag Samherja stöðva viðskipti við Ísland vegna rannsóknarinnar sem fól í sér að afli barst ekki í fiskvinnslu Samherja á Dalvík. Þá, alveg eins og nú, mátti ætla að Þorsteinn Már og Samherji hefðu ekki gert neitt rangt og að rannsóknin væri byggð á sandi. Svo gekkst Þorsteinn Már við hugsanlegum mistökum þrátt fyrir að hafa beitt þessum aðferðum í því PR-stríði sem farið hefur fram á milli Samherja og Seðlabanka Íslands síðastliðin þrjú ár.
Þorsteinn Mar reynir auðvitað samt að stilla málinu upp sem svart-hvítu í fjölmiðlum þegar hann getur, jafnvel þó hann útiloki ekki möguleikann á brotum sem ekki voru viljaverk. Þessi viðleitni hljómar sannarlega mótsagnakennd í ljósi þess að hann viðurkennir möguleikann á hugsanlegum mistökum. En forstjórinn er auðvitað bara að verja sjálfan sig og sitt fyrirtæki með kjafti og klóm. Hann reynir að stilla sér upp sem fórnarlambi sem búið sé að hreinsa af allsendis ósönnum ávirðingum á sama tíma og hann gengst við hugsanlegum mistökum og fyrir liggur að málinu er ekki lokið.
„Ég grét ekki en það grétu margir aðrir.“
Svona ættu þeir ekki tala sem hafa framið brot
Í viðtali í DV fyrir helgi var hann meira að segja spurður að því hvort hann hefði grátið út af rannsókn málsins. Í viðtalinu sagði á eftir þeirri spurningu: „Það er löng þögn og Þorsteinn Már lítur út um gluggann. Ósjálfrátt í átt að Seðlabankanum. Svo segir hann lágum rómi. „Ég grét ekki en það grétu margir aðrir. Mér leið að hluta til eins og á strandstað fyrir tíu árum.“ Hér vitnar Þorsteinn Már til þess þegar flaggskip Samherja, Baldvin Þorsteinsson, strandaði skammt frá Vík í Mýrdal. „Mér leið svona svipað og þá. Þegar maður er sakaður um svo alvarlega hluti þá er mannlegt að efast. En maður verður að geta treyst sjálfum sér og maður verður að geta treyst hópnum og, ekki síst, hópurinn verður að geta treyst skipstjóranum. Ég er mínu fólki þakklátur fyrir að hafa trúað á mig. Maður er alltaf með hangandi yfir sér spurninguna, gerðirðu eitthvað? Það er svo auðvelt að fleygur myndist milli starfsfólksins og forstjórans við þær aðstæður.“
Maður sér Þorstein Má fyrir sér sem einhvers konar ígildi Nelson Mandela, eða annars fórnarlambs augljósra mannréttindabrota, harðræðis eða ranglætis stjórnvalda, horfa í áttina að Robben-eyju þar sem ríkisstjórn aðskilnaðarsinna í Suður-Afríku lét hann dúsa í fangelsi í nærri 30 ár. Aumingja maðurinn; sannarlega var á honum brotið!
Svona ættu aðeins þeir að tala sem alfarið hafa verið hreinsaðir af ávirðingum um meint brot. Þetta á hins vegar ekki við um Samherja á þessu augnabliki þó Þorsteinn Már vilji að fólk haldi það, jafnvel þó hann viti sjálfur betur. Samherjamálið er ekki hvítt núna: Það er ennþá grátt. Áður en endanleg niðurstaða liggur fyrir í Samherjamálinu er ekki hægt að fullyrða neitt um málið, eins og til dæmis það að Þorsteinn Már og Samherji hafi verið fórnarlamb í því og að Már Guðmundsson seðlabankastjóri þurfi að axla ábyrgð út af því og eftir atvikum víkja úr starfi sínu eins og Þorsteinn Már kallar nú eftir.
Hvort Þorsteinn Már Baldvinsson og Samherji hans frömdu einhver brot liggur enn ekki fyrir. Hvorki er rétt að fullyrða á þessari stöndu að svo hafi ekki verið né að svo hafi verið. Miðað við orð Þorsteins Más sjálfs og svo Seðlabankans og sérstaks saksóknara virðist hins vegar vera eitthvað í málinu - kannski óviljandi brot - sem þarfnast sannarlega skoðunar. Hvort Seðlabankinn hafi farið fram úr sér við rannsókn málsins mun heldur ekki liggja fyrir fyrr en endanleg niðurstaða liggur fyrir í málinu.
Athugasemdir